1.2.2010 | 15:58
Einstakur maður í öllu tilliti.
Um fáa menn hefur mér þótt eins vænt eins og Steingrím Hermannsson um dagana. Með okkur tókst góð vinátta þegar ég flaug með hann vestur á firði þegar hann var að fara þar í sína fyrstu kosningabaráttu og entist hún æ síðan og dýpkaði.
Steingrímur var sannur maður og mannvinur eins og ég kynntist honum og þótt hann væri mikill keppnismaður og verkmaður og hefði alist upp í skjóli valdamesta manns landsins var alveg magnað hvað hann var alþýðlegur og átti gott með að umgangast háa og lága af stakri snilld.
Það var með mestu pólitísku afrekum síðustu ára hvernig honum tókst að mynda ríkisstjórn sína 1988 og láta hana sitja út kjörtímabilið.
Á pappírnum var þetta næsta vonlaust. Stjórnin hafði ekki meirihluta í báðum deildum og varpa varð hlutkesti um sæti í þingnefndum.
En jafn einstakur og Steingrímur var heppni hans þá jafnvel enn einstakari því að hann vann öll níu hlutkestin.
Stjórnin breyttist síðar í fjögurra flokka stjórn en enn sem fyrr hafði Steingrímur einstaka hæfileika til verkstjórnar og til að laða menn til samstarfs, svo ólíkir sem þeir voru.
Til þessa þarf alveg sérstaka hæfileika og á því sviði var Steingrímu afburðamaður.
Ég sendi fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur og þakka fyrir þá ánægju sem það veitti mér að kynnast og ferðast um landið með feðgunum öllum, ættliðunum þremur, Hermanni, Steingrími og Guðmundi.
![]() |
Steingrímur Hermannsson látinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.2.2010 | 15:47
Hvergi meiri þörf á slíku.
Þótt viðfangsefni Breta séu næg þessa dagana telja þeir ekki eftir sér að kafa ofan í aðdragandann að þátttöku þeirra í stríðinu í Írak.
Ég get ímyndað mér að hvergi sé þó meiri þörf á að hreinsa þetta mál en á Íslandi. Aðdragandinn að því að Ísland var sett á bekk með hinum "viljugu þjóðum" var með slíkum eindæmum að leitun er að bæði hér á landi og erlendis.
Einn maður með fulltingi fóstbróður síns tók þá ákvörðun að breyta utanríkisstefnu þjóðarinnar á afgerandi hátt, þótt vissulega hefðu tengsl okkar við hernað á Balkanskaga verið á gráu svæði á áratugnum á undan.
Og þetta var gert þvert ofan í þá niðurstöðu skoðanakannana að 70% þjóðarinnar væru þessu andvíg.
Fyrst ráðamenn í öðrum löndum verða að standa fyrir sínu máli varðandi innrásina er eðlilegt að íslenskir ráðamenn eigi að gera það líka.
![]() |
Þingmenn rannsaki þátttöku í Íraksstríði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)