8.11.2010 | 23:10
"Skjóta helvítin!"
Bandaríkjamenn, sú stórmerka þjóð, á sér litskrúðugan þjóðarkarakter. Einn angi hans er byssugleði í sérflokki.
Þeir afsaka sig með arfleifðinni sem "frontier" þjóð, sem þurft skotvopn til að brjóta undir sig víðáttumikið land og veiða sér til matar
Þessi afsökun er ekki gild vegna þess að aðrar þjóðir, sem eiga sér svipaðan bakgrunn sem "frontier"-þjóðir eins og Kandamenn og Ástralir hafa komist hjá því að setja svona mikið traust á byssur, - byssueign þeirra og morð aðeins brot af því sem er í Bandaríkjunum.
Byssuhugsunarhátturinn virðist hafa verið ríkur hjá Bush og varaforseta hans, allt frá uppákomum í veiðiferðum þeirra kumpána til þessarar nýjustu játningar, sem er raunar ótrúleg, að hann hafi blóðlangað til að ráðast á Íran og Sýrland.
Þessi dýrkun á beitingu vopnavalds minnir á upphrópun ógleymalegrar persónu, sem Laddi skapaði, byssuglaða norðlenska bóndann, sem hrópaði svo eftirminnilega á sinni hörðu norðlensku: "skjóta helvítin!"
![]() |
Íhugaði að ráðast á Íran og Sýrland |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.11.2010 | 18:53
Brellunni haldið áfram.
Ríkisstjórnarfundur í Reykjanesbæ í fyrramálið leiðir hugann að að frétt í fréttum Stöðvar tvö í kvöld þar sem sagt var frá kapphlaupi þriggja aðila við Norðurál um orku.
Fyrirtækin þrjú telja sig þurfa samtals 216 megavött en síðan lauk fréttinni með því að sagt var að næg orka væri fyrir þessar þrjár verksmiðjur plús álver í Helguvík miðað við þann samning sem stefna má að að gera við Norðurál.
Þetta er byggt á því að reistur verði aðeins fjórðungur álversins í Helguvík, en það mun þurfa meira en hátt í 200 megavött til þessa fjórðungs.
Gallinn er bara sá að fyrir liggur opinber yfirlýsing talsmanns Norðuráls um að framleiðsla álversins þurfi að verð 360 þúsund tonn á ári, en til þess þarf minnst 650 megavatta orku.
Ef það er lagt saman við 216 megavöttin, sem kísilverksmiðjurnar þurfa fáum við út 866 megavött, sem er langt fram yfir það sem fáanlegt er á suðvesturhorninu.
Hvernig væri nú að hætta þessum tvískinnungi, óheilindum og leyndarbrellu og setja ástand þesa máls fram eins og það raunverulega er, sem sé það, að ef álver í Helguvík fær að fara af stað, mun það ryðja öllu öðru til hliðar.
Nema það sé staðföst ætlun að virkja Kerlingarfjöll og Torfajökulssvæðið og skilja ekkert eftir í lokin af þeim náttúrugersemum, sem eru mesta verðmæti Íslands.
![]() |
Ríkisstjórnarfundur á Reykjanesi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
8.11.2010 | 12:41
Að vita ekki afl sitt.
Fyrr og nú hafa menn orðið vitni að því að fólk hefur lumað á afli, sem það hefur ekki haft hugmynd að það réði yfir. Í fornsögum er þetta orðað svo að "hann vissi ekki afl sitt."
Þetta virðist hafa átt við um það sem þeir félagar Jörundur Ragnarsson og Hilmir Snær Guðnason gerðu þegar sá fyrrnefndi datt niður í djúpa sprungu.
Í sumum tilfellum getur fólk hins vegar eytt svo miklum kröftum að það örmagnist fyrr en ella.
Í einu tilfelli, þegar Guðlaugur Friðþórsson synti 5-6 kílómetra í köldum sjó og gekk á land og til byggðar erfiða leið eftir það, var það ótrúlegt jafnvægi hugans, sem gerði það að verkum að hann sóaði ekki kröftum sínum heldur nýtti þá á frábæran hátt.
Ég minnist tveggja atvika úr eigin lífi, þar sem ég vissi ekki afl mitt.
Í fyrra skiptið var það þegar ég velti rallbíl okkar bræðra og við Jón veltum bílnum, sem var rúmlega tonn, á réttan kjöl þar sem hann lá á hliðinni á milli þúfna, eins og ekkert væri. Ég hef aldrei skilið hvernig við gátum það.
Hitt atvikið var þegar landlægt tillitsleysi íslenskra ökumanna kostaði mig næstum lífið í hörðum árekstri.
Vegna þess að enginn ökumaður vildi hleypa mér af aðrein inn á Miklubraut, þar sem hún þrengist fyrir innan Grensásveg, neyddist ég til að stöðva bílinn við enda akreinarinnar.
Skömmu síðar kom stór amerískur bíll akandi eftir aðreininni og konan, sem ók honum reyndi ítrekað að komast af aðreininni inn á Miklubrautina. Hún hélt 60 kílómetra hraða og meira að segja veifaði hönd út um glugga til þess að gera þetta, en síðar sagði hún mér, að hún byggi í Bandaríkjunum þar sem svona væri ekkert mál.
En hér á landi er það tíðkað, að við svona aðstæður geri menn allt sem þeir geta til þess að koma í veg fyrir að umferð af aðreinum komist inn á beinu brautina, gefa jafnvel inn og auka hraðann til að varna því.
Konan var svo upptekin við að reyna að komast inn í umferðina, að hún tók ekki eftir mér, og ók því aftan á mig á 60 kílómetra hraða svo að bíllinn, sem ég var á, hentist 15 metra áfram.
Það var ekki fyrr en hún var á síðustu metrunum sem ég sá það í baksýnisspeglinum að hún myndi aka af fullu afli á mig og það var ekki ráðrúm til að gera neitt.
Ökumannssætið bognaði aftur við áreksturinn og ég beygði stýrið í keng, þar sem ég greip dauðahaldi í það.
Ég hefði undir venjulegum kringumstæðum með engu móti getað beygt stýrið svona, en þetta "dauðahald" minnkaði álagið á ökumannssætið sem annars hefði brotnað eða bognað svo mikið að ég hefði henst út um afturgluggann.
Bíllinn var gerónýtur.
Ég var svo heppinn að "vita ekki afl mitt" og vera ekki á gamla örbílnum mínum heldur á nýrri bíl konum minnar, sem að vísu var minnsti bíll, sem þá var fluttur inn til landsins, en mun betur búinn öryggislega.
Ef ég hefði verið á mínum bíl hefði ég varla lifað þennan árekstur af.
![]() |
Fékk einhvern fítonskraft og bjargaði sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)