28.2.2010 | 18:37
Lífshættulegur misbrestur í íslenskri umferð.
Sumir ágallar í íslenskri umferð geta verið hættulegri en sýnist í fljótu bragði. Einn þeirra er sá ósiður að þar sem ökumenn þurfa að færa sig yfir að aðra akrein, til dæmis þar sem tvær akreinar sameinast í eina, hleypa þeir sem eru fyrir á akreininni ekki öðrum inn á hana.

Hvergi í nágrannalöndunum sér maður svona hegðun, heldur er fyrirbærið "tannhjól" þar notað, enda lang fljótlegasta, einfaldasta og hættulausasta aðferðin til að láta umferð ganga snurðulaust fyrir sig þar sem ökumenn þurfa að færa sig yfir á aðra akrein.
Hleypir þá hver bíll á beinu akreininni einum bíl inn af aðreininni, - þ. e. einn fyrir einn.
Þetta er lang einfaldast og virkar nánast sjálfvirkt í öðrum löndum.
Ég skal nefna dæmi um það að þessi hegðun var beinlínis lífshættuleg.
Fyrir sex árum ók ég á litlum bíl af Réttarholtsvegi inn á aðrein sem liggur af þeirri götu til austuráttar meðfram Miklubraut, sjá myndir hér við hliðina.

Aðreinin er viljandi höfð mjög löng, nokkur hundruð metrar til þess að umferðin á henni geti á þægilegan hátt blandast umferðinni á Miklubrautinni.
Þegar ég ók austur eftir aðreininni brá svo við að útilokað var að komast inn á Miklubrautina, því að ýmist vildi enginn hleypa mér inn á hana eða að menn beinlínis gáfu í til þess að koma í veg fyrir að ég kæmist.
Þegar ég kom á enda aðreinarinnar varð ég að gefast upp og stöðva bílinn og leit í baksýnisspegilinn til að vera viss um að enginn kæmi aftan á mig.

Þá sá ég að stór amerískur bíll kom í drjúgri fjarlægð í sömu átt og ég eftir akreininni með stefnuljósin á og nálgaðist mig hratt því að greinilegt var að bíllinn var á svipaðri ferð og umferðin til vinstri handar eða um 60 km á klst.
Bíllinn nálgaðist mig óðfluga og ég bjóst við að hann myndi stansa. Skyndilega sá ég, mér til mikillar skelfingar, að bíllinn hægði ekkert á sér og var þar að auki kominn svo nálægt mér að ekkert ráðrúm var til að gera neitt.
Það eina sem ég hafði tíma til að gera var að taka fast í stýrið um leið og ógurlegt högg reið aftan á bílinn.

Höggið var svo mikið að ég missti meðvitund í örstutt augnablik. Þegar ég rankaði við mér hafði bíllinn henst 15 metra áfram, bílstjórasætið hafði bognað og hálfbrotnað og ég hafði beygt stýrishjólið með höndunum, - nokkuð sem ég gæti ekki með nokkru móti ef ég væri beðinn um að gera það.
Ég var aldrei þessu vant á bíl konu minnar sem var nýrri og sterkbyggðari en gamli litii bíllinn minn.
Ef ég hefði verið á honum hefði bílsstjórasætið örugglega brotnað og losnað og ég sennilega henst aftur á bak og út um afturrúðuna.
Kona, sem var á stóra bílnum, var alveg eyðilögð yfir þessu og sagði við mig:


"Fyrirgefðu, en ég er nýkomin úr áralangri dvöl í Ameríku og mér kom ekki til hugar annað en að ég kæmist inn á Miklubrautina. Ég hafði bara ekki getað ímyndað mér að ökumenn hegðuðu sér svona. Ég var farin að halda að stefnuljósin væru óvirk hjá mér og veifaði með hendinni út um gluggann en það hafði engin áhrif, - þeir bara gáfu í og þvinguðu mig til að halda áfram. Þetta tók alla athygli mína og ég sá þig ekki fyrr en ég skall á þér."
Eftir þetta atvik hefur sú sjón að sjá hina einstæðu hegðun íslenskra ökumanna við svona aðstæður svolítið önnur áhrif á mig en flesta aðra. Ég minnist með hryllingi hins harða áreksturs sem gjöreyðilagði bíl konu minnar og varð þess valdandi að ég beygði stýrið á honum eins og ekkert væri á því augnabllki þegar allt varð svart fyrir augum mér.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
28.2.2010 | 12:51
Hvaða besti sjónvarpsmaður tapaði fyrir Þóru?
Ruglið með sagnirnar að vinna og sigra náði nýjum hæðum í frétt Bylgjunnar í hádeginu í dag af veitingu Edduverðlaunanna í gær.
Fréttamaðurinn sagði frá samfelldum hrakförum bestu sjónvarpsmanna og kvikmyndagerðarmanna með því að nefna nöfn þeirra sem hefðu unnið þá.
Nýjum hæðum náði þessi rökleysa þegar sagt var: "Þóra Arnórsdóttir vann besta sjónvarpsmanninn."
Hver var þessi besti sjónvarpsmaður sem tapaði fyrir Þóru?
Tönnlast var á því í fréttinni að hinir og þessir hefðu unnið bestu leikarana, leikstjórana, búningahönnuðina o. s. frv., og samkvæmt þessu fóru þessir bestu leikarar, leikstjórar og hönnuðir fádæma hrakfarir.
Raunar hafa margir fréttamenn mikið dálæti á sögninni að sigra og þess vegna mátti alveg eins búast við því að sagt hefði verið: "Þóra Arnórsdóttir sigraði besta sjónvarpsmanninn," og hefði þá þessi ónefndi besti sjónvarpsmaður beðið greypilegan ósigur.
Ef félagi minn, Eiður Svanberg Guðnason tekur þetta fyrir á eyjunni.is í molum sínum um málfar og miðla er ekki vanþörf á því, vegna þess að það virðist vera alveg einstaklega erfitt að berjast við jafn einfalda málleysu og rökleysu og fyrrnefnd árátta er og veitir ekki af að hamla gegn henni hvar sem því verður við komið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)