Bakari hengdur fyrir smið.

Hér á blogginu má nú sjá menn kenna Svandísi Svavarsdóttur um það að viðræðum við "nokkuð mörg erlend fyrirtæki" um orkukaup hefur verið frestað. Hér er bakari hengdur fyrir smið.

Smiðurinn er stóriðjustefnan þar sem mest orkubruðlandi fyrirtækjum heims á að úthluta orku frá heilum landshluta. 

Fyrir kosningarnar 2007 hélt ég því fram að mörg erlend fyrirtæki myndu vilja kaupa hér orku og þetta væru fyrirtæki sem byðu fleiri og betri störf á orkueiningu og auk þess minni mengun. 

Þess var þá hafnað af stóriðjufíklunum og sagt að enn einu sinni væri ég að tala um "eitthvað annað" sem væri annað hvort ekki til eða þá í líkingu við fjallagrasatínslu og peysusaum. 

Setningin "nokkuð mörg erlend fyrirtæki" í fréttinni um Landsvirkjun sýnir að ég hafði rétt fyrir mér á sínum tíma. Þessi fyrirtæki ætla ekki að stunda fjallagrasatínslu eða peysusaum. 

Stóriðjustefnan með sinni stórkarlalegu sókn í orkulindir landsins er sökudólgurinn og höfuðorsök þess að aðrir komast ekki að. 

Ef stóriðjustefnan hefði ekki ríkt og ríkti ennþá væri ekkert vandamál að finna orku handa hinum mörgu erlendu fyrirtækjum án þess að fórna líkt því eins miklu af náttúruverðmætum og stóriðjan krefst. 


mbl.is Landsvirkjun frestar viðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fylgi eykst við "Fair deal".

Í heimi ofgnóttar fjölmiðlunar getur verið erfitt að koma sjónarmiðum á framfæri. Það er mótsögn fólgin í því að auðveldari og greiðari fjölmiðlun leiði til þessa. 

Stundum þarf eitthvað stórt að koma til til þess að sjónarmið hljóti kynningu og málskot forseta Íslands var einmitt af þeim toga. 

Í framhaldi af því voru tekin við hann áberandi viðtöl í erlendum fjölmiðlum þar sem hann kom tvennu til skila, sem svo mikil fáfræði hefur verið um erlendis. 

1.

Íslendingar ætla að taka sinn þátt í því ásamt Bretum og Hollendingum að bæta innlánseigendum í             Icesave tjón þeirra og taka þannig ábyrgð á þeirri vanrækslu stjórnvalda og stofnana í þessum löndum       sem sýnd var í aðdraganda hrunsins. Allt frá afdrifaríku Kastljósviðtali í október 2008 sem sjónvarpað var víða um lönd án útskýringa var búið að stimpla Íslendinga sem skúrka sem ekki væri treystandi í viðskiptum, skúrka sem stæðu ekki við neitt. Í ofanálag höfðu breskir ráðamenn farið fram af offorsi gegn okkur í skjóli valds síns.  

2.

Íslendingar höfða til sanngirnissjónarmiða varðandi það að við samninga um byrðar á skattborgara þessara landa verði tekið tillit til stærðarmunar þessara þjóða þannig að drápsklyfjar verði ekki lagðar á skattborgara einnar þeirra en hinar sleppi að mestu.

 

Það hefur gengið afar erfiðlega að ná eyrum umheimsins um þessi atriði, enda Íslendingar örþjóð sem tróðst undir þegar flúið var út úr hinum brennandi skýjakljúfi hins alþjóðlega fjármálakerfis haustið 2008.

Það þurfti eitthvað stórt til að ná eyrum fólks erlendis og áberandi er enn hve mikið skortir á vitneskju erlendis um eðli málsins.

Nýjustu fréttir frá Noregi bendir til þess að þokist í rétta átt í þessu efni. Krafan um sanngirni miðað við eðli málsins er réttlætiskrafa.

Ég hef reynt að halda kjörorðinu "Fair deal" á lofti í skrifum mínum um þetta mál því að sú krafa er þess eðlis að hún vekur fólk til umhugsunar um það hvað sé sanngjarnt og réttmætt.  


mbl.is Norðmenn breyta um Icesave-stefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yljar um hjartarætur.

Alexander Petersson á alveg sérstakan sess í hjarta mínu eftir EM. Manni getur ekki annað en þótt vænt um það að maður, sem fæðist og elst upp í öðru landi, virðist vera hvað mesti Íslendingurinn af öllum. 

Þetta var ekki í eina skiptið í þessum leik eða öðrum sem Alexander gerði hluti sem enginn annar gerði og þetta var alveg sérstaklega mikils virði í þessum síðasta hálfleik mótsins.

Hann var vel á eftir Pólverjanum þegar þeir tóku sprettinn en náði honum, komst framar honum og kastaði sér fram á alveg hárréttu augnabliki og í hárrétta stefnu til þess að snerta boltann á undan.

Eitt af eftirminnilegustu og óvenjulegustu atvikum í sögu íslenska handboltans ásamt afturábak-snúnings-bakhandarmörkum Róberts Gunnarssonar.  


mbl.is Átti íslenska liðið boltann?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandi íþróttanna.

Þau viðfangsefni sem nú er glímt við varðandi dómgæslu í handknattleik endurspegla einn helsta vanda íþróttanna, sem felst í því að innan gildandi ramma þeirra finnast nánast vísindalegar aðferðir til að ná árangri og þessar aðferðir breyta ásýnd og eðli viðkomandi íþrótta.

Mælanleg áhrif þessa sjást glögglega í þeirri byltingu, sem varð í frjálsum íþróttum á sjöunda áratug síðustu aldar. 

Fram að þeim tíma höfðu frjálsíþróttaafrek að mestu leyti verið sambærileg og sum metin stóðu jafnvel áratugum saman. 

Fyrstu merkin um breytingu á þessu sáust í sigri Bob Hayes í 100 metra hlaupi í Tokyo 1964 þar sem fram kom alveg ný týpa spretthlaupara, menn voru allt að 100 kíló vöðvatröll. Hayes kom úr bandaríska ruðningnum og var mjög dæmigerður fyrir íþróttamenn í þeirri grein. 

Á næstu árum á eftir varð bylting í flestum greinum, einkum kastgreinunum og ástæðan varð næsta augljós nokkrum árum síðar þegar notkun stera varð á almanna vitorði. 

Notkun þeirra og annarra lyfja skaðaði ekki aðeins íþróttirnar hvað snerti þá íþróttamenn, sem notuðu þessi lyf, heldur líka orðstír þeirra sem stórbættu árangur sinn án þess að séð væri að um svo mikla framför í stíl væri að ræða að það útskýrði 2-3ja metra bætingu og aldrei var sannað að hefðu notað sterana.

Dæmi um það er Guðmundur Hermannsson, sem hafði um árabil á þeim árum sem íþróttamenn eru í mesta líkamlega blóma kastað kúlunni 15-16 metra en fór síðan nálægt fertugu að kasta æ lengra og bætti sig svo metrum skipti. 

Með því að taka upp notkun trefjastanga í stað stálstanga var stangarstökkinu gerbreytt svo að nam bætingu upp á 1,5 metra ! 

Fyrsti handboltamaðurinn sem kom til Íslands og var af alveg nýrri gerð handboltamanna var Hans Schmidt, sem brilleraði í leik Gummersbach við Íslandsmeistara FH og fékk áhorfendur upp á móti sér vegna þess hroka sem hann sýndi andstæðingum sínum. 

Schmidt var hinn fyrst af hinum luralegu og sívölu vöðvatröllum frá Austur-Evrópu sem augsjáanlega voru byggðir upp með lyftingum og lyfjanotkun. 

Sænski kringlukastarinn Ricky Bruch upplýsti síðar um það hvernig sterarnir breyttu honum í renglulegum unglingi í níðþungt vöðvabúnt og fleiri dæmi má nefna frá þessum tíma í mörgum greinum, bæði hér á landi og erlendis. 

Bruch lýsti líka vel hvernig þessi lyfjanotkun hefndi sín þegar keppnisferlinum lauk. 

Við munum vel þá tíma hér á landi þegar liprir línumenn á borð við Sigurð Einarsson, Jóhann Inga Gunnarsson og Björgvin Björgvinsson glöddu áhorfendur með snilli sinni á línunni.

Ég minnist aðeins eins slíks á EM nú, en hann virtist samt hafa þurft að þyngja sig allvel til þess að eiga möguleika inni í milli tröllanna. 

Handboltinn hefur sem betur fer getað lagfært ýmislegt sem var orðið til trafala, svo sem "gönguhandboltinn" eða "svæfingarhandboltinn" sem mörg lið frá Austur-Evrópu fullkomnuðu sig í og birtist í löngum sóknum þar sem sífellt var verið að dæma aukaköst þangað til andstæðingarnir "sofnuðu" á verðinum og gáfu á sér höggstað. 

Ég treysti því að reglurnar í handboltanum verði nú sem fyrr lagaðar að því að auka það sem gleður mest augað, hraða, snerpu, lipurð og skotttækni. Það er lífsnauðsyn fyrir þessa íþrótt. 

 


mbl.is Sérstakir varnarmenn úr sögunni?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband