Í samræmi við frásagnir bensínafgreiðslufólks.

Í fyrradag átti ég athyglisvert viðtal við bensínafgreiðslufólk í nágrenninu. Þá hafði grunsamlegur ökumaður komið akandi ljóslaus inn að bensínstöðinni og var greinilega í vandræðum með að aka bílnum, - fór á slagandi bílnum í gegnum lóðina og hvarf síðan inn í umferðina. 

"Náðuð þið ekki númerinu?" spurði ég. 

"Ég hugsa mig tvisvar um áður en ég geri eitthvað róttækt í málinu" sagði afgreiðslukona við mig og bætti við: "Þegar ég lét lögregluna síðast vita og hún handsamaði kauða var þess krafist að ég kærði hann og kæmi fyrir dóm. Ég hafði hins vegar lítill áhuga á því að hætta á að fá heimsókn "handrukkara" eða einhvers harðhents neyslufélaga hins dópaða síðar meir." 

Afgreiðslufólkinu bar saman um að ótrúlegur fjöldi ökumanna væri á fullri ferð í umferðinni í óökufæru ástandi. 

Sé svo er full þörf á því að lögreglan taki til hendi  eins og hún gerði um helgina. 


mbl.is Tíu undir áhrifum fíkniefna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um refinn fyrir landnám ?

"Hverju reiddust goðin þegar hraunið brann er nú stöndum vér á?" spurði Snorri goði á Alþingi árið 1000 eftir að ásatrúarmenn höfðu sagt að goðin væru reið með því að láta hraun stefna ofan af Hellisheiði í átt að Hjalla í Ölfusi þar sem einn hinna hálfkristnu bjó. 

Nú fórna margir höndum yfir því að vegna minnkandi veiða á ref sé hann farinn að færa út kvíarnar og hafi meira að segjua komið inn í Reykjavík í nokkur ár. 

Skiljanleg er andúð sauðfjárbænda á refnum ef hann gerist nærgöngull við fé. Hins vegar er varla mikil ástæða til þess að óttast að vegna minnkandi veiða á refnum muni hann ógna dýra- og fuglalífi. 

Sé svo, má spyrja: "Hvernig hélt dýra- og fuglalíf velli fyrir landnám, þegar enginn var maðurinn til þess að halda refnum í skefjum?" 

Ekki étur hann gróður í görðum eins og ört fjölgandi kanínur gera. Og ekki er hann jafn skæður gagnvart fuglalífi og minkurinn. 

Sagt er að það verði að fara í veiðiherferð til Hornstranda til að bjarga fuglalífinu þar og koma í veg fyrir útstreymi refs úr friðlandinu suður til annarra landshluta. 

Þegar ættgöfugasti landnámsmaðurinn, Geirmundur heljarskinni, nam land á Hornströndum, hefur það varla gerst ef refurinn, sem þá hafði verið óáreittur um aldir, hefur verið búinn að eyðileggja þar fuglalífið. 

Staðkunnugir menn segja að fuglalífi hafi hrakað mjög í friðlandinu eftir að hætt var að veiða ref þar og kenna refnum um stórfækkandi fugl í fuglabjörgunum. 

Það er reyndar alveg nýtt ef refurinn á allt í einu auðvelt með að fara niður brött björg, því að hann er meira að segja hægfara undan venjulegum brekkum. Og hvers vegna fór hann þá ekki eyðandi lífi um björgin áður en Geirmundur heljarskinn kom að landi? 

Ég held að skýringin á fækkun fugls í fuglabjörgunum sé hin sama á Hornströndum og í kringum allt land, sem sé sú að um sé að kenna skort á æti, einkum sandsíli. 

Áð minnsta kosti verður refnum kennt um stórfækkun lunda í Vestmannaeyjum. 

Oftast leitar náttúran sjálf jafnvægis milli tegunda ef hún er óáreitt af mönnum. 

En ef menn eru svona ógurlega hræddir við refinn mætti kannski hugsa til þess að bjóða upp á veiðar á honum að breskum sið og græða á því líkt og fenginn er gróði af hreindýraveiðum. 

 


mbl.is Refurinn er kominn til Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einleikarar og hljómsveitir íþróttanna.

Íþróttir heimsins eru ekki á flæðiskeri þegar samtímis eru uppi margir snillingar á í ólíkum greinum, svo sem Lionel Messi í knattspyrnu, Roger Federer í tennis og Manny Paquiao í hnefaleikum.

Þegar keppnislið eins og Barcelona skartar þar að auki fleiri snillingum en Messi er ekki að sökum að spyrja, að úr verður íþróttasinfónía í hæsta gæðaflokki eins og lengsti valdi kaflinn, sem hægt er að nálgast á YouTube af leik Barcelona og Real Sociedad ber glögglega með sér. 

Það er hægt að horfa aftur og aftur á aðdraganda glæsimarka Barcelona og dást að því hvernig snilld þessara tónskálda knattspyrunnar gerir jafnvel bestu mótherja að hreinum áhorfendum.

Einleiksmark Messi er kapítuli út af fyrir sig.

Liðið, hljómsveitin, leggur grunninn með því að skarta svo mörgum snillingum að útilokað er að ná árangri með því að reyna að kippa einum úr sambandi, - þá blómstra hinir enn betur. 

Messi er hægra megin við enda varnarlínu mótherjanna, fær boltann, en spilar til fyrst til baka í átt frá markinu og virðist vera algerlega hættulaus með fimm varnarmenn á milli sín og marksins og er varnarmönnunum raðað þvert yfir völlinn eins og þéttri varnarlínu. 

Messi hefur nú einleik, sem "svæfir" mótherjana, því að hann leikur þvert til vinstri yfir völlinn meðfram varnarlínunni fram hjá varnarmönnunum fimm en stefnir þó aldrei í átt að markinu. 

Allan tímann þurfa mótherjarnir að vera á varðbergi vegna hættunnar á því að Messi gefi, á hvaða augnabliki sem er, meistarasendingu hina snjöllu samherja sína. 

Þegar hann hefur síðan rúllað vörninni upp og skilið hana eftir að baki sér, siglandi hraðbyri út á vinstri vænginn, hleypir hann á hárréttu augnabliki af skoti í fjærhorn marksins og bætir þar með markverðinum í hóp sex varnarmanna, sem mega horfa eins og statistar á eftir boltanum i markið. 

Meðan við eigum kost á að sjá svona knattpyrnu þarf ekki að óttast um gengi þessarar íþróttagreinar, þótt margt misjafnt sé á boðstólum. 

Sagan geymir nöfn tugþúsunda tónskálda, sem koma og fara, en Mozart, Beethoven og Back lýsa upp tilveru okkar. 

Frábærir einleikararar eru ekki aðeins í liði Barcelona, heldur einnig í öðrum hljómsveitum knattspyrnunnar eins og nýjustu mörk Ronaldos, annað úr aukaspyrnu og eftir skæra"hlaup bera gott vitni um.

Það sambland hópíþróttar og einstaklingsframtaks, sem knattspyrnan býður upp á, gerir hana svona vinsæla.

Frumskógarseiður einstaklingsíþrótta þar sem maður er á móti manni kitlar bardagaþorsta lífsbaráttunnar. 

Þar gnæfir Ali í minningunni, fágætur meistari gáfna, tækni, hraða, mýktar, snerpu og afls.  

 


mbl.is Mögnuð mörk hjá Messi (myndband)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. desember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband