5.2.2010 | 16:25
Hvað um "Söknuð" ?
Þótt aðeins tólf nótur séu í áttundinni er það mesta furða hve mörg lög hafa verið samin sem eru ólík öllum öðrum lögum.
Hitt er óhjákvæmilegt að lög geti verið lík og þess vegna allt eins hægt að byrja á einu þeirra og fara yfir í annað.
Eitt skemmtilegasta dæmið um það, sem ég hef fundið, er hvernig lagið "Yfir voru ættarlandi" sem var verðlaunalag þegar Íslendingar stofnuðu lýðveldi var svo líkt "Deutschland, Deutschland uber alles" að hægt er að fara fram og til baka á milli þessara tveggja laga eins og ekkert sé.
Þrír fyrstu taktarnir og fjórar fyrstu nóturnar í hinu frábæra lagi "Ó, þú" eftir Magnús Eiríksson eru hinar sömu og í vinsælu dægurlagi, sem Nat King Cole söng á þeim tíma þegar Magnús var smástrkákur.
Lag Magnúsar er samt mun betra.
Lagið um Nínu og Geira er svo nauðalíkt KFUM-laginu "Fús ég Jesú fylgi þér" að hægt er að valsa á milli þeirra í söng án þess að fólk verði þess vart.
Svona mætti lengi telja. Ingimar heitinn Eydal hélt því reyndar fram að öll lög gætu verið sama lagið og sýndi það á sinn einstaka hátt í þættinum "Á líðandi stundu."
Ég á líka einhvers staðar í fórum mínum spólu þar sem hann spann áfram með þetta í viðtali fyrir Stöð 2 sem ég tók við hann en var aldrei sýnt.
Ég hygg að höfundar Je Ne Sais Quoi þurfi ekki að óttast vandræði þótt einhverjum þyki lagið keimlíkt öðru lagi.
Fyrir eitthvað um 20 árum komst ítalskt lag á toppinn í Evróvision sem var svo hræðilega stolið úr laginu "What am I living for?" að ég komst alltaf í vont skap við að heyra það.
Hins vegar er ég ekki sáttur við það að Norðmaður sem hér á landi var þegar hið frábæra lag Jóhanns Helgasonar, "Söknuður" var mikið spilað, skuli hafa stolið því lagi og grætt á því miklar fjárfúlgur erlendis.
Norsarinn stal reyndar tveimur lögum og skeytt saman. Hitt lagið er "Oh, Danny boy."
Þegar ég heyrði þetta "norska" lag spilað í útvarpi í Noregi árið 2003 þegar ég var þar á ferð varð ég sem þrumu lostinn.
Gaman væri að heyra hvernig málin standa nú út af þessu lagi.

P. S. Ég sló inn nafn Jóhanns G. Jóhannsonar þegar ég pikkaði þenna pistil niður og hafði ekki tíma til að líta á hann aftur fyrr en níu klukkustundum síðar. Auðvitað átti þetta að vera Jóhann Helgason og þetta lag hans er ekki bara ein af fegurstu lagaperlum Íslands heldur ekki síður útsetning Magnúsar Kjartanssonar.
Set hér á síðuna mynd af Elísabetu Ormslev, Jóhanni Helgasyni og Helgu Möller frá því rétt fyrir síðustu jól þar sem Magnús Kjartansson stýrði hljómsveitinn að baki þeim.
Fyrir mistök er minni gerð af myndinni fyrir neðan.
![]() |
Lagið ekki stolið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 6.2.2010 kl. 02:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.2.2010 | 13:00
Eftirminnilegir hnefaleikar.
Í gegnum tíðina hef ég nokkrum sinnum átt þess kost að kynna hnefaleika eða dæma í þeim í skólum.
Eftirminnilegast varð þetta í Verslunarskólanum í Reykjavík þar sem nemendur settu upp hring og fengu tvo nemendur til að berjast. Mér var falið að kynna viðburðinn og dæma.
Keppendurnir voru ólíkir. Annar var samanrekinn og vöðvaður nagli í stíl við Tyson, hinn var renglulegur og hávaxinn og ég man nafn hans, þótt hitt sé mér gleymt.
Þetta var Ásgeir Örn Hallgrímsson og mér skildist að hann hefði lítið fengist við hnefaleika en Tyson-týpan kunni greinlega talsvert fyrir sér.
1. lotan varð einstefna. Ásgeir Örn átti í vök að verjast fyrir öflugum áhlaupum hins kraftalega mótherja og ósigur Ásgeirs virtist blasa við.
Ég tók þó eftir því að hann hafði lipran fótaburð og var laginn við að verjast eða víkja sér undan skæðadrífu af höggum sem beint var að honum.
Mér sýndist ljóst að viðureignin gæti varla enst út 2. lotu, svo harður var þessi bardagi.
2. lota byrjaði með sömu látunum og ég átti erfitt með að ímynda mér að Ásgeir Örn stæðist þetta mikið lengur. En þá gerðist undrið. Skyndilega fór Ásgeir Örn að koma inn snörpum, hnitmiðuðum og hörðum gagnhöggum eins og þau gerast best.
Ég reyndist að vísu sannspár að bardaginn yrði útkljáður í þessari lotu en úrslitin urðu þveröfug við það sem virst hafa stefnt í.
Ásgeir Örn náði með frábærum gagnhöggum sínum, hraða og fótaburði algerum yfirburðum og gekk algerlega frá andstæðingnum.
Ég sagði við þetta tækifæri að Ásgeir Örn væri greinilega búinn sérstökum alhliða íþróttamannshæfileikum, svipuðum þeim sem til dæmis Hermann Gunnarsson bjó yfir á sinni tíð.
Ég orðaði það svo að Ásgeir Örn gæti komist í fremstu röð í hvaða íþróttagrein sem hann kysi sér.
Og það hefur gengið eftir.
Eftir þessa eftirminnilegu stund sem Ásgeir Örn gaf mér hér um árið fylgist ég af áhuga með honum og gleðst þegar vel gengur.
![]() |
Ásgeir Örn til Faaborg HK |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.2.2010 | 11:04
Mætti huga að vinnslu aflans.
Strandveiðum er ætlað að hleypa lífi í sjávarpláss sem hafa orðið daufleg vegna þess að kvóta hefur skort.
Í nýlegri könnun kom í ljós að því var mjög misskipt hvort aflinn, sem veiddur var, var lagður upp á útgerðarstað eða ekki.
Það fer að sjálfsögðu eftir aðstæðum hversu auðvelt það er að saman fari útgerð og vinnsla en það gæti verið athuguninnar virði að skoða þetta til þess að höfuðtilgangi veiða sé náð sem best.
![]() |
Meiri afli og lengri tími til strandveiða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)