28.11.2010 | 23:10
Enn einu sinni spurt: "hver?" - en ekki "hvað?"
"Getur nokkuð gott komið frá Nazaret?" var spurt forðum tíð þegar fréttist af manni frá þeirri borg, sem væri markverður.
Þessi spurning snerist ekki um það hvað maðurinn hefði fram að færa heldur hver hann væri.
Íslensk stjórnmál og umræðan í þjóðfélaginu hafa verið einstaklega lituð af þessu viðhorfi. Aðalatriðið er hver stendur að málinu, ekki málið sjálft.
Af því að Jóhanna Sigurðardóttir glæptist til þess að leggja fram frumvarp um stjórnlagaþing 1994 og stóð síðan að því nú ásamt fleirum að koma því á koppinn er Stjórnlagaþing dæmt óalandi og óferjandi af pólitískum andstæðingum Jóhönnu og hlakkað yfir lítilli þátttöku í kosningum til þess.
Þótt fyrir liggi að Alþingi hafi mistekist æ ofan í æ í 66 ár að efna það opinberlega loforð og stefnu sína að heildarendurskoðun færi fram á stjórnarskránni, hafa menn haldið því fram fullum fetum að engin ástæða væri til að hrófla við henni.
Ályktun Þjóðfundar, sem valinn var með slembiúrtaki, um að ráðast til dæmis gegn því misvægi atkvæða sé 2,5 falt á milli íbúa á Akranesi og á Hvaleyrarholti í Hafnarfirði og að Reykjavík sé klofin að endilöngu í tvö kjördæmi þykir ekki að neinu hafandi.
Allt eigi að vera sem fyrr og allt sem Jóhanna Sigurðardóttir kemur nálægt er að engu hafandi.
![]() |
Kosningaþátttakan áfall fyrir Jóhönnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.11.2010 | 14:25
Gott, - hefði þurft að gerast fyrr.
Fram yfir miðja síðustu öld var verkalýðsbaráttan næsta einföld. Krafist var hærri launa og bættra vinnukjara og farið í verkföll til að ná fram þessum kröfum.
Þá var vinnuvikan miklu lengri en nú og unnið líka á laugardögum. Verkföllin voru oft hörð en línurnar miklu skýrari en nú, því að hlutfall venuulegra verkamanna var miklu hærra en síðar varð og lítill munur á verkefnum þeirra í vinnunni.
Fyrir um hálfri öld fóru menn að huga að því hvort kjarabætur gætu falist í lífeyrisrétttindum og sjóðum, sem gögnuðust verkafólki og þar með var lagður grunnur að því sjóðakerfi, sem í áranna rás hefur vaxið og orðið að mikilvægu afli í þjóðfélagi okkar.
Fljótlega eftir að þetta kerfi var sett á komu upp raddir um nauðsyn þess að allir landsmenn gætu verið í lífeyrissjóði og að lífeyrisréttindi yrðu jöfnuð. Þetta var mikið rætt árum saman en lítið sem ekkert miðaði áfram um þetta mál.
Það sem nú virðist vera til umræðu á vinnumarkaðnum minnir um margt á það sem var á döfunni á sínum tíma þegar sjóðakerfinu var komið á.
Ástæðan er svipuð: Staða til kauphækkana er þröng og mun þrengri en þá og skref, sem hægt væri að stíga í jöfnun lífeyrisréttinda gætu greitt fyrir kjarasamningum.
Á sínum tíma sýndust samningarnir um réttindin ekki vega ýkja þungt en með tímanum kom í ljós hvað þeir höfðu verið mikilvægir og hvað ávinningurinn af þeim til að efla velferð allra reyndist vera mun meiri en beinar kauphækkanir.
Reynslan af því ætti að hvetja aðila vinnumarkaðarins til þess að leggja sig fram um að taka vel og myndarlega á þessu sviði nú.
![]() |
Ræða jöfnun lífeyrisréttinda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)