27.2.2010 | 13:03
"Það var stór bíll hérna áðan..."
Í framhaldi af pistlinum "Dæmgerðar íslenskar samræður" læt ég fljóta hér með smá viðbót.
Fyrir nokkrum dögum kom ég að útibúi Landsbankans í Kópavogi. Þetta er allstór bygging og mikil umferð fólks oft á tíðum. Jörð var auð, gott veður, og allar merkingar bílastæða sáust vel.
Beint fyrir utan anddyrið eru tvö stæði sérmerkt fötluðum en leigubíl hafði verið lagt þannig að hann var skakkur og skagaði meira en helmingur afturenda hans inn á stæði fyrir fatlaða en framendinn var að mestu inni á stæðinu við hliðina.
Ég lagði fjær og hökti að bílnum. Enginn farþegi var í honum. Ég spurði hvort fatlaður farþegi hefði verið í bílnum. "Nei", sagði bílstjórinn.
"Af hverju leggurðu inn á stæði fyrir fatlaða? " spurði ég. "Af því að það stóð stór bíll hérna áðan" var svarið.
Ég spurði ekki frekar um það hvers vegna bíllinn þyrfti tvö stæði, þótt mér þætti skrýtið að leigubíllinn þyrfti að standa svona vegna bíls sem væri farinn í burtu.
Greinilegt var að það hafði verið allt of erfitt fyrir bílstjórann að færa bílinn til eftir að stóri bíllinn var farinn.
Ég fór síðan inn í bankann og var þar í ca 10 mínútur en þegar ég kom út hafði leigubílstjórinn að vísu þokað bílnum aðeins til þótt honum væri greinilega um megn að að leggja almennilega og stóð bíllinn enn út yfir línuna sem markaði bílastæðið.

Sjálfur var bílstjórinn farinn og af því mátti ráða að hann væri ekki með farþega heldur að sinna eigin erindum.
Afsökunin "það stóð stór bíll hérna áðan" er ekki ný í mínum eyrum.
Læt fylgja hér mynd af jaðri bílastæðis þar sem sést að sá bíll,sem yst stendur, hefur ekki verið þvingaður að neinum til þess að standa það langt frá gangstéttinni að hann riðlar öllu fyrir næstu bílum.
Tókst einungis að nýta mér rúmlega hálft stæðið við hliðina á honum af því að ég var á ferli á minnsta bílnum sem þá var í umferðinni.
Það er ekki eins og þessi grái bíll sem er svona frekur til rýmisins sé einhver dreki. Nei, þetta er smábíllinn Toyota Yaris, en svo er að sjá sem ökumaður hans hafi misskilið auglýsinguna um að þessi bíll væri "risasmár."
Svo "risasmár" að ef ég hefði ekki getað smokrað mínum örbíl þarna inn, hefði hinn "risasmái" bíll tekið upp tvö stæði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.2.2010 | 12:29
Hvað gerðu nágrannar og ættingjar af sér?
Svo að því sé til skila haldið hef ég sótt tugi mótmælafunda og lét heyrast vel í "búsáhaldi" mínu í Búsáhaldabyltingunni. Einnig gengið í fjölmennri mótmælagöngu um miðborgina.
En aldrei hefur mér dottið í hug að sýna nágrönnum og ættingjum fólks þá ósanngirni að láta það gjalda fyrir eitthvað sem mér hafi mislíkað hjá ráðamönnum eða öðrum.
Ef einhver slíkur ætti heima í sama stigagangi og ég í blokkinni sem ég bý í, þætti mér það hart að vera vakinn með látum á frídegi vegna þess að einhverjir ættu sökótt við nágranna minn í næstu íbúð og ryddust upp stigann til að láta hann finna fyrir því.
Ef það væri ég sjálfur sem þyrfti að tugta til þætti mér það ekki réttlátt að slíkt yrði gert þegar börn mín eða barnabörn eru hjá mér í heimsókn.
Mér finnst einfaldlega að það eigi að láta fólk í friði heima hjá sér samanber lög um friðhelgi heimiilsins.
Enginn vandi á að vera að nálgast viðkomandi ráðamenn annars staðar. En tilgangurinn helgar hér greinilega meðalið og ljósmyndarar og fjölmiðlamenn láta rífa sig upp til að taka myndirnar sem sóst er eftir að verði birtar með fyrstu fréttinni í hádeginu.
![]() |
Vöktu Steingrím J. Sigfússon |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)