Hrífandi söngur.

Við eigum gott, Íslendingar, ekki stærri þjóð, að eiga jafn marga góða og upprennandi söngvara og raun ber vitni. 

Í kvöld varð ég á skemmtun vitni af glæsilegri frammistöðu Gissuarar Páls Gissurarsonar sem hreif alla með áreynslulausri og lýtalausri túlkun erfiðaðra sönglaga, sem hann flutti á stórkostlegan hátt og afar mikilli smekkvísi. 

Það verður gaman að fylgjast með ferli þessa söngvara sem stóð sig svo vel í kvöld að hann átti hvert bein í áheyrendum.

Ekki dró það úr ánægjunni fyrir mig og Helgu að hann skyldi syngja nokkur þeirra lag sem Árni heitinn Jónsson söng á héraðsmótum Framsóknarflokksins 1961 í ferð okkar með honum og Skúla heitnum Thorodsen um Vestfirði.

Með því var rifjað upp fyrir ógleymanlegt ferðalag sem við fórum nýtrúlofuð um landið þegar Árni var á tindi ferils síns.  


Slæmt stjórnarfar.

Eþíópía er dæmi um Afríkuland þar sem í raun ríkir alræði stjórnvalda. Landið hefur sveiflast frá einni alræðisstjórn til annarrar allt frá innrás Ítala á fjórða áratugnum til dagsins í dag. 

Þegar Haile Selassie hafði verið steypt komust kommúnistar til valda og eftir að þeim hafði verið steypt hefur ástandið lítið skánað. 

Dæmi um þetta er sú staðreynd að í landi sem er ellefu sinnum stærra en Ísland og með 200 sinnum fleira fólk eru aðeins innan við tíu litlar flugvélar og afar strangar reglur gilda um flug þeirra. 

Engin alræðisstjórn landsins hefur þó dirfst að ráðast á þjóðargersemarnar sem tengjast kristni koptanna, en alls staðar má þó sjá varðmenn og takmarkanir nálægt þeim stöðum. 

Yfirvöld hafa lag á að koma sér í mjúkinn hjá Bandaríkjastjórn og fá að launum hernaðaraðstoð þegar uppreisnarmenn í Sómalíu gerast of djarfir. 

Í raun eru herlög í Eþíópíu sem byggð eru að langvarandi ófriðarástandi gagnvart Eritreu. 

Alræðisstjórnir nærast á því að viðhalda slíku ástandi gagnvart sameiginlegum erlendum óvinum, og það er óspart notað í Eþíópíu sem er svo fátækt land, að hagkerfi landsins er minna en Íslands þótt fólkið sé 200 sinnum fleira. 

Stolt landsins er Eþíópíska flugfélagið, sem er hið eina í landinu sem sambærilegt má telja í samkeppni við erlend fyrirtæki af sama toga ef frá er skilin Coca-Cola-verksmiðja í Addis Ababa. 

Það var því mikið áfall fyrir landið að missa farþegaþotuna í dögunum, þótt slysið sé rakið til mikils óveðurs. 

Dæmi um ógöngur Eþíópíu er flugvöllurinn í Arba Minch sem ég kom til á gömlu FRÚ-nni minni með Helga Hróbjartssyni fyrir sjö árum. 

Þetta er stór flugvöllur með stórri flugstöð úr marmara, en engum flugvélum nema einni og einni á stangli. 

Eþíópía er heillandi land með stórkostlega sögu. Þar var tekin kristni 700 árum á undan kristnitökunni á Íslandi og samband drottingarinnar af Saba og Salómóns er helgisögn í hæsta klassa í þessu hrjáða landi fólks, sem enn á sér stolt og vonir og gleðistundir, þótt hungursneyð, þurrkur og gróðureyðing geri lífið erfiðara en við Íslendingar getum gert okkur í hugarlund. 


mbl.is Leynd heimildamanna bönnuð í Eþíópíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blíðuveður á Grænlandi.

Á sama tíma og metsnjókoma er í höfuðborg Bandaríkjanna, meiri en sú mesta sem komið hefur í Reykjavík, er blíðuveður framundan  í Narsassuaq á Grænlandi. 

Raunar hefur brostið þar á með Mallorcaveðri að undanförnu með  10-13 stiga hita, sem er svipaður hiti og er á sunnanverðum Spáni á þessum árstíma. 

Ein af spám um afleiðingar hlýnunar veðurfars í heiminum snerist um að öfgar í veðurfari myndu færast í aukana. Hvort sem það er rétt eða rangt er vart hægt að hugsa sér meiri öfgar en þær að það sé allt að 13 stiga hiti og sumarveður á Grænlandi á sama tíma og allt er á kafi í snjó allt suður í Virginíu í Bandaríkjunum.  

Þeim veðursíðum sem ég hef farið inn á á netinu ber saman um að hlýtt verði svo langt sem séð verður fram í tímann á vesturströnd Grænlands. Weather Underground spáir allt að 14 stiga hita um hádaginn eftir viku en Accuweather birtir lægri hitatölur, sem taka með í reikninginn kólnunina á næturnar.


mbl.is Washington lömuð vegna snjóa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband