Léleg þjóðbraut.

Kannski finnst einhverjum það skondin frétt að leggja skuli hraðbraut milli Moskvu og St. Pétursborgar eins og nú er rætt um.

Moskva er fjölmennasta borg meginlands Evrópu með meira en 10 milljónir íbúa og St. Pétursborg er næststærsta borg Rússlands með meira en 5 milljónir íbúa. Mætti því ætla að milli þessara tveggja borga, sem hafa samtals 50 sinnum fleiri íbúa en allt Ísland, hefði fyrir löngu verið búið að leggja betri braut en milli Hveragerðis og Selfoss. . 

En það er nú eitthvað annað. Eitt af því, sem kom mér mest á óvart þegar ég fékk mér bílaleigubíl í Moskvu fyrir nokkrum árum og ók meiri hluta leiðarinnar þaðan til St. Pétursborgar, var hve ömurlega lélegur þessi vegur var og er, aðeins ein akrein í hvora átt og á köflum grófur og illa farinn. 

Allar áætlanir mínar um að vera snöggur að fara frá Moskvu til Demyansk ruku út í veður og vind.

Þetta var alls um 900 kílómetra akstur fram og til baka og hér heima hefði verið lítið mál að klára það á einum degi.

En ferðalagið tók 20 klukkustundir eða næstum tvöfalt lengri tíma en samsvarandi ferðalag á Íslandi. 

Þetta er svosem ekkert einsdæmi í öðrum löndum. Þegar ekið er frá Osló til Gautaborgar er E6 vegurinn aðeins ein akrein í hvora átt lengi vel þegar ekið er í suður frá Osló. 

Það er ekki fyrr en komið er suður fyrir Svínasundsbrúna sem leiðin kemst að staðaldri í efsta gæðaflokk. 

Lélegt vegakerfi Rússlands hefur ekki haft tóma ókosti. Í innrás Þjóðverja 1941 var það ein meginástæðan fyrir vandræðunum, sem Þjóðverjar lentu í við að koma vistum og hergögnum til herja sinna að ekki sé minnst á vandræðin sem sköpuðust í haustrigningunum þegar farartæki þeirra festust í for og eðju á "vegunum." 

Og kreppan forðaði okkur Íslendingum frá innrás Þjóðverja vegna þess að engir flugvellir voru í landinu og þeir stóðu í þeirri trú að ekki væri hægt að koma hingað flugflota strax á fyrsta degi til þess að ná yfrirráðum í lofti sem gerði þeim kleift að halda bresks flotanum frá landinu. 

 


mbl.is Gefa grænt ljós á umdeilda hraðbraut
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er sumarið ekki dýrmætara ?

Út af fyrir sig væri ekkert að því að færa klukkuna að sem réttasta horfi miðað við sólargang. Hugmyndin að seinkun klukkunnar miðast við stöðu mála í tvo og hálfan mánuð í svartasta skammdeginu, frá 20. nóvember til 5. febrúar þegar myrkur er fram að klukkan níu á morgnana.

Ástæða þess að myrkurtíminn er lengri á morgnana eftir sólstöður er sú að hádegið færist til á þessum tíma og birtir hraðar eftir hádegi, þótt fólk taki kannski ekki eftir því. 

En áður en ráðist er í að seinka klukkunni ættu menn að athuga af hverju tekið var upp á því að færa klukkuna á sínum tíma yfir á Greenwich meðaltíma. Fyrst var þetta gert að sumarlagi (sumartími) en síðan voru menn orðnir svo leiðir á "hringlinu með klukkuna" að sumartíminn var færður yfir á allt árið. 

Aðalástæða "sumartímans" var sú að á okkar norðlæga landi, þar sem sólin er lægra á lofti en í suðlægari löndum þótti það gott að fólk væri komið úr vinnu klukkustundu fyrr en ella til þess að njóta sólarinnar síðdegis. 

Samskipti okkar við Evrópu eru einnig miklu meiri en við Ameríku og þægindi fólgin í því að færa klukkuna nær Evrópu þótt það kosti óþægindi vegna samskipta vestur um haf. 

Hér þarf að vega hluti og meta. Er ekki dýrmætara að fólk geti notið sólar lengur og betur þann langa tíma þegar hún er hærra á lofti um sumartímann heldur en í þær tíu vikur af 52 vikum ársins, sem rökkur er á morgnana að vetrarlagi?

Ég er í hópi þeirra sem telur svo vera og minni á að Vilhjálmur Egilsson lagði á sínum tíma fram tillögu um að færa klukkuna enn meira í þá átt. Það er hins vegar óþarf að ganga svo langt, því að fólk getur einfaldlega fært vinnutímann framar í staðinn. 

Auk þess yrðu samskipti vestur um haf enn óþægilegri en nú og myrkurtíminn á morgnana um háveturinn enn lengri. 

Frumniðurstaða mín er því sú, nema eitthvað nýtt komi í ljós: Verum ekkert að "hringla með klukkuna". 


mbl.is Vilja seinka klukkunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. desember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband