Hin rómaða tillitssemi í minn garð.

p1013045.jpgÉg hef áður sýnt sýnishorn af landlægu tillitsleysi sem birtist í því hvernig við Íslendingar leggjum oft bílum okkar í stæði.

Hins vegar eru góðu fréttirnar við þetta fyrir mig þær, að á örbíl eins og mínum er yfirleitt hægt að finna stæði sem enginn annar getur notað þegar aðrir bílstjórar hafa lagt bílum sínum í tvö stæði en þó skilið eftir nógu breiða rönd til þess að ég geti smokrað mér þar inn og verið samt innan við hvítu línuna. p1012884.jpg

Komið hefur fyrir að þessir plássfreku bílstjórar sem gera löndum sínum lífið leit þegar slegist er um bílastæðin hafa brugðist hinir verstu við þegar ég hef verið kominn inn í stæðið og skammað mig blóðugum skömmum fyrir frekjuna í mér, því að þeir hafi komið á undan og eigi því "réttinn". 

Einn varð alveg brjálaður yfir því að konan hans kæmist ekki inn hægra megin vegna þess hvað minn bíll væri þétt upp að bíl hans. 

Ekki sefaði það reiði hans þegar ég benti honum á að á bílnum hans væri bakkgír og að hann þyrfti aðeins að bakka bílnum um tvo metra og konan hans að ganga tvo metra til þess að komast inn í bílinn. 

Oft bera menn það fyrir sig að annar bíll hafi fyrr verið skakkur í stæði og sá bíll sé farinn. 

En í fjölda tilfella standa þó hinir plássfreku bílar yst við jaðar bílastæðisins og þessi mótbára því haldlaus eins og glöggt sést á myndinni efst á síðunni.  

Þess skal getið að meðan ég var inni í versluninni þegar neðri myndin var tekin, fylgdist ég með ástandinu og var viðbúinn að skjótast út ef ökumaður gráa bílsins kæmi og trompaðist alveg yfir því að komast ekki vinstra megin inn í bílinn sinn. 

En ég ætti að vera þakklátur fyrir að þessir frekjuhundar eru svona margir. Ég get ég svo sem ekki annað en þakkað þeim fyrir það að gefa mér færi á að komast í stæði sem enginn annar getur notað. 

Er þessi tillitssemi þeirra í minn garð rómuð af mér. 

P. S.  Vegna talsverðrar "umferðar" inn á þennan bloggpistil vil ég benda á annan pistil 7. desember þar sem ég fjallaði um stefnuljósaleti okkar Íslendinga.  Þið getið smellt orðinu stefnuljós inn í leitarrammann vinstra megin á síðunni og þá er sú færsla neðst. 

Eða smellt inn Hvenær verður tékkað á stefnuljósunum? og þá kemur færslan beint upp.

Í henni segi ég frá því af hverju ég ákvað eftir að hafa sloppið við örkuml eða dauða fyrir nokkrum árum að sinna þessum atriðum hér á blogginu, - fannst ég skulda forsjóninni það. 


"Sýknaður af skalla"?

Ekki vissi ég að skalli gæti sýknað nokkurn mann eins og ráða má af fyrirsögninni "Sýknaður af skalla."

Ég álpaðist til að líta á fréttina af því að hugsanlega væri það orðið refsivert að vera með skalla og ég því í vondum málum. Létti mikið þegar ég sá að það væri ekki refsivert. 

Hefði ekki litið á fréttina ef fyrirsögnin hefði verið "Sýknaður af sköllun." Svona getur forvitnin farið með mann. 


mbl.is Sýknaður af skalla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kína að verða fordæmi ?

Árum saman hefur það réttilega verið hneykslunarefni hvernig kínversk stjórnvöld reyna allt sem þau geta til þess að loka þjóð sína af frá "óæskilegum" upplýsingum og skoðunum sem falla ekki í kramið í því alræði eins flokks, sem þar er við lýði. 

Nú sjáum við grilla í svipaða viðleitni gagnvart fyrirtæki á okkar landi fyrir það eitt að hafa miðlað upplýsingum, sem margar hverjar hafa verið gagnlegar til þess að við áttum okkur betur á veröldinni eins og hún er. 

Enginn ástæða hvað varðar það að fyrirtækið hafi brotið lög er gefin, heldur er borið við "erlendum þrýstingi". 

Ekki hafa verið færðar sönnur á að Wikileaks hafi brotið lög, heldur blasir það við, að einhverjir innan bandaríska stjórnkerfisins hafi brotið þær reglur sem í því gilda og nærtækara að grafast fyrir um málið innan þess kerfis í stað þess að ofsækja fyrirtæki erlendis. 

Það er hastarlegt ef hið ljóta athæfi kínverskra stjórnvalda, sem vestræn ríki hafa fordæmt áratugum saman, á nú að verða fordæmi í okkar eigin ranni. 


mbl.is „Gróf aðför að tjáningarfrelsinu"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. desember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband