5.11.2010 | 14:01
Dugar ekki að fjarlægja hitamælinn.
Sá fjöldi sem leitar til hjálparsamtaka sveiflast upp og niður eftir árferði, rétt eins og hitamælir sýnir hærra og lægra. Menn geta óskað sér að aldrei þurfi að nota hitamæli og að aldrei komi til þess að einstaklingar eða hópar utan hins opinbera komi nauðstöddum til hjálpar, en hvorugt er raunhæft, því miður.
Þrátt fyrir Græðgisbóluna miklu þurfti fólk á hjálp hjálparsamtaka að halda á þeim tíma, jafnvel árið 2007.
Ef mikil fjölgun verður í þessum niðurlægjandi biðröðum er það merki um vangetu opinbera kerfisins frekar en merki um "ófagleg vinnubrögð" hjálparsamtaka.
Ef maður kemur að ofurölvi manni, sem liggur bjargarlaus úti í frosti að næturlagi er ekki spurt um ófagleg vinnubrögð þegar manni er skylt að veita honum tafarlausa hjálp.
Maður byrjar ekki fyrst á því að fá hann til þess að segja frá öllum málavöxtum til þess að finna út hvort hann geti sjálfum sér um kennt eða ætli jafnvel að sofna svefninum langa, heldur er hjálpin veitt tafarlaust.
Maður spyr hann heldur ekki hvort hann sé nýlagstur þarna fyrir til þess að blekkja vegfarendur til að aka sér heim og fer ekki af vettvangi í þeirri trú, að einhver opinber aðili, til dæmis lögreglan, muni koma að honum og bjarga honum.
Það er rétt hjá Jóni Gnarr borgarstjóra að vandinn er risavaxinn og vaxandi biðraðir blettur á borginni okkar.
Leiðin til úrbóta hlýtur að vera sú að opinberar stofnanir, sem málið heyrir undir, þeirra á meðal stofnanir borgarinnar, láti til sín taka og stefni að því að hjálpa hinu nauðstadda fólki þannig að það þurfi ekki að leita á náðir hjálparsamtaka.
![]() |
Deila á matargjafir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)