"Sick" gaur á skökkum stað í bílnum."

 
Sjúkrabörurnar geta verið góðar
 
til að gamna sér með stelpum, sem að eru óðar.
 
Og tiltækið var sannarlega í stílnum:  
 
"Sick" gaur á skökkum stað í bílnum.  

mbl.is Sjúkrabíll skutlaði stelpum sem voru að fara út á lífið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítið, sætt og feimið.

Gosið í Eyjafjallajökli er hið tuttugasta í rððinni á 47 árum sem ég er að stjákla í kringum, - að þessu sinni á jörðu niðri. Það fyrsta var Surtseyjargosið 1963 en ég átti ekki fyrir því að fara og skoða Öskjugosið 1961. 

Þetta litla og sæta gos á Fimmvörðuhálsi lítur út eins og risastór afmæliseldterta á myndum og var svo vinsamlegt að taka smá eldsúludans áður en það varð feimið og faldi sig í kófi skýja og skafrennings, sem er á ofanverðum Fimmvörðuhálsi.

Áður en þessum bjarta súludansstað náttúrunnar var lokað náðu ljósmyndarar og kvikmyndatökumenn mjög góðum myndum á meðan sveimað var yfir því.

Þegar svona atburðir gerist þurrkast út skil dags og nætur, svefns og vöku hjá þeim sem við það vinna að flytja af því fréttir og upplýsingar. Fólk verður einfaldlega ekki syfjað fyrr en eftir á, þótt vakan sé orðin 30 klukkustunda löng.

Í Kröflueldunum í gamla daga gat vakan orðið 2-3 dagar með nær engum svefni. En þeir voru líka svo einstakir á alla lund. Slíkt sjónarspil landreks og sköpunar upplifa fáir í návígi.

Þess vegna er lítið, sætt og feimið gos svo heillandi, þrátt fyrir allt því það bankar í gamlar og ógleymanlegar minningar sem fangaðar voru á filmu og tónbönd.  

 


mbl.is Gosórói að minnka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hallar sífellt á ógæfuhlið.

Mér er enn í minni magnaður fyrirlestur sem Björn Sigurbjörnsson hélt á Húsavík hér um árið þar sem hann fór yfir það hvernig mannkynið hefur leikið gróður jarðar í þúsundir ára. 

Hann hafði þá unnið fyrir landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna og þekkti málið vel.  

Hann sýndi fram á að stórveldi hefðu riðað til falls vegna rányrkju, bæði Mesópótamía og Fönikía, og rakti hvernig röng landbúnaðarstefna Rússa átti einna drýgstan þátt í falli Krústjoffs 1964 vegna þess að Krústsjoff hafði verið mjög ráðandi um þessa misheppnuðu landbúnaðarstefnu, sem meðal annars átti stóran þátt þátt í mikilli gróðureyðingu og minnkun Aralvatns og í því að Sovétríkin gátu ekki brauðfætt sig. 

Þessi nöturlega staðreynd og hin miklu umskipti æptu framan í heiminn, því þegar Hitler fór í herför sína inn í Sovétríkin, var ein helsta ástæðan að komast yfir hið mikla kornforðabúr þeirra.  

Á Íslandi hefur verið stunduð mesta rányrkja gróðurlendis sem vitað er um í einu landi í Evrópu og enn eru beittir nokkrir afréttir sem eru ekki beitarhæfir.

Röng landbúnaðarstefna olli "The Dust Bowl" í miðvesturríkjum Bandaríkjanna á árunum eftir 1930, moldroki, sem barst alla leið til Washington og varð kveikjan að einu meistaraverki heimsbókmenntanna.

Heildarmyndin hefur lítið breyst frá því að tímaritið Time birti í langri myndskreyttri grein ljóta mynd af því sem fram fer í flestum heimsálfum og birti lista yfir "bestu vini eyðimarkanna."

Þar vakti athygli mína að í efstu sætunum voru: 1. Geitin.  2. Sauðkindin.

Eyðing skóganna, allt frá Amazon til margra ríkja Afríku og Asíu, hefur ekki verið stöðvuð á sama tíma og mannkyninu fjölgar að mestu stjórnlaust og hugur eykst.

Ef ekki hefðu komið til stórkostlegar framfarir í kynbótum korntegunda væri ástandið enn verra.

Einræðisstjórnin í Kína ræður, þrátt fyrir vald sitt, ekkert betur við þetta en aðrar ríkisstjórnir og hefur fest sig í svipaðri hagvaxtargildru og er einn helsti hvatinn til að ganga á auðlindir jarðar með þeim afleiðingum sem finnast í moldroki, allt frá uppsveitum Suðurlands til höfuðborgar Kína.   


mbl.is Moldrok í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband