9.11.2010 | 23:11
Hvað var eiginlega í gangi?
Sífellt eru að hellast inn fréttir af aldeilis fáránlegum skuldum, sem þetta þjóðfélag er að drukkna í.
Svakalegasta fréttin núna finnst mér ekki skuldir Hafnarfjarðar eða Reykjanesbæjar, heldur sú frétt, að þriðjungur íslenskra fyrirtækja hafi ekki nógu miklar tekjur til að borga skuldir sínar, sem nema alls 6000 milljörðum króna, segi og skrifa 6.000.000.000 króna!
Þetta samsvarar þjóðarframleiðslu Íslands í meira en fjögur ár! Og þessi þriðjungur íslenskra fyrirtækja stefnir beint í gjaldþrot fyrr eða síðar.
Jafnvel þótt við gæfum okkur að ekkert Hrun hefði orðið og að krónan hefði aldrei fallið neitt (sem var þó óhjákvæmileg afleiðing af Bólunni) þá væru þessar skuldir varla minni en 2000 milljarðar.
Hvað var eiginlega í gangi í mesta "gróðæri" Íslandssögunnar?
Björk orðaði þetta þannig í Návígi í kvöld, að frá 2003-2008 hefði verið "gat" í þjóðlífi og atvinnulífi, - ekkert var hugsað til framtíðar, ekkert gert til nýsköpunar, heldur var þjóðin á lánafylleríi þar sem ekkert annað komst að en að slá lán og lifa langt um efni fram á kostnað framtíðarinnar.
Til að kynda undir þessu voru landsmenn svo helteknir af virkjunum og álverum að þeir voru nánast með stóriðjustöru, sem enn hefur ekki minnkað heldur jafnvel vaxið.
Útlendingar sem koma til Íslands sjá hér fleiri lúxusbíla og risapallbíla en nokkurs staðar þekkist, háa skýjakljúfa, íbúðahverfi með stærri húsum og íbúðum en þekkist í nokkru öðru Evrópulandi og þegar þeir fara út á landsbyggðina blasa við sumarhallir hvert sem litið er.
Á sama tíma sem þetta var að gerast höfðu tugþúsundir Íslendinga það ekkert betra en endranær og hvorki vildu né gátu tekið þátt í þessum dansi í kringum gullkálfinn.
Nú lendir þetta á þeim og biðraðirnar stækka hjá hjálparstofnununum fyrir jólin.
Já, hvað var eiginlega í gangi? Hvernig gat þetta gerst?
![]() |
Stórt lán gjaldfellur 2011 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
9.11.2010 | 20:03
Góður húmor hjá Erlingi Gíslasyni.
Sjaldan fellur eplið langt frá eikinni, segir máltækið, og faðir Benedikts Erlingssonar, leikara, Erlingur Gíslason leikari, var hnyttinn í tilsvari þegar hann var spurður í fréttum Stöðvar tvö í kvöld hvort honum fyndist ekki óþægilegt að Bandaríkjamenn hleruðu síma hans.
Erlingur sagðist vorkenna þeim, sem hugsanlega þyrftu að hlusta á margt af því sem hann segði í símann.
En að öllu gamni sleppt hljóta að vera takmörk fyrir því hve langt megi ganga í öryggisvörslu fyrir sendiráð jafnvel þótt viðurkennt sé að slíkt sé nauðsynlegt.
Þegar ég fékk um það upplýsingar hjá kunnáttumanni 2005 að líklegt væri að sími minn og fleiri væru hleraðir kippti ég mér svosem ekki mikið upp við það persónulega, heldur fannst mér íhugunarefni hverjir aðrir virtust vera í því "símahlerunartorgi" sem virtist vera í notkun.
Þetta stóð aðeins yfir á þessum tíma í nokkrar vikur en síðan gerðist annað tveggja: Þessu var hætt - eða að aðferðin var endurbætt.
![]() |
Eftirlit við Laufásveg |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.11.2010 | 09:46
"Er að aka - við akstur að vaka!"
Niðurstöður rannsóknarinnar á afleiðingum þess að ökumenn tali í farsíma meðan á akstri stendur ætti að hvetja frameiðendur símanna og símafyrirtækin til þess að nota tæknina til að ökumenn geti látið þá, sem hringja í þá í akstri, vita af því að þeir séu uppteknir við akstur.
Það gæti til dæmis falist í því að ökumaðurinn ýti þrisvar á sama takann, til dæmis miðjutakkann, og þá fara í gang sjálfvirkur símsvari þar sem sagt er: "Er að aka - hringi til baka", - eða "er að aka - við akstur að vaka".
Raunar eigum við ekkert að fara á límingunum þótt hringt sé í okkur þegar við erum að aka.
Flestar ökuferðir taka aðeins fáeinar mínútur hvort eð er og við getum yfirleitt séð á símanum úr hvaða númeri er hringt.
Þetta minnir líka á þann mikla ósið og dónaskap sem við sýnum ef við erum í samtali við fólk og förum síðan skyndilega að svara símtali og tala við allt aðra manneskju.
Það þarf að búa til nýjar og hagkvæmar aðferðir og reglur sem símnotendur temja sér til þæginda og öryggis fyrir alla.
![]() |
Ekið án bílbelta og talað í síma undir stýri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)