30.12.2010 | 21:05
Sprettharði Maraþonmaðurinn.
Ég efast um að nokkur íslenskur ráðherra hafi í sögu lýðveldisins tekið að sér eins erfitt verkefni og Steingrímur J. Sigfússon gerði eftir Hrunið. Þetta var ekki bara verk fyrir skorpumann, heldur mann sem hefur þar að auki endalaust úthald.
Steingrímur lagði af stað á fullum spretti í pólitískt hlaup sem ekki sá fyrir endann á og verður helst líkt við Maraþonhlaup á spretthlaupshraða.
Menn getur greint á um ýmsar erfiðar ákvarðanir sem hann hefur orðið að taka, ekki síst ákvarðanir sem honum sýndist réttar í þeirri stöðu sem mál voru þegar voru teknar, en hafa síðan orkað tvímælis þegar aðstæður hafa breyst í aðra veru en Steingrímur óttaðist þegar hann tók þessar ákvarðanir.
En þessi ótrúlega seigi og harði stjórnmálajaxl virðist fáum líkur.
Í áratugi var embætti fjármálaráðherra talið eitthvert það erfiðasta og vanþakklátasta starf sem stjórnmálamaður gæti tekið að sér og í samsteypustjórnum fóru oddvitar flokka ekki í þetta embætti, heldur var hefð fyrir því að þeir yrðu utanríkisráðherrar.
Þessi hefð varð áreiðanlega oft til tjóns fyrir ríkisstjórnir, því að með henni kúpluðust viðkomandi formenn að miklu leyti út úr hringiðunni hér heima.
Kjarkmaðurinn Steingrímur lét það ekki hræða sig að eðlis málsins vegna væri fjármálaráðherraembættið í kjölfar Hruns jafngildi hættunnar á pólitísku sjálfsmorði.
Hann tók slaginn og að sjálfsögðu er hann fyrir vikið umtalaðasti stjórnmálamaðurinn í fjölmiðlum og í umræðunni í þjóðfélaginu.
Menn geta verið ósammála Steingrími í ýmsu en þessi burðarás ríkisstjórnarinnar minnir á fornmenn sem voru ekki einhamir, heldur komu sér þar fyrir í orrustum þar sem bardaginn var harðastur.
Þegar rykið hefur loksins sest eftir atganginn hygg ég að margir muni sjá Steingrím í nýju ljósi og meta dugnað hans á þeim tíma sem allt var að fara fjandans til eftir mestu ófarir Íslendinga á síðari tímum.
![]() |
Mest fjallað um Steingrím |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
30.12.2010 | 18:12
Græðgin er alþjóðleg.
Dæmið um risaframkvæmdir í Kína, sem ekki var innistæða fyrir, sýnir að græðgin er alþjóðlegt fyrirbæri, sem virðir hvorki landamæri né þjóðskipulag.
Þegar kommúniskt alræðisríki eins og Kína tekur upp trú á heimsmetshagvöxt og hleypir áhættufíknum fjárfestum og verktökum of lausbeisluðum í eftirsókn eftir sem mestum uppgangi er ekki á góðu von.
Raunar minna þessar fjárfestingar á svipuð fjárfestingarævintýri hér á landi og víðar þar sem græðgin var gerð að dyggð.
En hvað með lönd eins og Norður-Kóreu þar sem alræðið byggist á því að halda kjörum fólks neðan við allt velsæmi?
Jú, þar lýsir græðgi valdhafanna sér í yfirgengilegu persónulegu bruðli þeirra og eyðslu í rándýra kjarnorkuáætlun sem miðast við það að hóta nágrönnum þeirra og alþjóðasamfélaginu með kjarnorkustyrjöld til þess eins að hinir gjörspilltu Norður-Kóresku valdhafar geti viðhaldið völdum sínum og bílífi.
![]() |
Stærsta Kringla heims er tóm |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.12.2010 | 11:05
Hefur ekki gerst í aldarfjórðung.
Leiðtogafundurinn í Höfða 1986 hefur líklega verið ein af tíu helstu fréttum ársins 1986. Kannski ein af fjórum þótt það sé ólíklegra.
Ekki er víst að "einvígi aldarinnar" milli Spasskís og Fishers hafi verið í hópi tíu stærstu frétta ársins 1972.
Hrun íslensku bankanna komst ekki í topp tíu á heimsvísu 2008.
Hitt er nú staðreynd að gosið í Eyjafjallajökli var fjórða stærsta frétt ársins 2010 í fjölmiðlum heimsins og er vafasamt að nokkur íslensk frétt geti náð hærra.
Það sem er best við orðið Eyjafjallajökul er það að í erlendum fjölmiðlum forðast menn að klæmast á þessu orði og tala í staðinn um "íslenska eldgosið".
Að því leyti til vekur þetta gos meiri athygli á Íslandi á heimsvísu en hægt er að ímynda sér að nokkur frétt hafi gert eða muni geta gert.
Eldgosið var slæmt fyrirbæri í sjálfu sér en skapar þó ótal sóknarfæri fyrir land, sem loksins er komið á alheimskortið svo óyggjandi sé.
![]() |
Eldgosið ein af stærstu fréttum síðasta árs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.12.2010 | 01:09
Ökumenn eru mannlegir.
Við eigum öll að vita um muninn á réttu og röngu. Samt gerum við svo margt rangt, segjum eitt en gerum annað. Niðurstaða könnunarinnar bandarísku sem leiddi í ljós "hræsni" varðandi akstur undir áhrifum áfengis gat aldrei orðið önnur en hún varð.
Við erum ófullkomin og syndug og oft í mótsögn við okkur sjálf. Við getum oft verið "sjálfur Ragnar Reykás" inn við beinið.
![]() |
Ökumenn almennt hræsnarar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)