Stærsta gildi jarðhitans.

Stærsta gildi jarðhitans á alla lund er það sem hann leggur til þjóðarbúsins við hitun húsa, ekki bara 50-60 milljarða sparnaður í erlendum gjaldeyri heldur líka eftirfarandi atriði.

1. Nýting orkunnar er margfalt meiri en við raforkuframleiðslu, en í henni fara nær 90% orkunnar ónotuð út í loftið. 

2. Þetta getur kallast hrein orka þótt efnasambönd séu í heita vatninu og þó sérstaklega í samanburði við raforkuframleiðsluna sem hleyptir miklu af brennisteinsvetni út í loftið.  

3. Tvennt framangreint er mikill álitsauki fyrir land og þjóð og auglýsing út á við. 

4. Vísindaleg þekking sem getur orðið útflutningsvara.

5. Jarðhitinn getur verið endurnýjanleg orkulind ef farið er af fyllstu varúð og framsýni í beislun hans. Á það skortir hins vegar mikið í óðagotsvirkjanaæði skómigustefnunnar, sem hér ríkir í krafti óskynsamlegrar stóriðjutrúar. 


mbl.is Jarðhitinn sparar 50 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laddi var enn flottari !

Atvikið í leik Sádi-Arabíu og Bareins er einstakt en þó veit ég um einstakara atvik í boltaíþrótt.  

Tveir af mögnuðustu leikmönnum stjörnliðsins míns hér áður fyrr voru Albert Guðmundsson og Laddi. 

Albert skoraði körfu frá vítapunkti í Laugardalshöll með því að nota fótinn. Hann gat allt til æviloka, með stóra ístru, slæma sjón og kominn vel á sjötugsaldur, gripið fljúgandi bolta með fætinum, staðið með hann á ristinni, og sent hann siðan hvert sem var án þess að hann kæmi við jörðu. 

Engan mann á nokkrum aldri hef ég séð geta leikið þetta eftir.  

Boltinn á styttunni af honum  í Laugardalnum ætti að vera á tám hans en ekki liggjandi á jörðinni.

Laddi á þó heimsmetið að mínum dómi, enda mesti grísara snillingur sem ég hef kynnst. 

Atvikið gerðist í "Ljónagryfjunni" í Njarðvík þegar við höfðum lokið knattspyrnuleik okkar í hléi körfuboltaleiks. 

Við vorum á leiðinni út þegar Laddi hljóp til baka yfir völlinn út í horn hans til að ná í eitthvað sem hann hafði gleymt þar.

Jón bróðir minn var að ganga út af vellinum með boltann þegar Laddi kemur hlaupandi úr gagnstæðu horni og kallar til Jóns að senda boltann til sín.

Jón spyrnti boltanum í fasta og langa sendingu sem stefndi hátt og í löngum boga á Ladda.

Laddi hljóp á móti boltanum, stökk hátt upp með fæturna í splitti eins og fimleikakona. Boltinn lenti á vinstra hné hans og fór í löngum, háum boga í átt að körfunni.

Laddi var lentur og byrjaður að "kvitta fyrir" skotið þegar boltinn small ofan í körfuna !

Ég get ekki ímyndað mér að nokkur maður í heiminum geti leikið þetta eftir. Að þessu voru hundruð áhorfenda vitni en því miður er ekki til nein mynd af því.  


mbl.is Frábært sigurmark (myndband)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiri mælingar.

Líklegast eru auknar mælingar helsta skýringin á fjölgun hraðakstursbrota. Settar hafa verið upp sjálfvirkar hraðamyndavélar í Ölfusi, Melasveit og víðar og hafa árreiðanlega borgað sig. 

Blönduóslöggan er landsþekkt en vitað er að Akureyrarlögreglan hefur gert ráðstafanir til að hafa hemil á ökuhraða í Öxnadal og á Þelamörk þar sem eru langir beinir kaflar og ökumenn hafa hyllst til að gleyma sér.

Eins og þeir vita sem ekið hafa á hraðbrautum í Þýskalandi, eru flestir bílar orðnir það góðir að það er ekkert mál að aka þar á 130 km hraða og þar yfir ef menn sætta sig við aukna eldsneytiseyðslu. 

90 km hámarkshraðinn helgast af því að umferð mætist úr gagnstæðum áttum og ef eitthvað ber útaf er sá hraði lífshættulegur fyrir þá sem eru í bílum sem rekast hvor framan á annan.

Á brautum sem eru tvöfaldar og með vegriði á milli erlendis er leyfður hraði hærri, þetta 100-110 km hraði. Í Svíþjóð er leyfilegur hraði yfirleitt um 10-20 km hærri en á samsvarandi vegum í Noregi og slysatíðnin þó ekkert meiri.

Það er líklega mest vegna þess að norsku vegirnir eru yfirleitt miklu hlykkjóttari og þrengri.  

 Ef hraðamyndavélar eru nógu margar gera þær gagn. Dæmi veit ég um Íslending sem ók norður frá Osló í átt til Þrándheims og fékk sjö hraðasektir í hausinn úr sjálfvirkum vélum sem er raðað þar við veginn.

Á ferð um Noreg verður íslenskur ökumaður að gera ráð fyrir miklu lægri meðalhraða en hér á landi.

Eftir tveggja daga akstur í Noregi er búið að ná Íslendingnum niður og skilaboðin,sem hafa seytlað um sálina eru þessi:  "Minnkaðu stressið og hafðu hugann við aksturinn svo að aksturslag þitt sé öllum til hagsbóta og öryggis."

Að lokum þessi vísa um Blönduóslögguna.

 

Ef bíla snögga ber við loft  /

brátt má glögga sjá,  /

því Blönduóslöggan æði oft   /

er að "bögga" þá.    


mbl.is Hraðakstursbrotum fjölgar mikið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband