Dæmigerðar íslenskar samræður.

(Ég vil í upphafi þessarar færslu benda á aðra nýrri myndskreytta færslu um séríslenskt fyrirbæri í umferðinni sem getur verið lífshættulegt, samanber eigin reynslu.) 

Í dag hef ég átt athyglisverðar samræður við fólk sem hefur lagt bílum sínum í stæði fatlaðra þótt það sé ófatlað sjálft. 

Ástæðan var sú að ég átti leið í apótek í verslunarmiðstöð hér í borginni þar sem mjög stutt er frá stæðum, sem sérmerkt eru fötluðum inn í lyfjaverslunina. Búið var að moka allt bílastæðið og gangstéttirnar og við verslunarmiðstöðina eru tvö samliggjandi blálituð stæði með einu merki sem vísar til þess að þessi stæði séu ætluð fötluðum.

Engu að síður er erfiðara að fara um á hækjum heldur en var fyrir nokkrum dögum, en þessar vikurnar telst ég vera liðsmaður í hækjuliðinu.  

Þegar ég kom þarna fyrst að voru bílar í öllum stæðunum, sem voru næst innganginum, og varð ég því að leggja mínum bíl nokkuð fjarri.

Það hefði svo sem verið í góðu lagi undir venjulegum kringumstæðum en þegar ég hafði hökt á hækjunum að innganginum sá ég að hvorugur bíllinn, sem var í stæðunum sem voru ætluð fötluðum, var með merki fatlaðra í gluggum.

Brátt kom fyrri bílstjórinn út úr versluninni og ég spurði hann hvort hann vildi ekki þiggja hjálp mína vegna fötlunar sinnar. Samtalið í framhaldinu var athyglisvert:

Maðurinn: Hvaða stælar eru nú þetta?

Ég: Jú, ég hlýt að bjóða þér aðstoð, ég geri það alltaf þegar menn eins og þú leggja í stæði fatlaðra.

Maðurinn: Ég reiknaði ekki með því að fatlaðir væru á ferðinni í svona færð.

Ég: Ég er nú samt á ferðinni.

Maðurinn: Það er nú ekkert að marka þig!

Ég: Heldurðu að ég sé að hökta á hækjum með fótinn í gifsi að gamnin mínu?

Maðurinn: Bíllinn við hliðina á mér er í stæði fatlaðra, ekki minn.

Ég: Jú, líka þinn, þetta eru tvö stæði.

Maðurinn: Ekki sá ég það þegar ég lagði hérna. Og hitt stæðið var autt þegar ég kom. 

Ég: Hvernig vissurðu að það yrði autt áfram eftir að þú fórst inn? Það sést vel þegar þú lítur niður að bæði stæðin eru blá. 

Maðurinn: Það er engin þörf fyrir tvö stæði fyrir fatlaða í svona veðri.

Ég: Hvernig veist þú hvort það koma einn eða tveir fatlaðir hingað? Og þurfa fatlaðir einmitt ekki frekar á stæðum sínum að halda þegar færð er erfið eða veður er ekki gott? 

Maðurinn: Ég var nú mjög stutt inni.

Ég: Hvernig átti sá fatlaði að vita það ef hann kom hér akandi að þú myndir verða stutt inni? 

Maðurinn: Þér kemur þetta ekkert við.

Ég: Jú, einmitt núna kemur mér þetta við.

 

Maðurinn sneri upp á sig, snaraðist upp í bílinn og ók í burtu. Ég hökti nú að mínum bíl og fór upp í hann, en sá að stæðið öðru megin við bláu stæðin losnaði og lagði því mínum bíl þar inn.

Ég var orðinn forvitinn um framvindu mála. Skömmu síðar kom bíll með merki fatlaðra í framglugga og lagði í merkta stæðið. Út snaraðist aldeilis ófötluð kona og skokkaði létt inn. Augjóslega var hún að misnota merki manns hennar eða annars skyldmennis. 

Í beinu framhaldi af því var bíl lagt í bláa stæðið, sem hafði losnað, við hliðina á mér. Út snaraðist maður, aldeilis ófatlaður, en ég kallaði á hann út um opinn gluggann: "Fyrirgefðu, þú varst að leggja í stæði fatlaðra!" Aftur spannst skemmtilegt samtal: 

 

Maðurinn:  Þetta er ekki stæði fatlaðra. Það er bara eiitt merki hér við stæðið. 

Ég: Jú, þú sérð að bæði stæðin eru blámáluð.  

Maðurinn: Og hvað með það?

Ég: Ef það kemur fatlaður bílstjóri hérna, fær hann ekkert stæði nema langt í burtu.

Maðurinn: Það eru engir fatlaðir á ferð í þessu færi.

Ég: Ó, jú, sjáðu bara hækjurnar sem ég þarf að nota. Og hægri fóturinn á mér er í gifsi. 

Maðurinn: Af hverju lagðir þú þá ekki í stæðið?

Ég: Af því að ég er ekki með merki í glugganum og var þar að auki svo heppinn að fá þetta stæði hér.

Maðurinn: Nú, þá ertu bara jafn merkislaus og ég og fékkst stæði hvort eð er. Hvaða nöldur er þetta í þér? 

 

Það með var hann rokinn inn. Ég var orðinn forvitiinn um hegðun fólks og ákvað að sitja góða stund og fylgjast með.

Brátt komu bæði maðurinn og konan út og óku í burt en um leið snaraðist inn bíll sem lagði miðja vegu í auða bilið þannig að hann tók bæði stæðin. Aldeilis ófatlaður maður kom út úr bílnum og þriðja samtalið hófst:

 

Ég: Halló! Fyrirgefðu, - þú leggur í tvö stæði!

Maðurinn: Það er ekkert hægt að sjá það í þessu færi.

Ég: Jú, þú sérð að þetta eru tvö blámáluð stæði þegar þú skoðar þau og þú sérð álengdar að þetta er tvöföld breidd.  

Maðurinn: Það var enginn í stæðunum þegar ég kom.  

Ég: En það kynnu einhverjir að koma sem þyrftu að nota þau.

Maðurinn: En ég kom á undan.  

Ég: Þú tekur tvö stæði sem ætluð eru fötluðum.

Maðurinn: Ég er á svo stórum bíl og ætla bara rétt að skreppa inn.

Ég: Hvernig á fatlaður bílstjóri sem kemur hér að að vita það?

Maðurinn: Það kemur enginn fatlaður hingað í svona færi.

 

Enn lyfti ég hækjunum og fór í gegnum svipaða rökræðu og fyrr sem virtist ekki hafa hin minnstu áhrif á þennan mann frekar en aðra sem leggja bílum svona.

Maðurinn sagðist ekki skilja hvaða erindi fatlaðir ættu á þennan stað í svona veðurlagi. Ég benti honum á að einmitt hér væri einna styst vegalengd frá stæði fatlaðra inn í lyfjabúð og að fatlaðir væru líklegri til að þurfa að versla við lyfjabúð en svonefnt heilbrigt fólk. Þá kom alveg dásmlegt andsvar: 

 

Maðurinn: "Fatlaðir eiga að velja sér þægilegri verslunartíma en þegar umferðin er mest.

Ég: Ef þeir eru að ná í mikilvægt lyf, eiga þeir þá bara að draga það af því að þú og þínir líkar viljið versla á mesta annatímanum?

Maðurinn: Æ, ég nenni ekki svona þrasi.  

 

P. S.  Bætti við öðrum og styttri pistli með mynd í framhaldi af þessum undir heitinu: "Það var stór bíll hér áðan" og minni á enn nýjan pistil um íslenska hegðun í umferðinni sem getur verið lífshættuleg, samanber eigin reynslu.  

 

 

 

 


Skammsýni á sínum tíma?

Þegar ákveðið var að leggja veg yfir Mjóafjörð með brú yfir fallega ósnortna eyju var því jafnframt hafnað að bora einfaldlega göng undir Eyrarfjall og sleppa þannig við að fara hina löngu leið út fyrir Vatnsfjörð og inn Mjóafjörð.  

Það hefði að vísu orðið eitthvað dýrara að gera þessi göng en að fara þá leið sem valin var, en með göngunum hefði Hrútey verið þyrmt og leiðin um Djúpið orðið styttri og greiðfærari en hún er nú.

Ellefu milljarða króna Héðinsfjarðargöng hafa haft sín ruðningsáhrif í vegagerð víða um land undanfarin ár og mig grunar að síðar muni menn telja skammsýni hafa verið ríkjandi á mörgum ákvörðunum um samgöngur síðustu 35 ár, ekki síst á Vestfjörðum.

"Hvað hefur klikkað?" er spurt og orðið skammsýni hlýtur að koma til álita í því efni.  


mbl.is Ósátt við veglangingu fyrir vestan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband