Verður er verkamaðurinn launa sinna.

Ofangreind orð úr Biblíunni þekkja flestir en stundum er það þannig, að þau séu samt ekki viðurkennd. 

Ég er það gamall að ég man þá tíð þegar Jón Leifs gerðist brautryðjandi í réttindamálum tónskálda og eigenda flutningsréttar, en þau voru þá fyrir borð borin.

Ég man hið gamla samfélag þar sem vinnuafköst voru mæld í kílóum, tonnum, lítrum og öðrum áþreifanlegum verðmætum sem vinnufúsar hendur skópu eða handfjötluðu.

Tónlistarmönnum var að vísu borgað fyrir að handleika hljóðfæri og framleiða með því tónlist og í einstaka tilfellum borgað fyrir að semja hana en lengra náði það ekki.

Jón Leifs og aðrir brautyðjendur í höfundarréttarmálum þurftu að brjótast í gegnum þykkan múr fordóma og skilningsleysis sem enn eimir af eins og nýleg mál sýna. 

Allir skilja að ef maður lætur einhverjum bíl sinn eða eign til afnota sé rétt að greiða fyrir þau afnot.

En þegar kemur að tónlist, skáldverkum eða annarri list tekur undarleg viðleitni við hjá mörgum þess efnis að reyna allt sem hægt er til að komast hjá því að borga nokkuð fyrir afnotin.

Með tölvu- og nettækninni steðja ný viðfangsefni að í þessum efnum eins og sést á nýjustu dæmunum um málaferli og varnarviðbrögð þeirra sem sannanlega skópu verðmætin, sem um er að ræða, en reynt er að ræna afkomugrundvelli sínum með því að hafa af þeim þau laun, sem vinna þeirra og hugvit hafa skapað. 


mbl.is Ánægður með dóm Hæstaréttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var nálægt því að taka mynd af eigin dauðdaga.

Myndin af hörmulegu þyrluslysi í Brasilínu minnir mig óþyrmilega á það að fyrir tólf árum munaði aðeins fáum mínútum að ég tæki mynd af eigin dauðdaga í banaslysi.

Ég var einn á ferð við mynni íshellisins undir Kverkjökli í Kverkfjöllum þar sem hin volga á Volga kemur undan jöklinum. 

Þá höfðu stórir ísklumpar verið að falla úr bogadreginni hvelfingunni yfir munna hellisins og ég vildi gera frétt til aðvörunar fyrir ferðamenn, enda hefur orðið eitt banaslys við svona aðstæður í mynni íshellis við Hrafntinnusker.

Fyrst stóð ég nálagt munnanum og talaði þar nokkur orð fyrir framan myndavélina en flutti hana síðan í nokkurra tuga metra fjarlægð til að taka fjærmynd af mér á sama stað til að sýna stærðarhlutföllin.

Þegar ég kom til baka úr þessum leiðagnri byrjaði ég að taka mynd af bresti sem var í ísstálinu yfir munnanum og fyrir ótrúlega tilviljun byrjaði bresturinn að gliðna á þeirri sekúndu sem ég "súmmaði" inn á brestinn !

Ég víkkaði myndina út og um leið féll um 1000 tonna ísstál niður og þeytti skæðadrífu af stórum ísklumpum í gríðarlegri gusu þar yfir sem ég hafði staðið nokkrum mínútum fyrr !

Líkurnar á að ná þessari mynd voru einn á móti 30 milljónum, því að svona stórt stykki hafði ekki fallið niður í heilt ár.

Hins vegar munaði aðeins örfáum mínútum að myndavélin hefði tekið af því mynd að ísstálið félli niður meðan ég stóð undir því og hefði það orðið magnað skot, - því verður ekki neitað, hreint einstakt í sjónvarpssögu heimsins.

Kannski hafði Steindór Andersen þetta einstæða atvik í huga þegar hann gerði okkur báðum til gamans vísu um mig, sem ég held afar mikið upp á, því að þessi frábæra níðvísa byrjar þannig, að halda mætti að hún væri hólvísa. 

Og ég tek fram að vísur af þessari gerð eru íslensk íþrótt sem á ekkert skylt við illvilja eða illkvittni, heldur mest til gamans.

Svona er þessi frábæra vísa:  

 

Hann birtu og gleði eykur andans, -  /

og illu burtu hrindir.  /

Og þegar hann loksins fer til fjandans  / 

fáum við sendar myndir !  

 


mbl.is Tók mynd af þyrluslysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðhátíð í Klapparhlíð.

Ég segi stundum í gamni um tengdason minn í Klapparhlíð 30 að nú sé þjóðarsorg í Klapparhlíðinni þegar Arsenal tapar leik.

Hann er óhagganlegur aðdáiandi og fylgismaður liðsins en ég segist vera Púlari af því að það lið sé með flottasta baráttusönginn. 

DSCF0502

Ég á 37 ára gamlan og lúinn Range Rover jöklajeppa með jafn gamalli Nissan Laurel dísivél.

Hann er viðbragsðbíll á fjöll ef til þess kæmi að fara ferð með mannskap og tæki í myndatökuferð.

Þegar ég keypti hann á slikk fyrir sjö árum var Arsenal-merki í gluggum bílsins og ég hef ekki fjarlægt þau.

Þau glöddu tengdason minn mikið þegar hann sá bílinn fyrst eins og meðfylgjandi mynd ber með sér. 

Ég var hrifinn af andanum í viðtalinu við þjálfara Arsenal í kvöld þess efnis að peningaaustur með himinskautum eigi ekki að ráða úrslitum í knattspyrnunni, en hann átti víst aðallega við Chelsea.

DSCF0503

Og það hlýtur að hafa glatt hann að Chelsea tapaði í kvöld fyrir Everton.  

Nú er líklegast þjóðhátíð í Klapparhlíðinni eftir úrslit kvöldins og sjálfsagt líka á Birkimelnum hjá Bjarna Fel.

Hér á Háaleitisbrautinni er þó engin þjóðarsorg heldur samgleðst ég Friðriki Sigurðssyni og mínum gamla vini og fóstbróður Bjarna Fel. 

Ég hef ekki innt syni Friðriks og Iðunnar dóttur minnar, þá Sigurð Kristján og Birki Ómar, eftir því með hvaða liði þeir halda og fer því varlega í þau mál.

Þess vegna ætti ég kannski að fara varlega í það nú og framvegis í því að lýsa yfir þjóðarsorg eða þjóðhátíð í Klapparhlíðinni.  

 


mbl.is Arsenal lagði Liverpool - United náði stigi - Chelsea tapaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband