Molar í henni þessari.

Eiður Guðnason hefur verið iðinn við "Mola um málfar" og veitir ekki af. Hann er nú kominn með molana sína á eyjuna.is og því ætla ég að grípa tvo mola upp hér af mbl.is.

Í frétt af opnun Nauthólsvegar á mbl.is er sögnin að opna enn einu sinni notuð á órökréttan hátt, en þetta er árátta hjá blaða- og fréttamönnum. 

Sagt er að borgarstjóri hafi "opnað umferð" um Nauthólsveg. Þetta er ekki hægt. Umferð er ekki lokuð og heldur ekki opin heldur eru vegir, götur og brýr það.

Það er ekki aðeins rangt mál heldur rökleysa að hægt sé að opna umferð.

Seinna í fréttinni er sagt að aðkoma verði að Hótel Loftleiðir. Þetta er enn ein villan sem veður uppi í notkun nafna flugfélaga. 

Stundum heyrir maður nafnið Flugleiðir beygt svona: Flugleiðir um Flugleiði o. s. frv.

Þetta er afar dapurlegt því að er engu líkara en að verið sé að tala um leiði eins og eru í kirkjugörðum.

 


mbl.is Umferð hleypt um Nauthólsveg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkenni Colafíkninnar.

Koffínneysla á sér langa sögu allt síðan kaffið hélt innreið sína í mannlífið. Þetta er lúmskt fíkniefni sem virðist sakleysislegt en er þó þess eðlis að ef þess er ekki neytt hjá þeim sem eru háðir því, koma greinileg fráhvarfseinkenni í ljós. 

Ég er einn af þeim sem verð var við það ef ég fæ ekki smá skammt að morgni í formi sopa af Coca-Cola eða Pepsi-Cola.

Colafíknin er skæð vegna þess að hún er tvöföld, fíkniefnin eru tvö og annað þeirra, hvítasykurinn, er eitt skaðlegasta fíkniefni samtímans sé þess neytt í óhófi, en neysla hvítasykurs er allt of mikil hjá okkur nútímafólki. 

Ég áttaði mig ekki á því hve sterk þessi fíkn var fyrr en verkfall skall á í Coca-Cola verksmiðjunni Vífifelli fyrir aldarfjórðungi.

Verkfallið vofði yfir um nokkurt skeið og þegar það síðan skall á hefði mátt halda að fráhvarfseinkennin yrðu áberandi hjá mér.

Svo fór ekki, því að ég hef líklega verið einn af örfáum Íslendingum sem ekki skorti kókið allan tímann sem verkfallið stóð því að í ljós kom að ég hafði hægt og bítandi, næstum ómeðvitað, birgt mig upp af þessum drykk á hreint magnaðan hátt og voru flöskurnar faldar á ótrúlega fjölbreyttum felustöðum.

Meira að segja komu leynibokkur í ljós undir limgerði úti í garði !

Hvítasykurinn er fitandi og því óhollur auk þess sem hann og áhrif hans á holdafarið geta skapað áunna sykursýki. Sætuefnin sem eru í svonefndum sykurlausum drykkjum eru hugsanlega enn verri.

Ég hef heyrt þá kenningu sem mér finnst ekki svo galin þótt hún sé líklega ekki sönnuð.

Ef ég man þetta rétt felst kenningin í því að þegar þessi gervisykur komi í líkamann séu send skilaboð til heilans um að sykur sé á leiðinni og heilinn sendir skilaboðin áfram um framleiðslu insúlíns.

Þegar skilaboðin reynist röng og það gerist svo þúsundum skiptir hætti líkaminn að framleiða insúlínið, lætur ekki plata sig, og áunnin sykursýki sé afleiðingin.  Auk þess séu fleiri efni varasöm í sætuefnunum sem ekki sé að finna í hvítasykrinum.  

Það að auki espar neyslan upp fíkn í hreinan sykur enda hefur mér orðið starsýnt á hve margt fólk, sem er of feitt, drekkur bara diet-Coladrykki.  

Ég hef aldrei drukkið kaffi, finnst það vont, jafnvel þótt mokað sé sykri út í það að hætti sumra koffein-fíkla sem eru haldnir hinni lúmsku, tvöföldu fíkn.  


mbl.is Stóraukin koffínneysla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband