"Bíll með kerru útaf..."

Það er búið að spá verra veðri nú síðdegis en var í morgun. Sú spá birtist strax í gær, - spáð hvassviðri og snjókomu af norðaustri, en allir sem eiga leið um Kjalarnes og fyrir Hafnarfjall ættu að vita hvað það þýðir.

Nei, svo virðist ekki vera, eins og sést af þessari dæmalausu setningu í frétt af óveðrinu og ófærðinni undir Hafnarfjalli: "...bíll með kerru útaf..." 

 


mbl.is Fastir undir Hafnarfjalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búið að blása þetta of mikið upp?

Ég held að margir svari þessari spurningu játandi varðandi einkamál landsliðsmannanna Bridge og Terrys.

Raunar gildir svipað um mörg þau mál af þessum toga sem koma upp hjá Bandaríkjamönnum og Bretum þar sem slúðurblöð og fjölmiðlar virðist geta æst almenning upp í hneykslun sem er sveipuð mikilli skinhelgi.

Ekki er hægt að kenna slúðurblöðunum um þetta því að jarðvegurinn fyrir sölu þeirra og áhrifum liggur hjá fólkinu sem kaupir þau og smjattar á því sem þau hafa fram að færa. 

Gaman væri að vita hvort sams konar mál ylli þvílíku írafári í Frakklandi eða bara hér á landi, þar sem allir þekkja þó alla og návígið er margfalt meira en hjá milljónaþjóðum. 

Ekki nóg með að baulað hafi verið á fyrirliðann í því skyni að hrekja hann úr hlutverki sínu í landsliðinu, heldur er þetta farið að bitna æ meira á landsliðinu, sem ekki er aðeins tengt þjóðarstolti Englendinga heldur einnig hægt að meta áhrifin á milljarða punda.  


mbl.is Bridge hættur með landsliðinu vegna Terrys
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Örfá sæti laus..."

Hversu oft höfum við ekki séð ofangreind þrjú orð notuð í auglýsingum um alls kyns viðburði og hve oft skyldi vera hægt að henda reiður á því hvort þetta séu orð að sönnu eða aðeins auglýsingabragð.

Hversu oft hefur ekki verið auglýst: "Uppselt er á tónleikana og hefur því verið bætt við aukatónleikum".

Síðan hefur komið í ljós að hægt var að fá miða á upphaflegu tónleikana allan tíman þangað til þeir voru haldnir.  

Mikið af auglýsingamennsku byggist á því að höfða til kenndar sem nefnd hefur verið "hjarðmennska" og felst í því að allir vilja vera "in" sem kallað er, það er, fara á viðburði eða kaupa sér vörur eða þjónustu sem fjöldinn kaupir.

Fyrir öllu er að sýnast maður með mönnum, vera eins og allir aðrir og þar sem allir eru og vera viðræðuhæfur.  

Í þætti Bubba í fyrradag lýsti ég því hvernig þetta hefur gilt lengi í skemmtanabransanum og nefndi dæmi um samkomur eða böll þar sem það skipti máli hjá hverjum og einum hvað hann eða hún hélt að flestir myndu vera, -  ekki hvar yrði endilega besta skemmtunin.

Ég nefndi sem dæmi þegar óperusöngkonan Guðrún Á. Símonar var fengin til að skemmta á fjölmennu balli fyrir austan fjall þar sem hún fékk ekki hið minnsta hljóð fyrir hávaða og skrílslátum viðstaddra sem voru komnir þangað í allt öðrum tilgangi en að hlusta á óperusöng.

Ástæðan fyrir því að Guðrún var fengin var sú að sögn mótshaldara, að ef hann gæti nefnt lengsta nafnalista nafnkunnra skemmtikrafta eða listamanna sem samkoma á Suðurlandi byði upp á, skipti engu máli hverjir skemmtikraftarnir væru, bara að nöfnin væru þekkt. 

Fólk vildi helst fara þangað sem allir væru.

Sama gildir oft um vörur. Hver man ekki eftir fótanuddtækjunum hér um árðið, sem allir urðu að kaupa sér, til þess að vera "in", voru síðan sett niður í geymslu eða bílskúr og sáust ekki meira. 

Ef þú átt ekki eins hluti eins og allir eiga ertu aumingi.

Á þeim tímum þegar samtök atvinnulífsins erlendis héldu fundi, var auðséð á bílaflotanum fyrir utan hverjir voru á staðnum, - þetta voru allt saman dýrustu og stærstu gerðir af Benz, BMW, Audi og Lexus.

Á sama tíma mátti hér á landi sjá fyrir utan samkomustaðinn tóma lúxusjeppa, Range Rovera, stóra Landcruisera, Pajeroa, Lexusa og Hummera. 

Þetta voru tákn þess að eigendurnir væru nær vikulega í dýrustu laxveiðiám landsins.  

Sumir þessara jeppa voru á svo lágum dekkjum að ekki var hægt að aka þeim út af malbiki og með silfurlituð stigbretti sem námu næstum við jörðina.

Ég veit um verkstæði hér í borginni þar sem geymd eru fyrir eigendur svona jeppa dekk á felgum sem þeir setja undir þegar þeir fara í laxveiði.  

Þetta hefur verið svona frá landnámstíð. Í fornsögunum var eytt dýrmætu rými á kálfskinninu til að lýsa skartklæðum, vopnum og hestum höfðingjanna.

Var hann á gæðingnum Sleipni í gullsleginni skikkju, gyrður sverðinu Fótbít og með silfursleginn hjálm á höfði.

Núna: Hann var á Porsche Cayenne jeppa með 500 hestafla túrbóvél, 22ja tommu felgum með "low-profile" dekkjum og dró á eftir sér 30 feta hjólhýsi.

Já, fötin skapa manninn og jeppinn skapar höfðingjann.  


mbl.is Uppseldri ferð aflýst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband