Gamalkunnugt fyrirbæri.

Það þekkt fyrirbæri úr sögu þjóðanna að þegar verð á vöru er hækkað umfram ákveðið mark leita neytendur leiða til að fá hana eftir öðrum leiðum.

Þetta var reynslan í Finnlandi á sinni tíð, ef ég man rétt, þegar áfengisverð var hækkað verulega. 

Þess vegna ættu aukin bruggun og aukið smygl ekki að koma á óvart varðandi neyslu áfengis á Íslandi ef það er skattlagt um of. 

Nú er það svo að ég er bindindismaður og tel að menn séu alltof bláeygir gagnvart böli áfengisneyslu og meðvirkir með ofneyslu áfengis. 

En ég geri mér samt grein fyrir ákveðnum lögmálum mannlegrar hegðunar sem ekki er hægt að sniðganga og var einu sinni orðað með þessum orðum: "Áfengisbölið verður að hafa sinn gang."

Ef skattlagning fer yfir ákveðið mark getur hún farið að virka neikvætt fyrir ríkissjóð og þarf að vanda vel til að finna hvar þessi mörk liggja. Á kannski eftir að koma betur í ljós. 

Sem merki um mátt Bakkusar er setningin góða á eðli áfengisfíknar hjá óreglumanni, sem var einhver skemmtilegasta maður, sem ég hef kynnst, en mælti þessi fleygu orð með sínum sérkennilega gormælta framburði þegar verðið á víni hafði verið hækkað mikið hjá ÁTVR:

"Nú eg brennivínið ogðið svo dýgt, Ómag, að maðug hefug ekki efni á að kaupa ség skó."

Biðst síðan velvirðingar á því að hafa fyrir mistök tengt blogg um Rammaáætlun við fréttina um bruggtækin. 


Geysir, Gullfoss, Askja, Kverkfjöll o. fl.

"Ertu ekki að grínast? " er sagt við mig þegar ég nefni þá staðreynd að tíma og peningum sé nú eytt í það að rannsaka hagkvæmni og umhverfisáhrif virkjana Geysis, Gullfoss, Öskju, Kverkfjalla, Gjástykkis, Landmannalauga og Kerlingarfjalla svo að dæmi séu tekin.

Þetta er gert undir hatti svonefndrar Rammaáætlunar um virkjun vatnsafls og jarðvarma. 

Það, að ræða um fyrrnefnd svæði og fleiri sem virkjanasvæði og eyða fé og fyrirhöfn í að rannsaka þau á þeim grundvelli er hliðstætt við það að í Bandaríkjunum stæðu yfir rannsóknir á mismunandi virkjanakostum í Yellowstone eða öðrum þjóðgörðum og friðlöndum Bandaríkjanna. 

Nú á eftir verður blaðamannafundur vegna Rammaáætlunar og að sinni ætla ég að bíða eftir að honum ljúki áður en ég fjalla nánar um þetta mál. 

En fréttin í Fréttablaðinu um 84 virkjanir sem verið er að rannsaka og 20 í viðbót sem kannski þurfi að bæta við fyllir mig ekki mikilli bjartsýni um framtíðina í þessum málaflokki hér á landi, burtséð frá góðri vinnu og viðleitni þess góða fólks sem hefur verið falið að framkvæma þessar rannsóknir. 

Virkjanafíklarnir hafa sett upp þá vígstöðu að engin takmörk séu á því hve langt þeir vilji ganga og þar með að ná því fram að það sem kallað verði "sátt" geti farið langt í að teljast fullnaðarsigur þeirra. 

En nú er að sjá hvað blaðamannafundurinn á eftir hefur upp á að bjóða. 


mbl.is Bruggtækin dregin fram að nýju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grimmd á móti grimmd?

Tvennt er það sem mér hefur aldrei hugnast varðandi dauðarefsingar. Í fyrsta lagi að til skuli vera siðmenntuð þjóðfélög sem beita þessari forneskjulegu og í raun villimannlegu refsingu, sem mér finnst aldrei réttlætanleg. 

Í öðru lagi hvers vegna á okkar miklu tæknitímum skuli enn í sumum löndum vera staðið að aftökunum eins og gert er.

Allir sem hafa verið svæfðir fyrir skurðaðgerð vita af eigin reynslu að hægt er að standa að aftökum á skaplegri hátt en tíðkast víða á einfaldan og sársaukalausan hátt. 

Aftakan getur þess vegna verið í tveimur áföngum: Fyrst svæfingin og síðan dauðaskammturinn gefinn þegar brotamaðurinn er meðvitindarlaus.  

Það er nöturlegt að alþjóðleg mannréttindasamtök skuli enn þurfa að berjast í þessu máli.  


mbl.is Reyndi sjálfsvíg fyrir aftöku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband