13.2.2010 | 15:49
Vietnam kemur upp í hugann.
Viðfangsefni Bandaríkjamanna í Afganistan minna um margt á Vietnamstríðið. Þá, eins og nú, varð það niðurstaða Kennedys og síðar Johnsons að með því að fjölga hermönnum og auka hernaðaraðgerðir hlyti sigur að vinnast.
Afganistan er að sönnu gerólíkt Vietnam en löndin eiga það þó sameiginlegt að henta afar illa til hernaðar af því tagi þar sem Bandaríkjamönnum gagnast með hernaðartæki sín við framandi aðstæður.
Þar er óvinurinn á heimavelli og beitir ýmsum brögðum skæruhernaðar sem erfitt er að fást við nema að það bitni svo á saklausum borgurum að það baki þjóðaróvild.
Þetta er hættan sem vofir yfir í hernaði Bandaríkjamanna í Afganistan og minnir óþægilega á sams konar fyrirbrigði í Vietnamstríðinu.
McCaine færði að því rök að Bandaríkjamenn hefðu getað unnið sigur í Vietnamstríðinu eða í það minnsta ekki þurft að tapa því svo illa sem þeir gerðu.
Í fréttaflutningi var til dæmis hin fræga Tet-sókn Vietkong mikið áfall fyrir Bandaríkjamenn og sneri almenningsálitinu heima í Bandaríkjunum gegn hernaðinum.
En í raun var Tet-sóknin misheppnuð ef miðað er við markmið hennar og vonir Vietkong. Mannfallið var skelfilegt og fórnirnar ægilegar fyrir skæruliðaherinn.
En Vietnamstríðið tapaðist ekki þar heldur heima í Bandaríkjunum. Og þá komum við að einum mun sem er á stríðinu í Afganistan og í Vietnam.
Bandaríkjamenn misstu að vísu marga hermenn í Vietnam en að öðru leyti sá stríðsins ekki beint stað í Bandaríkjunum sjálfum.
Hins vegar hófst styrjaldarþáttaka Bandaríkjamanna í seinni heimsstyrjöldinni og stríðið í í Afganistan á því að gerðar voru beinar árásir á Bandarikin, á Perluhöfn 7. desember 1941 og New York 11. september 2001.
Slíkar árásir þjappa þeim þjóðum saman sem fyrir þeim verða.
Raunar eru uppi samsæriskenningar þess efnis að bandarísk yfirvöld hafi í báðum tilfellum látið viljandi undir höfuð leggjast að koma í veg fyrir árásirnar vegna þess að mannslífin, sem fórnað væri, væru mun færri en þau sem myndu tapast síðar ef ekkert yrði að gert.
Ekkert verður sannað í þessum efnum en ef það er rétt að Vietnam-styrjöldin hafi tapast heima fyrir, mun stríðið í Afganistan líka geta tapast þar. En árásin á New York er sennilega í of fersku minni sem og aðrar árásir sem ýmist hafa verið reyndar eða verða gerðar.
Síðan er auðvita sá möguleiki fyrir hendi að menn sjái að jafnvel þótt sigur vinnist í Afganistan muni hryðjuverkum ekki linna, - andúðin á Bandaríkjamönnum og stuðninsmönnum þeirra sé of útbreidd.
Sem aftur leiðir hugann að eldsmatnum fyrir þetta allt fyrir botni Miðjarðarhafs, sem ekkert raunhæft er gert í að fjarlægja.
![]() |
Fimm NATO-liðar fallnir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.2.2010 | 01:36
Áhugavert umhugsunarefni.
Heimilin fjórfölduðu skuldir sínar á gróðærisárunum og upphæðirnar á lánunum, sem tekin voru í myntkörfulánum eða erlendum gjaldeyri voru svimandi háar í heild, svo háar, að tilfærsla þeirra eða hluta þeirra til og frá getur skekið allt þjóðfélagið.
Af því leiðir síðan að dómur þess efnis að þetta hafi verið ólöglegt getur haft meiriháttar afleiðingar.
Hins vegar sitja eftir siðfræðilegar spurningar sem koma lagabókstaf lítið við. Það eru spurningar sem allir verða að spyrja sig, neðanfrá og uppúr.
Krónan var augljóslega allt of hátt skráð þegar megnið af þessum skuldum urðu til. Þeim sem tóku það hlaut að vera þetta ljóst sem og það að með því að taka lán einmitt þá væri tekin mikil áhætta.
Þetta var öðrum þætti fjárhættuspil og í slíku spili bera menn ábyrgð á því sjálfir ef illa fer.
Á hinn bóginn er á það að líta að gríðarlegur og næsta einhliða áróður var í gangi um ágæti þessara lána og það hve góður og öruggur kostur þau væru.
Einnig gat enginn séð fyrir eins stórkostlegt hrun og að lokum varð.
Ef siðfræði gildir hygg ég að sanngjörn niðurstaða fari einhvern meðalveg á milli þess að fólk, sem var tilbúið til að taka mikla áhættu, taki á því hæfilega ábyrgð, miðað við málavexti, en að hrunið mikla, sem ekki var hægt að ætlast til að það sæi fyrir, sé á ábyrgð þeirra sem því ollu með andvaraleysi, aðgerðarleysi eða blindri trú á ágæti þess sem var að gerast.
Einstaklingarnir kenna bankamönnum um að hafa boðið gylliboð með miklum þrýstingi. Bankamenn segjast hafa trúað á ágæti hins alþjóðlega fjármálakerfis þar sem svona viðskiptahættir voru í algleymingi.
Eftirlitsaðilar og ríkisstjórnir segjast hafa verið grandalaus um það hvað hafi verið að gerast, - allir hafi trúað því að markaðurinn væri heilbrigðjur og leiðrétti sig sjálfur.
Þannig leitast allir við að vísa ábyrgð af sér neðanfrá og uppúr. Athyglisvert viðfangsefni að pæla í.
![]() |
Gengislánin dæmd óheimil |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)