17.3.2010 | 23:37
"Mig langaði í laumi að prófa mottuna."
Ég er að uppgötva það að þessi marsmánuður bjóði mér upp á óvænta ánægju sem endist til 1. apríl en það er mottumars Krabbameinsfélags Íslands.
Frétti af því í gær að þessi keppni hafi vakið miklu meiri athygli og þátttöku en forsvarsmenn hennar óraði fyrir, það svo mjög að mér skilst að vefurinn hafi "hrunið" vegna umferðar um tíma.
Eins og Einar Stefánsson segist hafa viljað prófa gönguskíði, og það hafi snúist upp í þessa miklu göngu hans og baráttu, ætlaði ég bara að prófa mottuna þótt ég hefði fyrir löngu verið búinn að ákveða að láta mér aldrei vaxa skegg, enda kona mín lítt hrifin af slíku.
En þegar Guðrún Agnarsdóttir, sú mæta kona, bað mig um að gera þetta fyrir gott málefni var það sjálfsagt mál.
Ég beið samt með það til 10. mars því að ég vildi ekki byrja fyrr en eitthvað væri komið. Og þegar mánuðurinn var hálfnaður í gær, fór fyrsta myndin inn á vefinn, þessi sem ég læt fylgja þessum pistli.
Ég er að upplagi rauðhærður en hár orðið ljóst og grátt og jafnvel mislitt með aldrinum, líkt og á Bjarna Fel. Þess vegna er mottan mín frekar rytjuleg en á kannski eftir að skána þessar tvær vikur sem eftir eru.
Ef til vill ætti að halda keppni um það hver er með rytjulegustu mottuna.
Faðir minn heitinn var kominn á hækjur síðustu árin sem hann lifði, og var með myndarlegt yfirvaraskegg síðustu áratugina.
Segja má því að marsmánuður hafi verið vel valinn fyrir mig að prófa hvort tveggja, ef ætlunin væri að fólk sem þekkti pabba segði, þegar ég kem höktandi á hækjunum vegna fótbrots: Nei, er ekki karlinn kominn þarna ljóslifandi aftur!"
Þetta hefur sem sagt lífgað hressilega upp á fótbrotsmánuðinn hjá mér og er bara skemmtilegt.
Og síðan hef ég heyrt þá kenningu að í undirmeðvitund karlmanna blundi löngun til að fara í spor skeggvaxinna fornmanna. Kannski er ég að uppgötva það líka.
Ég tel að þessi keppni hefði slegið enn rækilegar í gegn ef hún hefði verið fram í apríl þegar fólk hittist í fermingarveislunum.
Spurningin er því: Eigum við að leggja það til við mottumenn að þeir sammælist um það að vera með þær, blessaðar, út apríl, svona bara til að lífga upp á tilveruna, fjölskyldulífið og fermingarnar?
Að lokum vil ég hvetja fólk til að heita á mottumenn og styðja gott málefni með því að fara inn á vefinn Karlmenn og krabbamein hjá Krabbameinsfélagi Íslands, http:// www.karlmennogkrabbamein.is
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.3.2010 | 14:08
Röng viðbrögð eða yfirskin?
Um sögu Norðmannsins, sem fékk ekki við neitt ráðið þegar Priusbíll hans tók af honum öll ráð og óð stjórnlaust upp í 176 kílómetra hraða segi ég: "hægan nú!"
Á öllum bifreiðum á að vera búnaður til að drepa á vélinni.
Á Prius ætti að vera hægt að setja skiptinguna í hlutlausa stillingu.
Á Priusi eru hemlar eins og á öðrum bílum.
Í Prius er svonefnd handbremsa eða neyðarhemill öðru nafni eins og í öllum öðrum bílum.
Vélin í Prius er ekki kraftmeiri en það að hemlarnir eiga alveg að geta unnið á móti og vel það.
Á norskum hraðbrautum er 100 km hámarkshraði sá hæsti sem ég þekki þar í landi.
Prius er tiltölulega kraftlítill bíll og nær ekki 176 kílómetra hámarkshraða sínum fyrr en eftir að minnsta kosti heila mínútu ef bílnum er ekið á 100 kílómetra hraða og bensíngjöfin er sett í botn.
Mér finnst mjög ósennilegt að ökumaðurinn hafi ekki á meira en heillar mínútu viðbragðstíma getað gert neitt til að hægja á bílnum, ekki drepið á bílnum, ekki sett í hlutlausan, ekki hemlað, ekki tekið í handbremsuna.
Það breytir því ekki að bensíngjafir eiga ekki að geta fest í botni á bílum.
Ef það gerist snögglega í erfiðri umferð getur "panik" gripið ökumanninn svo að honum fatast og það leitt til rangra viðbragða, sem ekki er sanngjarnt að kenna honum um.
Öðru máli gegnir á beinni braut þar sem umhugsunartíminn er minnst 60 sekúndur.
Ég á erfitt með að trúa því að umræddur Prius hafi breyst í eitthvert norskt afbrigði af Kristínu Stephens Kings á þann hátt sem lýst er í norsku frétttinni.
Finnst líklegra að Norðmaðurinn hafi lesið fréttir um að bensíngjafir í Prius eigi það til að festast í botni og notað það sem átyllu í að útskýra ofsaakstur sinn sem endaði með því að hann missti bílinn út í vegrið.
![]() |
Rannsaka stjórnlausan Prius |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.3.2010 | 13:53
Þyrfti að mæla víðar.
Mælingarnar á ýmsum götum á Reykjavíkursvæðinu þar sem er 30 km hámarkshraði eru mjög þarfar.
Engin afsökun er fyrir því að fara hraðar vegna þess að vegalengdirnar innan þessara hverfa eru yfirleitt mjög stuttar.
Maður sem ekur á 54 kílómetra hraða við þessar aðstæður eyðileggur allt gagn af því að hafa hraðann 30 km.
Gagnið af 30 km hraðanum er ekki aðeins að árekstrar og slys verði færri og vægari á þessum hraða en á 50 km hraða heldur ekki síður vegna þess að ef allir halda sig við 30 km hraðann geta vegfarendur hagað ferðum sínum með tilliti til þess.
Þegar ekið er af tiltölulega blindu horni inn á götu á sá, sem það gerir, kröfu á að umferðin, sem hann á að sjá og varast og kemur honum á hlið sé ekki á tvöföldum hraða.
Svo mikill hraði getur auk þess leitt til þess að bíll, sem annars hefði verið sýnilegur í tæka tíð, er ósýnilegur þar til það er um seinan.
Um þetta eru ýmis dæmi.
En það virðist gleymast að aðstæður sem krefjast 30 km hámarkshraða eru víðar en á Reykjavíkursvæðinu, t. d. á Akureyri, Reykjnesbæ, Akranesi, Ísafirði og víðar.
Lögreglan á þessum stöðum ætti að taka sig til og gera hraðamælingar á þessum stöðum að reglulegum viðburðum því að slysahættan þar og brot á umferðarhraðareglum eru fyrir hendi, þótt úti á landi virðist streitan og hraðinn í umferðinni ekki vera eins mikill og hér á suðvesturhorni landsins.
![]() |
Fjórir af þrjátíu óku of hratt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2010 | 13:36
Í fótspor snjallra fullhuga.
Ég er búinn að taka það mörg viðtöl við göngumenn á hálendi Íslands og þekki suma þar að auki mjög vel að það þarf ekkert að draga af því að ganga Einars Stefánssonar er mikið afrek.
Fyrst var gengið yfir endilangt landið yfir jöklana þrjá árið 1976. Það gerði Arngrímur Hermannsson við sjötta mann. Þeir hófu gönguna á Grenisöldu á miðri Fljótsdalsheiði og luku henni 22 dögum síðar við Húsafell.
Þeir höfðu 45 kíló af mat með sér, kláruðu hann allan og léttust að meðaltali um 10-15 kíló hver.
Fyrir nokkrum árum gekk Guðmundur Eyjólfsson lengstu gönguna, frá Hornvík suður um hálendi Vestfjarða yfir Holtavörðuheiði um miðhálendið og endaði niður í Vopnafirði. Það var mikið afrek.
Arngrímur Hermannsson fór við sjötta mann á þremur jeppum yfir jöklana þrjá 1986 og var þetta að mörgu leyti tímamótaferð á þeim tímum þegar 35 tommu dekk voru stærstu dekkin. Sjálfur var Arngrímur á 33ja tommu dekkjum!
1991 var farinn leiðangur að frumkvæði Benedikts Eyjólfssonar (Bílabúð Benna) þar sem jeppi ók fyrir eigin vélarafli upp á Hvannadalshnjúk.
1999 var Arngrímur Hermannsson leiðangursstjóri í einu jeppaferðinni sem farin hefur verið fram og til baka yfir Grænlandsjökul. Ég var með í ferðunum 1991 og 1999 og kynntist því hvað liggur að baki.
Næsta stóra skrefið í notkun jeppa var för Freys Jónssonar og fleiri á Suðurskautslandið.
Síðast en ekki síst voru frábær gönguafrek feðganna Haraldar Arnar Ólafssonar og föður hans bæði á Suðurskautslandinu og norðurpólnum, sem lýsa eins og ljósvitar í auðnum heimskautasvæða.
Og nú sýnist mér á fréttum að Haraldur Örn sé á enn einni göngu sinni.
Svona ferðir voru farnar af þeirri blöndu af forsjálni, þekkingu, varfærni og dirfsku sem einkennir flest brautryðjendaverk. Til hamingju, Einar Stefánsson!
Andstæða við þær er ganga fransks ofurhuga suður yfir Vatnajökul hér um árið en hann fannst illa til reika við suðausturhorn jökulsins og mátti þakka fyrir að lifa af.
Síðar fór hann í enn fráleitari göngu áleiðis til Norðupólsins og hefur ekki sést síðan.
![]() |
Mig langaði bara til að prófa gönguskíði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)