6.3.2010 | 15:11
Ekki einu sinni á kjörstað.
Fyrir utan Laugardalshöllina eru bílastæði, merkt hreyfihömluðum. Þegar ég var þar í dag voru þrír bílar þar í stæðum án þess að hafa merki í gluggum sem vottuðu hreyfihömlunina.
Sjálfur hökti ég langa leið á hækjunum til að komast inn í höllina. Mér hefur tekist að komast hjá því að nota svona stæði hingað til og stefni að því að halda það áfram.
Ef til þess kæmi að ég þyrfti samt nauðsynlerga að nota svona stæði vegna ástands míns myndi ég setja stóran miða í framgluggann með eftirfarandi áletrun:
Er fótbrotinn í gifsi og á hækjum. Sími 6991414. Ómar Þ. Ragnarsson.
Miðað við svörin sem ég fékk um daginn við svona aðstæður gætu svipuð svör og andsvör orðið til við Laugardalshöllina þegar þeir sem ekki eru hreyfihamlaðir nota stæðin:
Svar 1. Það voru laus önnur stæði fyrir hreyfihamlaða þegar ég kom. / Andsvar: Hvernig veist þú hvort þau verði áfram laus á meðan þú ert inn?
Svar 2. Reikna má með því að ég verði stuttan tíma inni. / Andsvar: Hvernig á hinn hreyfihamlaði að vita hvort það tekur stuttan eða langan tíma að kjósa?
Svar 3. Það eru ekki eins margir fatlaðir á ferð í svona færi og í svona kosningum og á venjulegum viðburðum í Höllinni að sumarlagi. / Andsvar: Er ekki hugsanlegt að einmitt núna verði fleiri fatlaðir hér á ferð? Réttlætir þessi ágiskun það að ræna þá stæðum sínum? Er rétt að fara yfir á rauðu ljósi að næturþeli af því að það eru svo fáir á ferli?
Svar 4. Ég skutlaði konunni minni hingað til að kjósa. Hún er hreyfihömluð og merkið hennar er í glugganum. / Andsvar: Ég sá þegar þú komst að þú varst bara einn í bílnum. Það er greinilega verkefni fyrir Sálarrannsóknarfélag Íslands að finna út hvort einhver sat við hliðina á þér.
Fleiri útskýringar mætti nefna en læt þetta nægja.
Sonur minn, sem er bundinn við hjólastól skilur stundum eftir svohljóðandi miða í glugga ófatlaðs fólks sem hefur lagt í stæði sem ætlað er hreyfihömluðum.
Á miðanum hefur staðið þessi áletrun: Ertu viss um að þú sért fær um að aka bíl? Fötlun þín hlýtur að vera sú að þú sért blindur.

Vegna ákalls um mynd í athugasemd verð ég að nota myndir frá því að ég var beðinn um að koma í viðtal í fréttum Stöðvar tvö fyrir nokkrum dögum, því að ég gleymdi að setja kort í vélina í dag.
Á efstu myndinni sést bíll hreyfihamlaðs lagt þannig að hann tekur pláss frá ófötluðum við hliðina !
Raunar er hugsanlegt að orðið hafi að leggja þessum bíl svona vegna annars bíls sem hafi þrengt sér inn á stæðið fyrir hreyfihamlað en er farinn.
Á næstu myndum, sem koma nú inn næstu mínútur, sjást myndir af bílum sem bætast við.

Fyrst bíll þar sem bílstjórinn, þegar hann kom út, kvaðst hafa verið að skjóta fatlaðri konu sinni sem væri inni í húsinu.
Ég á hins vegar kvikmynd af því að þessi maður kemur aleinn í bílnum og hleypur inn að versla og Sálarrannsóknar félagið veður í verkefnum !

Þarna verður til algert rugl því að auk þess sem eitt stæði fyrir ófatlaðan er gert ónýtt til vinstri, er lagt yfir skástrikaða braut á milli stæðanna fyrir hreyfihamlaða, sem ætluð er fyrir þá sem þurfa að flytja eitthvað inn í húsið eða t. d. fyrir einhvern sem kemur þarna á hjólastól, handknúnum eða rafknúnum.
![]() |
Skrítin þjóðaratkvæðagreiðsla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)