25.4.2010 | 18:16
Til hamingju, brautryðjandi!
Sigrún Helgadóttir er vel að náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti komin. Sigrún varð fyrst Íslendinga til þess að ferðast gagngert um þjóðgarða erlendis til þess að kynna sér ofan í kjölinn þau lögmál og kröfur sem þjóðgarðarnir byggjast á.
Þetta var eitthvert mikilvægasta viðfangsefni Íslendinga, en að sama skapi vanrækt af okkur.
Á þeim tíma hafði enginn þjóðgarðsvörður á Íslandi kynnt sér þjóðgarða erlendis, ótrúlegt en satt, og séra Heimir Steinsson varð fyrstur þeirra til þess að gera það fyrir atbeina Steingríms Hermannssonar, sem þá var forsætisráðherra.
Sjálfur hafði Steingrímur ferðast víða á árum sínum vestra og komið í öll ríki Bandaríkjanna nema Alaska. Sigrún starfaði hér heima um hríð í þjóðgarðinum við Jökulsárgljúfur en á þeim tíma voru þau sjónarmið sem hún hafði kynnt sér erlendis í litlum metum hér.
Við Steingrímur töluðum við oft um það síðustu árin að gaman væri að fara til Alaska saman, en af því varð þó aldrei.
Séra Heimir varð að vísu að láta sér Yellowstone nægja en Sigrún hafði þá skoðað marga þjóðgarða vestra.
Reynsluna frá Yellowstone var hægt að nýta á Þingvöllum til að koma í veg fyrir frekari spjöll af völdum umferðar fólks þar.
Árið 1998 uppgötvaði ég það að þrátt fyrir að einbeita mér að umfjöllun um umhverfismál í sjónvarpi í áraraðir og ferðalög gangandi, hjólandi, ríðandi, akandi og fljúgandi um allt land, var ég ekki aðeins heimskur í upphaflegri merkingu þess orðs (maður, sem er alltaf heima hjá sér og miðar allt við það), heldur fjallheimskur.
Þegar ég þurfti á leiðbeiningu að halda til að vita hvað nýttist best til að skoða og kvikmynda erlendis var Sigrún Helgadóttir eina manneskjan hér á landi sem bjó yfir þekkingu til að leiðbeina mér.
Ráð hennar reyndust mér ómetanleg. Sigrún Helgadóttir hefur á hljóðlátan hátt varið lífi sínu til að ryðja mikilvægum sjónarmiðum og þekkingu á náttúruverndarmálum og nýtingu lands braut á Íslandi.
Kynslóðir framtíðar munu þakka störf hennar meira en margra annarra, sem meiri athygli hljóta á okkar tímum.
![]() |
Ráðherra afhenti umhverfisverðlaun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.4.2010 | 16:22
Eyjafjallajökull á gluggunum.
Margt var það árið 2007 sem ekki fékkst rætt af því að það var óþægilegt og passaði ekki inn í þá draumamynd, sem enginn lýsti betur en fjármálaráðherra Íslands í apríl 2008 með fleygum orðum: "Sjáið þið ekki veisluna, drengir?!"
Meðal þess var möguleikinn á flughruni sem auðvitað fékkst ekki ræddur frekar en möguleikinn á efnahagshruni.
Nú er hægt að sjá hér í Reykjavík öskuna úr Eyjafjallajökli á gluggum, sem hún hefur fallið á en síðan skilist í sundur í litla flekki eða depla við það að rigningardropar hafa fallið á hana á eftir og rúðan þornað í kjölfar þess.
Það er ekki auðvelt að ná ljósmyndum af þessu en ég læt tvær flakka hér sem teknar eru út um eldhúsgluggann.
Það er einkum þar sem rúðuna ber við dökka fleti, svo sem við hurðir, plan og bíla fyrir utan að þetta sést nokkuð vel.
Neðsta myndin er með fókus á rúðunni sjálfri og allt verður óskýrt sem fjær er vegna öskudeplanna á rúðunni.
![]() |
Varað við gjóskunni 2007 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2010 | 15:37
Takmörk mannlegrar getu.
Gosið í Eyjafjallajökli og fleiri fyrirbrigði í náttúrunni minna okkur á að mannlegri getu eru takmörk sett.
Ég hef einu sinni fengið að "taka í" Boeing 747 þegar hún var án farþega á leiðinni frá Bretlandi til Íslands.
Í hátt í 40 þúsund feta hæð voru flugeiginleikar vélarinnar gerólíkir því sem er á litlum flugvélum niðri við jörðu. Ég fann vanmátt minn til að ráða við vélina.
Þegar ég kenndi flug árið 1969 fór ég einu sinni með einn af reyndustu flugstjórum landsins í flug á Cessna 152, sem hafði tugþúsundir flugtíma að baki á stærstu flugvélum Íslands en hafði ekki snert litla flugvél í áratugi.
Á aðeins 10 mínútum tókst þessum flugstjóra að gera fleiri og afdrifaríkari mistök en tugir byrjenda minna til samans.
Hann missti vélina inn í ofris og niður í byrjun á "dauða-gormdýfu" þar sem honum tókst að koma hreyflinum langt yfir leyfileg mörk snúningshraða.
Allt þetta gerði hann vegna þess að hann ofmat getu sína stórlega.
En víkjum aftur að háloftaflugi.
Vegna þess hve loftið er þunnt er hraðasviðið miklu þrengra í þessari hæð og því ekkert sældarbrauð að ráða við svona flykki í mikilli ókyrrð.
Þarna uppi geta geysað ósýnilegir þotuvindar eða "jet streams" sem eru ógnarhraðir og geta leitt þá, sem ekki ugga að sér ínn í ofboðslega ókyrrð sem gengur undir heitinu "CAT" sem er skammstöfun fyrir clear air turbulence. Ég get vel ímyndað mér að það sé ekki hægðarleikur að ráða við stóra þotu við slíkar aðstæður.
Fyrir mörgum árum var ákaflega vönduð og ítarleg umfjöllun um ísingu í tímaritinu "Flying".
Ein af niðurstöðunum var sú, að til væru ísingaraðstæður þar sem engu máli skipti hvort verið væri að fljúga Boeing747 með fullkomnustu ratsjám og afísingarbúnaði eða Piper Cub.
Í slíkum skilyrðum væri allt flug vonlaust.
Aðal sérfræðingurinn sem rætt var við, hafði gert ísingu að sérgrein sinni í fluginu í áratugi og aflað sér meiri þekkingar og reynslu en nokkur annar á því sviði.
Var hann til dæmis einstaklega fundvís á flughæðir á milli ísingarlaga þar sem hægt var að þræða fram hjá verstu ísingarskilyrðunum.
Eitt sinn þegar lokað var fyrir flug í Klettafjöllunum vegna ísingar tók hann að sér í krafti einstakrar reynslu sinnar að fljúga með áhrifaríkan öldungardeildarþingmann sem þurfti nauðsynlega að komast leiðar sinnar.
Þeir fórust báðir þegar vélin lenti í ísingu sem mesti sérfræðingur heims á sviði flug í ísingu réð ekki við.
Enn ein áminningin um takmörk mannlegrar getu.
![]() |
17 slösuðust þegar flugvél féll |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)