1949 er komið aftur.

Á árunum 1946 og 1947 var "bóla" í íslenska efnahagskerfinu sem þó var að því leyti öðru vísi en bólan 2002-2008, að bólan eftir stríðið byggðist á raunverulegum peningum en ekki tölum í tölvum sem búnar voru til með krosseigna- og krosslánatengingum sem gátu búið til í tölvunum "viðskipavild" sem nam hundruðum milljarða króna er var í raun ekki til. 

Þess vegna er það að stórum hluta rétt hjá Björgólfi Thor Björgólfssyni að um stóran hluta 2007- bólunnar gilti það að "peningarnir gufuðu upp og hurfu án þess að fara á neinn annan stað.

En aðalatriði beggja "gróðæranna" 1946-47 og 2002-2008 var hið sama: Að græða og eyða peningum eins hratt og mögulegt var.

1946 til 1947 var þetta meðal annars gert með því að meira en tvöfalda bílaflota landsmanna.

Stórum gjaldeyrisforða sem safnast hafði upp á stríðsárunum var gereytt á tveimur árum.

Afleiðingarnar urðu hinar sömu og nú. 1948 hrundi innflutningur bíla niður í brot af því sem hafði verið árið áður og varð enn minni 1949 og næstu ár þar á eftir.

Varla var hægt að tala um innflutning í sjö ár, 1948-54 að báðum meðtöldum. Innfluttu bílarnir 1946 og 47 voru mestan part stórir eyðslufrekir amerískir bílar.

Þegar ég var í Danmörku 1955 skildu Danirnir það ekki að 80% bíla á Íslandi væru stórir amerískir bílar á sama tíma og slíkir bílar eða bílar af þeirri stærð sáust varla á götum Evrópu.

Það sama hefur gerst aftur. Íslenski bílaflotinn samanstendur af stærri og eyðslufrekari bílum en nokkurs staðar annars staðar í Evrópu og nú kemur þetta okkur í koll þegar þarf að fara að reka þennan bílaflota og afskrifa hann á næstu árum.

Íslendingar hefðu átt að læra af eins konar sprengingum á bílainnflutningi sem hafa átt sér stað hér á landi með reglulegu millibili í 60 ár, 1946-47, 1955-56, 1965-67 og 1986-88. 

En við höfum ekkert lært og viljum það greinlega ekki.  


mbl.is 29% færri bílar nýskráðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á skjön við þýskan aga ?

Eitt helsta stolt þýsku þjóðarinnar hefur lengi verið agi og stefnufesta, sem þó voru greinlega misnotuð illilega af nasistum á sínum tíma. 

Sem dæmi get ég nefnt að 17 daga ferð þýska skemmtilferðaskipsins Regínu Maris með Íslendinga 1967 tókst þremur íslenskum gleðimönnum að blanda geði við nokkra skipverja að næturþeli á siglingu skipsins og endaði það með því uppátæki að halda vasaútgáfu af slökkviæfingu þar sem beitt var slökkvitæki. 

Ástæða þess að þetta var mögulegt var sú að um barinn á skipinu giltu þær reglur að hann væri opinn þar til enginn viðskiptavinur væri eftir.

Þarna misreiknuðu Þjóðverjarnir sig illa, því að enda þótt þýskir ferðamenn hyrfu af barnum fyrir miðnætti þegar siglt var með þýska farþega gilti öðru máli um Íslendinga.

Voru þrír hinir framangreindu Íslendingar einna iðnastir við kolann og það svo mjög að barinn var opinn allan sólarhringinn vegna þaulsetu þeirra.

Þeir hurfu iðulega af vettvangi um það leyti sem hinir fyrstu nývöknuðu komu á barinn á morgnana!  

Daginn eftir þetta atvkik fengu allir þeir skipverjar sem sannalega höfðu haft samneyti við farþega uppsagnarbréf og voru reknir í land í næstu viðkomuhöfn.

Þess utan var hinum íslensku farþegum tilkynnt um það hve mikið væri lagt upp úr aga meðal skipverja og skilyrðislausrar hlýðni þeirra við skipsreglurnar, sem hefðu verið gróflega brotnar.

Strangt bann lægi við nokkru óþörfu samneyti skipverja við farþega. Íslendingarnir þrír, sem áttu allt frumkvæði að þessari uppákomu, fengu ekkert tiltal frá útgerð skipsins á þeim forsendum, að skipverjar hefðu látið athæfið óátalið og ekki bara það, heldur tekið þátt í því.

Maður hefði haldið að um borð í þýsku herskipi gilti tvöfaldur agi, hinn þekkti þýski þjóðaragi og þar á ofan strangur heragi.

Nú er að sjá hvort viðurlögum verður beitt um boð skipverjanna til íslenskra stúlkna eða hvort að hægt verði að segja um þetta atvik: Öðru vísi mér áður brá.   


mbl.is Partí sjóliða stöðvað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband