27.4.2010 | 22:12
Einkennilegt óþol.
Ég er meðmæltur því að á bestu umferðaræðum landsins eins og tvöfaldri Reykjanesbraut með vegriði á milli gagnstæðra akbrauta verði umferðarhraði hækkaður í 100 km/klst eða jafnvel 110 km/klst.
Slíkur hámarkshraði við góðar aðstæður er leyfður á hliðstæðum vegum í nágrannalöndunum og ef ökuleiðirnar eru langar munar um tímasparnaðinn og þessar umferðaræðar afkasta meiri umferð.
Ég sá á bloggi um það að meirihluti ökumanna aki of hratt um 30km götur og allt uppí meira en tvöfaldan hraða að bloggurnum fannst það í góðu lagi að fara vel yfir hámarkshraðann, sem sé alltof lágur.
Einnig er bloggað um það að sumar af þessum götum hafi áður fyrr verið aðalbrautir með miklum hraða og að þess vegna sé eðlilegt að ökumenn fari þar geyst.
Einn bloggar um það að þessar götur anni ekki umferðinni um þær, nema ekið sé hraðar.
Sjálfur bý ég við Háaleitisbraut sem var ein af helstu og hröðustu umferðargötum borgarinnar og ekið var um hana á meira en 50 km hraða, oftast mun hraðar en það.
Eftir áralanga slysaröð á þessari götu, allt upp í dauðaslys, var henni breytt. Nú er hún þröng og krókótt 30km gata og slysin hafa horfið.
Ég sakna ekki gamla streituhraðans á Háaleitisbraut, sem ég þarf þó að aka daglega og gæti grætt einhverjar sekúndur á að aka hraðar.
Ég hef ekki séð að umferðartafir eða teppur séu á götunni og hef heldur ekki orðið var við að um slíkt sé að ræða á svipuðum götum.
Vegalengdin, sem mönnum er skylt að aka á 30km hraða, er það stutt, að erfitt er að sjá hverju einhverjar sekúndur skipti fyrir ökumenn.
Það er alveg nóg af óþoli og streitu í þjóðfélaginu og nóg líkamstjón sem af hlýst.
![]() |
Meirihluti ók of hratt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.4.2010 | 10:03
Dýrkeyptar staðreyndir.
Ég var að hlusta á 9 mínútna viðtal við forseta Íslands á CNBC sjónvarpsstöðinni amerísku. Nær allt viðtalið notar hann til að draga það fram sem best má verða varðandi íslensku þjóðina og sambúð hennar við náttúruöflin.
Forsetinn segir frá því að hingað til hafi eldgosið haft minni áhrif á flug Íslendinga en Evrópuþjóða og að eldgosið og einstætt sjónarspil sköpunar jarðarinnar, sem sagt sé frá í Biblíunni, geti orðið aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn.
Hann greinir frá hagstæðu gengi sem sé ferðamönnum og útflutningsatvinnuvegum í hag og því tilvalið að koma til Íslands til einstakrar upplifunar.
Forsetinn greinir frá því að þetta sé fyrsta íslenska eldgosið í 60 ár sem trufli flugsamgöngur. Hann lýsir þeirri óvissu sem er um það hvenær stórt gos geti orðið hér sem geti falist í því að það verði fljótlega, eða eftir 5, 10, 15 eða jafnvell fleiri ár.
Þetta telja menn nú vera dýrkeypt að hann skuli segja.
Forsetinn rekur þetta í kjölfar þeirrar spurningar í upphafi viðtalsins, hvort annað gos og stærra geti dunið á í kjölfar þessa. Hann segir frá því að Íslendingar hafi búið sig undir Kötlugos áratugum saman og að erlendis þurfi menn að grípa til ráða til að bregðast við.
Svo er að sjá á viðbrögðum hér heima við þessu að þetta hafi hann alls ekki mátt segja, heldur steinhalda kjafti yfir því. Fyrirsögnin er: "Dýrkeypt yfirlýsing forsetans."
Það er hægt að fallast á það að í upplýsingagjöf vegna þessa máls ætti að bæta við þeim staðreyndum að þetta sé hið eina af 23 gosum frá 1960 sem hafi valdið truflunum á flugumferð og að askan úr Eyjafjallajökli sé miklu léttari og fari hærra og víðar en oftast er í íslenskum eldgosum. Sum Kötlugos séu minni en önnur.
Á hinn bóginn sé ég ekki betur en að hér sé uppi staðfastur vilji hjá mörgum til þess að fela staðreyndir rétt eins og gert var í aðdraganda hrunsins.
Jarðvísindamenn spá allt að 20 eldgosum á Íslandi næstu 60 árin. Meðal þeirra geta orðið gos sem verða margfalt stærri en gosið nú. Það eru dýrkeyptar staðreyndir sem við verðum að horfast í augu við.
Nema að við viljum að sá tími komi að við verðum jafn gersamlega óviðbúin því og við vorum óviðbúin hruninu af því að við vildum ekki horfast í augu við "dýrkeyptar" staðreyndir.
![]() |
Dýrkeypt yfirlýsing forsetans |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (41)