Frb. 9365: Ræður Ragnar Reykás för?

Ég get ímyndað mér að skoðanir og afstaða Ragnars Reykáss til kosninganna til Stjórnlagaþingsins hafi verið nokkurn veginn svona, annars vegar í september og hins vegar núna:

..............................................................................................................................................

Sept:

Þjóðin hefur lýst algeru vantrausti á Alþingi og stjórnvöld og það er ekki spurning að það er kallað eftir því að fólkið fái að ráða sjálft á lýðræðislegan hátt. Það er krafan í dag svo að hægt sé að minnka spillinguna og alls konar vankanta eins og misvægi atkvæða og svoleiðis. Það er fullt af hæfu fólki sem þjóðin sjálf á að fá að velja sér beint, og það er krafan í dag, það er ekki spurning. Nú þarf fólkið að sýna samtakamátt sinn og taka til sinna ráða og þátttakan verður að vera yfirgnæfandi mikil. 

Nóv:

Nei, heyrðu nú, 523 frambjóðendur! Ma-ma-ma-maður bara áttar sig ekki á þessu! Hvernig á venjulegt fólk að geta valið úr öllu þessu kraðaki? Þetta er algert klúður og bara sóun á peningum að vera með svona vitleysu. Þjóðin lætur ekki bjóða sér svona, það er ekki spurning. 

..............................................................................................................................................

Sept: 

Það er búin að vera svo mikil spilling í kringum þessa spilltu stjórnmálamenn með milljóna tuga fjáraustri í rándýrar auglýsingar fyrir prófkjörin. Það þarf að stöðva þessa spillingu og bruðl, það er ekki spurning. 

Nóv:

Það er alveg fráleitt, hvað litið er gert til þess að maður fái við vita hvaða fólk þetta er sem er í framboði. Það er lágmark að kynna það almennilega, annars er ekki að vita nema alls konar sérvitringar verði kosnir.  Það ber allt að sama brunni að langflestir láta ekki bjóða sér að taka þátt í svona klúðri.

..............................................................................................................................................

Sept:  

Nú þarf þjóðin að sýna gagnslausum stjórnvöldum í tvo heimana og sýna samtakamátt sinn með því að fylkja sér um nýtt og ferskt fólk til að hreinsa til, það er ekki spurning. Við heimtum beint lýðræði þar sem almenningur er virkjaður með tilkomu hæfileikafólks til þess að ryðja burtu ónýtum stjórnmálamönnum á Alþingi og í sveitarstjórnum! 

Nóv:

Nú kemur það í ljós að Alþingi ræður því alveg hvort það tekur mark á tillögum Stjórnlagaþingins og þá er það er hvort eð er alveg tilgangslaust að vera eyða mörgum mánuðum og hundruðum milljóna í þetta. Ma-ma-maður bara áttar sig ekki á svona vitleysu og það er ekki spurning, að fólk lætur ekki plata sig til að taka þátt í henni.

................................................................................................................................................

Eitt stendur þó alveg upp úr, hvað sem Ragnar Reykás segir: Því meiri sem kjörsókn verður, því meiri von er til þess að gagn verði að komandi Stjórnlagaþingi. Því sendi ég út síðustu herhvötina: "Koma svo og kjósa!

 

 


mbl.is Dræm kjörsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frb. 9365: Svar: Nei, hið fullkomna lýðræði !

Ein skemmtilegasta alíslenska hefðin sem skapast hefur eru blöndurnar sem mynda jólaölið.

Stærsti kosturinn að mínu mati er sá, að auk þess sem hægt er að kaupa tvær mismunandi gerðir af jólaöli getur hver sem er haldið sínu gamla striki og blandað þetta sjálfur í þeim hlutföllum, sem henta honum. 

Ég hef meira að segja í áratugi verið með enn eina blönduna, sem er malt-appelsín-kók(pepsí). 

Þessi jólablanda er því fullkomlega lýðræðisleg líkt og kosningin á Stjórnlagaþingið í dag, þar sem hægt er að velja blöndu af fólki sem byggist á því að geta valið 25-31 fulltrúa úr 523. 

Hvet fólk til að notfæra sér þetta einstaka lýðræðislega tækifæri, sem verður að takast!  Koma svo!


mbl.is Er til rétt blanda af malti og appelsíni?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frb. 9365: Koma svo! Auðlindirnar í þjóðareign!

Ofangreind upphrópun, "koma svo!" er oft notuð þegar fólk gengur til keppni og verkefna. Hún á vel við í dag um hið einstæða tækifæri sem Stjórnlagaþingið gefur.

Ég heyri utan að mér þennan morgun að einhverjir viti ekki um afstöðu mína til eignarhalds á auðlindum. 

En hún er skýr: Íslandshreyfingin varð fyrst allra fyrir kosningarnar vorið 2007 að vara við því sem væri að gerast í málefnum HS orku. 

Síðan þá hefur hún ítrekað þetta alla tíð í yfirlýsingum og ég skrifað um það stanslaust allan þennan tíma. 

Kannski hef ég ekki tekið þetta nógu skýrt fram núna vegna þess að ég hélt að þessi afstaða mín ætti að liggja ljós fyrir en best er að ítreka þetta enn einu sinni. 

Að öðru leyti ætti fólk að vita hvar það hefur mig í þessu og öðru. 

Mikið mannval er í boði í kosningunum og ég hvet því fólk að nýta rétt sinn: "Koma svo!"


mbl.is Kosningin fór rólega af stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband