Góðar fréttir.

Ég tafðist aðeins við að skrifa þennan bloggpistil. Ástæðan er sú að stóriðjufíklar eru strax byrjaðir að hamra á síbyljunni um að ég og skoðanasystkin mín leggist gegn öllum virkjunum og séum á móti allri atvinnuuppbyggingu, þar á meðal Búðarhálsvirkjun. 

Maður neyðist til að bera hönd fyrir höfuð sér í athugasemdum við þessi blogg og ég þurfti raunar í gær líka að bera þær sakir af mér, umhverfisráðherra og fleirum, að við séum líklega á móti fjölgun starfa hjá Actavis.  

Skiptir þá engu máli að við höfum einmitt viljað berjast fyrir því að skapa slík störf en stóriðjufíklar kallað það óraunhæfar lausnir.  

Ein bloggfærslan vegna fréttarinnar um Búðarhálsvirkjun hér á mbl.is lætur að því liggja að Svandís Svavarsdóttir hafi ekki þegar brugðist hart við gegn henni, vegna þess að hún viti ekki enn um hana !

Þessir þyljendur síbyljunnar um að ég og skoðanasystkin mín viljum fara aftur inn í torfkofana og séum á móti rafmagni hafa ekkert fyrir því að athuga hver afstaða okkar er til Búðarhálsvirkjujar eða fjölgunar starfa hjá Actavis.

Nei, brugðist er hart við og áróðurinn um fjallagrasatínsluna og moldarkofana er keyrður upp samstundis.

Fyrirsögn þessa bloggpistils, "Góðar fréttir" segir það sem segja þarf um það, að mér vitanlega hefur ekki ein einasta manneskja sagt eitt einasta styggðaryrði í garð þessarar framkvæmdar heldur hafa þeir talsmenn náttúruverndar, sem um hana hafa verið spurðir, verið fylgjandi henni. 

Ég er fylgjandi henni líkt og ég hef verið fylgjandi virkjunum, sem ég gæti talið upp í löngum lista og hef raunar gert, en það hefur ekki minnstu áhrif á stóriðjufíklana, sem ætla sér að komast upp með að úthrópa okkur náttúruverndarfólkið sem öfgafólk.

Því að fólk, sem er að móti atvinnuuppbyggingu og rafmagni hlýtur nefnilega að vera þjóðníðingar og öfgafólk. 

Hinir, sem vilja fórna allri orku Íslands og þeim náttúruverðmætum sem það kostar og leysa atvinnuvandann með því að skapa störf í álverum sem nemur 2% vinnuafls hér á landi, eru taldir hófsemdarmenn og þjóðvinir.

Nú síðast kemur í ljós að þrátt fyrir að mat á umhverfisáhrifum SV-línu sé ekki lengur "hindrun í vegi hennar", eru það önnur atriði sem tefja hana. En samt er Svandísi kennt um töfina.

Það er vandlifað um þessar mundir og verður fróðlegt fyrir seinni tíma kynslóðir að lesa þessi skoðanaskipti sem nú fara fram hér á blogginu.  

 


mbl.is Útboð vegna Búðarhálsvirkjunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband