Er friðlýsing Dettifoss vopn gegn álveri?

Dettifoss er aflmesti foss Evrópu. Gjástykki er einstætt náttúruundur á heimsvísu og tekur jafnvel sjálfri Öskju fram að því leyti. Öll þessi undur eru í þeim landshluta þar sem Alcoa mun þurfa alla fáanlega orku.

DSC00205

En nú er búið að finna röksemd gegn því að þessi fyrirbæri séu friðuð, enda eru þau nú öll á lista yfir virkjanakosti á Íslandi.

Röksemdin er sú að með því að friða svona fyrirbæri sé verið að eyðileggja möguleika byggðar á Norðausturlandi sem standi eða falli með álveri á Bakka.

Rétt er að vekja athygli á því að fyrir liggur yfirlýsing Alcoa um það að 250 þúsund tonna álver verði ekki nógu arðbær heldur verði hún að lokum að verða um 350 þúsund tonn.

DSCF0591

Sagt er að virkjun Gjástykkis geti fellt 250 þúsund tonna álver.

Nú höfum við á teikniborðinu svonefnda Helmingsvirkjun Jökulsár á Fjöllum með Dettifoss, Selfoss og Hafragilsfoss innanborðs og augljóslega ógnar friðun Dettifoss því að álverið á Bakka geti orðið eins stórt og bráðnauðsynlegt er og raunar þyrfi líka að virkja Öskju til þess.

Með því að tala um að friðlýsingar séu vopn gegn álverum er verið að snúa hlutunum við.

Hin raunverulega ástæða þess að leggja verður öll náttúruundur undir er sú fráleita stefna að leita að svo risastórum og fáránlega orkufrekum kaupanda að náttúruverðmæti heilu landshlutannq séu undirlögð.

Álverið er vopn gegn friðlýsingum en ekki öfugt. Ef um væri að ræða fleiri og skaplegri kaupendur, sem henta einmitt vel varðandi jarðvarmavirkjanir, væri staðan ekki sú sem hún er.

IMG_0401

Nú er hamrað á því að tilraunaboranir verði aðeins á 2% Gjástykkis.

Það vill svo til að ég er orðinn nokkuð kunnugur svæðinu og get fullyrt að virkjun á fyrirhuguðum stað mun gjöreyðileggja það gildi sem Gjástykki hefur.

Ástæðan er sú að mannvirkin munu blasa við á öllu svæðinu og hávaðinn úr borholunum eyðileggja með öllu kyrrð þess. Þarna yrði til dæmis aldrei fyrirhugað æfingarsvæði marsfara femur en að æfingasvæði tunglfara hefði getið orðið í Öskju, hefði þar verið komin ígildi Hellisheiðarvirkjunar.  

Til samanburðar get ég nefnt, að yrðu gerðar stórfelldar malarnámur í suðurhlíðum Esjunnar sem sæust alla leið til Keflavíkur, myndu þær þekja innan við 2% af svæðinu sem Esjan sést frá.  

Mikið er rætt um Gjástykki á þann veg að ætla mætti að það sé gróðurvana auðn. Næstefsta myndin hér á síðunni sýnir að einn merkilegasti jarðmyndanahluti þess er á vel grónu landi.  

Neðsta myndin er af Kröfluvirkjun og næsta nágrenni hennar. Ég hef orðið var við að margir halda að virkjanir eins og hún og Hellisheiðarvirkjun hafi lítil umhverfisáhrif.

Þetta fólk hefur ekki farið upp á virkjanasvæði Hellisheiðarvirkjunar en ætti að gera það en hafa þó í huga að það sé ekki með viðkvæm öndunarfæri þegar það fer að njóta hinnar "hreinu" orkuöflunar.

Og svona í lokin: Náttúruundur Norðausturlands gefa ósnortin miklu meiri möguleika til eflingar byggðar þar en einn stór orkukaupandi sem að vísu kemur af stað umsvifum vegna framkvæmda í einhver ár sem síðan lýkur og gerir jafn marga atvinnulausa og fengu atvinnu við þær í upphafi.

Þetta er spurning um hvort skómigustefnan, sem ég kalla svo, sé ekki einmitt það sem varast beri .  


mbl.is Friðlýsing Gjástykkis vopn gegn álveri?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf að nota hvert tækifæri.

Af því að Íslendingar eru lítil þjóð er hætt við því að aðalatriði Icesavemálsins komist ekki á framfæri við ráðamenn og almenning í öðrum löndum.

Það er eitt mikilvægasta hlutverk íslenskra ráðamanna, fjölmiðla og þjóðarinnar að koma réttum upplýsingum á framfæri við hvert það tækifæri sem býðst. 

Utanríkisráðherra er í vinnu hjá þjóðinni til þess að sinna þessu og gott að frétta af því þegar slíkt gerist líkt og nú í sambandi við gagnrýni Össurar Skarphéðinssonar á sænska fjármálaráðherrann. 

Það þarf ekki aðeins að bregðast við þegar svona gerist, heldur líka að skapa og nota hvert það tækifæri sem hugsast til þess að halda því á lofti sem þjónar sanngirnisatriðum í þessari deilu. 


mbl.is Gagnrýnir harðlega sænskan ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband