Illskárri, takmörkuð lausn.

Ef beislun kjarnorkunnar væri frábær lausn væru löngu búið að hverfa til hennar. En það  er ekki tilviljun að ekkert nýtt kjarnorkuver hafi risið í Bandaríkjunum í 30 ár og það eru ekki aðeins kjarnorkuslysin sem hafa fælt menn frá frekari nýtingu. 

Flestum ber saman um að öryggi hafi aukist en vandræðin vegna úrgangsins og öflunar þeirra hráefna sem kjarnorkuvæðingin krefst verður ekki hægt að leysa til frambúðar ef menn leita nú á náðir hennar öllu öðru fremur.

Það hafa verið nefnd ýmis úrræði, kjarnorkan, kolaorka, etanól, metanól, vatnsorka, sólarorka, vindorka og jarðvarmi sem komið gætu í stað þverrandi olíu- og gaslinda.

En engin ein þessara leiða getur leyst vanda hins stórkostlega orkubruðls sem mannkynið stundar.

Að því leyti til byrjar Obama á öfugum enda því að mestu skiptir gerbreytt stefna í orkunýtingunni.

Honum er hins vegar vorkunn, því að smíði kjarnvorkuvera er fljótlegasta úrræðið og vonandi heykist hann ekki á að efna stóru loforðin úr kosningabaráttunnni um breytta umhverfis- og orkustefnu.

Obama ætlar ekki að ráðast í virkjanir í þjóðgörðum Bandaríkjanna, sem væri afar fljótlegur kostur,  þótt sumir þeirra, eins og hið gríðarlega jarðvarma og vatnsafls-orkubúnt Yeollowstone myndi vafalaust verða ofan á ef núverandi íslensk viðhorf ríktu vestra í meðerð náttúruverðmæta í Ameríku. 

Það er umhugsunarefni að mesta orkubruðlsþjóð veraldar hugsar þó skár í þeim efnum en við Íslendingar.  

 


mbl.is Obama vill tvö ný kjarnorkuver
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snýst um sanngirni og siðfræði.

Það er hægt að rífast út í eitt um lagaleg álitaefni varðandi íslenska hrunið og stóráföll hins alþjóðlega fjármálakerfis. 

Ummæli fjármálaráðherra Noregs bera þess merki að hann velur sér þann lagagrundvöll sem hentar bláköldum fjárhagslegum hagsmunum Noregs en íhugar ekki hvort sitt hvað geti verið löglegt en þó siðlaust.

Því miður var enginn Vilmundur Gylfason uppi í Noregi til að skilja eftir jafn stórkostlega arfleifð og hin fleygu orð hans: "Löglegt en siðlaust."

Úrlausn Icesave og annarra stórmála hinna miklu fjármálahamfara sem skekið hafa heiminn er spurning um siðfræði framar einhverjum lagakrókum.

Hinn norski ráðherra ætti að íhuga hve miklar byrðar Íslendingar eru reiðubúnir að leggja á hvern skattborgara hér í landi miðað við það litla sem hver skattborgari hinna landanna getur þurft að reiða af hendi vegna atburða sem gerðust í þeirra löndum og þeirra eigin stofnanir hefðu vel getað haft eitthvað um að segja ef þar hefði ekki verið sofið á verðinum, rétt eins og hjá íslenskum stjórnvöldum og eftirlitsstofnunum.

Hann ætti líka að íhuga það hvaðan sá hugsunarháttur var upprunninn sem felldi Lehman Brothers og aðra erlenda banka og hvaða siðferðilega ábyrgð vestræn stjórnvöld bera í sameiningu.  


mbl.is Íslendingar báru einir ábyrgð á eftirliti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breyttar samgöngur eina vonin.

Fólksflutningarnir miklu vestur um haf fyrir 130 árum áttu sér að mestu leyti stað á tveimur áratugum. 

Þá var íslenska þjóðin meira en fjórum sinnum fámennari en hú þannig að 2229 manns 1887 samsvara um tíu þúsund manns nú.

Brottflutningurinn nú er því tvöfalt minni hlutfallslega en 1887.  

Engu að síður er ekki hægt að skilgreina það öðruvísi en sem blóðtöku að missa fólk þar sem meðalaldurinn er 25 ár. 

Áhrifin af slíkum brottflutningi árum saman yrði sá að sá hluti þjóðarinnar sem er kominn á efstu ár og fer fjölgandi, verður enn stærri hluti þjóðarinnar en þyrfti að vera og það þýðir vítahring hækkandi skattbyrðar á þá sem skapa mestu verðmætin og þar af leiðandi meiri hættu á að það fólk flytji til nágrannalandanna.

Eitt er þó öðruvísi nú en fyrir 130 árum. Þeir, sem fluttu til Vesturheims fóru svo langt og rifu sig svo gersamlega upp að þeir áttu aldrei neina möguleika á að koma til baka.

Þeir,sem núna flytja til Norðurlandanna halda áfram að vera innan vébanda sameiginlegs atvinnusvæðis með afar greiðum samgöngum og gagnkvæmum réttindum.  

Einnig er á það að líta að vegna landþrengsla í landbúnaðinum hér heima um aldamótin 1900 átti unga fólkið í dreifbýlinu mjög erfitt með að fá landnæði og fór upp til heiða í basl Bjarts í Sumarhúsum til þess aðg geta verið frjálst. 

Ef engir fólksflutningar hefðu verið til Ameríku hefði það ástand orðið enn verra.

Fólkið, sem nú hefur flutt til nágrannalandanna á auðvelt með að flytja hingað aftur ef rofar til í málum okkar.

Þegar fólksflótti var frá Íslandi á árunum 1968-70 komu margir heim aftur þegar aftur birti til í byrjun áttunda áratugsins. Gagnkvæm réttindi og auðveldir fólksflutningar gera þetta auðveldara nú. 

Von okkar nú er að svipað geti gerst aftur og í niðursveiflunni 1967-70 ef við komumst í gegnum þá kreppu, sem framundan er.  


mbl.is Mestu búferlaflutningar Íslandssögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband