22.12.2010 | 21:32
Hagkaupa-jóla-heilkennið.
Flest síðustu tuttugu ár hef ég verið við að árita bækur, mynddiska eða hljóðdiska í verslunum fyrir hver jól.
Fyrsta árið fannst mér þetta fíflalegt og út í hött en lét samt til leiðast og skipti alveg um skoðun. Í ljós kom að þetta var jákvætt og nauðsynlegt af mörgum ástæðum.
1. Maður hittir fullt af kunningjum og vinum, sem maður hefur ekki hitt árum saman.
2. Þverskurður þjóðarinnar, grasrótin sjálf, kemur upp í fangið og fólkið segir frá ýmsum skoðunum sínum og vekur máls á ýmsu sem annar hefði farið fram hjá manni.
3. Stundum er maður að árita með gefandi og skemmtilegu fólki. Í dag var það Tobba Marínós, í gær Bubbi Morthens og í fyrradag Vigdís Finnbogadóttir. Allt fólk sem ég þekki og er í miklum metum hjá mér.
4. Stór hópur fólks er nánast áskrifendur að verkum eins og Stiklunum og vill ekki missa neinn árgang úr. Þessu verður að sinna.
5. Þótt mikið sé fyrir árituninni haft, eins og til dæmis með því að gera það úti á landi, er það viss auglýsing. Á morgun fer ég til Akureyrar, - hefðin má ekki rofna.
Skemmtilegt er að kynnast ýmsum sálfræðilegum einkennum kaupenda.
Ég hef það fyrir reglu að láta tvo diska eða bækur liggja frammi samhliða þannig að framhliðin snúi upp á öðru eintakinu en bakhliðin upp á hinum.
Ef kaupandinn er tímabundinn getur verið þægilegt fyrir hann að sjá strax efnisyfirlit, til dæmis lista yfir lög og flytjendur sem er á bakhliðinni. En þetta gerist nánast aldrei, heldur er heilkennið það að kaupandi tekur upp diskinn, sem snýr rétt, og snýr honum síðan um leið sjálfur þannig að bakhliðin snúi upp.
Annað heilkennið kemur oft í ljós síðustu tvo dagana fyrir jól og kalla ég það Hagkaupa-jóla-heilkennið.
Þá sér maður vel klædd hjón á miðjum aldri koma inn í innganginn, stansa og svipast um. Bæði líta á klukkuna. Það er tímapressa í gangi. Þau ræða stuttlega saman og benda í báðar áttir.
Síðan er aftur litið á klukkuna og þau halda sitt í hvora áttina. Eftir dágóða stund hittast þau aftur á leið út á tilsettum tíma og hafa þá farið hvort sinn hálfhringinn um verslunina og eru nú klyfjuð af pökkum.
Upp með kortið og borgað og þotið út. "Mission completed", leiðangrinum og verkinu lokið.
Stundum hefur "grasrótin" gefið hugmyndir. Dæmi um það þegar ég var að árita bók fyrir tólf árum og nokkrar konur minntust á það við mig að þær teldu að það ætti að gefa Gáttaþefsplöturnar tvær aftur út á diskum.
Ég hafði aldrei heyrt þetta áður og fann því allt til foráttu. Það væri of dýrt að gera ný umslög og sleppa lakari lögunum sem ég ætti erfitt með að sætta mig við núna og vinna þetta allt upp á nýtt.
"Nei, nei!" hrópuðu þær. Sömu umslögin aftur! Öll lögin aftur!"
Ég tók ekki mark á þessu en við áritun annarrar bókar ári síðar komu margfalt fleiri til mín og orðuðu sömu bón. Það þýddi að eitthvað var í gangi hjá "grasrótinni".
Þegar ég hitt skömmu síðar Eið Arnalds, yfirmann þessara mála hjá Skífunni, sem þá var, og minntist á þetta, tjáði hann mér að þetta væri tiltölulega ódýrt, ef engu yrði breytt og ekkert auglýst.
Um næstu jól voru Gáttaþefsplöturnar gefnar út og eitthvað um 700 stykki seldust, nóg til að þetta bæri sig, en ekki meira en það.
Næstu jól seldust 3000! Og það án þess að vera neitt auglýstar. "Grasrótin" hafði haft rétt fyrir sér.
![]() |
Jólaösin að ná hámarki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.12.2010 | 09:56
Þráðurinn að ofan !
1930 stofnaði Sesselja Sigmundsdóttir Sólheima, þar sem auk þjónustu við þá sem minnst mega sín, var lögð áhersla á vistvæna starfsemi.
Á þeim tíma var þetta eins mikið "vonlaust eitthvað annað" og hugsast gat. Þá, eins og nú, var óhugsandi að nein önnur starfsemi "skapaði atvinnu" en verksmiðju- eða framleiðslurekstur.
Engan gat órað fyrir því þá að eftir 80 ár komu tugir útlendinga þangað til þess eins og nema þar fræðin, sem Sesselja lagði grunninn að og þessi staður ætti fyrir sér bjarta framtíð fyrir sér á grundvelli hugsjóna hennar.
Engan gat órað fyrir því að árið 2010 mætti segja að þróun og vöxtur staðrinn gæti verið tryggður, "jafnvel þótt þjónustustarfsemi framkvæmdastjórnarinnar við fatlað fólk yrði sagt upp".
Já, 80 árum eftir að barátta Sesselju Sigmundsdóttur hófst og loksins sést til fullnustu hve langt hún var á undan samtíð sinni, eru menn virkilega að pæla í því hvernig allt yrði í himnalagi þótt klippt yrði á "þráðinn að ofan", kærleiksþjónustuna, sem er siðferðilegur hornsteinn þessa merka staðar og það sem gefur honum gildi ofar öllu öðru.
Í mínum huga er það hrein móðgun við hugsjón Sesselju Sigmundsdóttur að láta sér það til hugar koma eða haga þannig málum í hagsmunalegri togstreitu að þessi hluti starfseminnar leggist nokkurn tíma niður.
Þráðurinn að ofan er ofinn úr tveimur þáttum, kærleiksþjónustunni og hinni vistvænu starfsemi.
Hvorugur þátturinn má slitna, þá hrynur allt.
Nú kemur í ljós að sé þessi þráður styrktur í stað þess að ógna honum, bíður Sólheima loks björt framtíð.
Ef líkja má tilvist staðarins þannig að hún hangi á keðju, gildir hið fornkveðna, að engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn.
Má vera að hin vistvæna starfsemi út af fyrir sig gefi peninga í hönd og víst er slík starfsemi fyrst og fremst fyrir velferð mannsins. En eigi bara að hugsa um peninga og ekkert annað og kærleiksþjónustan að leggjast af hefur Mammon sá, sem olli Hruninu, tekið völdin.
Það má aldrei gerast.
![]() |
Miklir möguleikar á svæði Sólheima |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)