Já, ef aðskilnaður er öruggur.

90 kílómetra hámarkshraði er leyfður á íslenskum vegum þar sem aðeins er ein akrein í hvora átt og bílar mætast á þessum hraða.

Fráleitt er að leyfa þennan hraða við þessar aðstæður ef ekki má aka hraðar á tvöföldum vegum þar sem umferðin úr gagnstæðum áttum er tryggilega aðskilin. 

Reynsla er fyrir hendi frá nágrannalöndunum. Í Noregi eru leyfður 100 km hraði á tvöföldum vegum með tryggum aðskilnaði og 110 km hraði í Svíþjóð. 

Slysatölurnar eru ekki hærri í Svíþjóð en í Noregi. 

Eins og er vantar vegrið á milli aðskildra brauta á Reykjanesbraut og víðar en þau eru forsenda fyrir því að leyfa hærri hraða. 

Talað hefur verið um að það myndi kosta 500 milljónir króna að gera þessi vegrið, en með ísköldum útreikningi er hægt að sjá að slysið sem varð á Hafnarfjarðarvegi í fyrra kostaði þjóðfélagið meira en þá upphæð. 

Þetta slys hefði aldrei orðið ef öflugt vegrið hefði verið á milli aðskildra akbrauta og hvað svona slys snertir skiptir 90, 100 eða 110 km hraði ekki máli. 

Eftir tugþúsunda kílómetra akstur um Skandinavíu allt frá syðsta odda Danmerkur til Alta nyrst í Noregi tel ég að vera eigi meiri sveigjanleiki í hraðatakmörkunum með tilliti til aðstæðna hér á landi og að við eigum að læra sem mest af frændum okkar í þessu efni.


mbl.is 110 km hraði leyfður á ákveðnum vegum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður að vera önnur leið fyrir hendi.

Yfirleitt er það skilyrði fyrir innheimtu vegtolla að vegfarendur eigi kost á að aka aðra leið, ef þeir fara ekki leiðina, þar sem vegtollurinn er innheimtur.

Þannig er í pottinn búið í Hvalfjarðargöngum og þannig er það víðast í nágrannalöndunum. 

Að vísu er Hvalfjarðarleiðin 41 km lengri en leiðin um göngin, en óvíða er munurinn svona mikill. 

Ef beita á þessu sjónarmiði er augljóst að Vaðlaheiðargöng myndu falla undir þessa skilgreiningu því að þar ættu vegfarandur völ á að aka yfir Víkurskarð eða um Dalsmynni ef Víkurskarðsveginum yrði ekki haldið við. 

Fráleitt væri að taka vegtoll af framkvæmdum á Suðurlandsvegi vestan við Litlu Kaffistofuna því að þá ættu ökumenn ekki aðra völ en að fara um Nesjavallaveg, Grafning og Ölfus ef þeir þyrftu að aka milli Reykjavíkur og Hveragerðis og sú leið er bara allt of löng til þess að hægt sé að benda á hana sem valkost. 

Á einstökum köflum milli Litlu Kaffistofunnar og Hveragerðis ættu ökumenn hins vegar völ á gamla Svínahraunsveginum eða Þrengslaveginum eftir atvikum. 

En samgönguráðherra er í vanda. Hann er landsbyggðarþingmaður og Vaðlaheiðargöngin í hans kjördæmi.

Ef hann skellir vegtolli á Vaðlaheiðargöng myndu Akureyringar, Þingeyingar og aðrir vegfarendur um hringveginn spyrja hvers vegna ekki sé tekinn tollur af umferð um 11 milljarða króna Héðinsfjarðargöng sem þjóna aðeins litlu broti af þeim fjölda sem myndi nota Vaðlaheiðargöng. 

Langlíklegast er að vegna "byggðasjónarmiða" verði ekki tekinn tollur af Vaðlaheiðargöngum heldur bara af Suðurlandsvegi þótt slík tolltaka yrði í sérflokki hvað snerti ósanngirni í garð vegfarenda á þeim slóðum. 

Engin hætta er á að þingmenn Reykjavíkur mögli því að fyrir því eru nánast engin fordæmi. Frekar er mögulegt að þingmenn Suðurkjördæmis yrðu óhressir. 


mbl.is Alfarið á móti vegtollum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aumlegt yfirklór og lygar.

Útskýringar bandaríska hersins á atvikinu, sem sýnt hefur verið í sjónvarpi og valdið hryllingi um víða veröld eru aumlegar og lítilmótlegar.

Myndin er ekta, það fer ekki á milli mála og enginn leið að komast fram hjá því að svona voru starfsmenn Reuters drepnir á óvenju kaldrifjaðan hátt.

Í Kastljósinu í gær var sýndur hinn mikli munur á útliti myndavélar og sprengjuvörpu. Sú síðarnefnda er löng og mjó en myndavél er þykk og stutt. 

Munurinn er svo mikill að allan tímann sér hver maður að fólkið er óvopnað. Flugmennirnir ljúga í stjórnstöðina um fjölda fólksins í upphafi og að það sé vopnað þótt myndavélin sé eina tækið, sem sjáist. 

Eftir að búið er að stráfella fólkið og hlæja og fíflast með það sem er að gerast er lygunum um vopnin haldið áfram til að blekkja mennina í stjórnstöðinni. Flugmennirnir ljúga því að verið sé að bera lík og vopn inn í bílinn þótt augljóst sé að ekkert vopn er enn sjáanlegt.

Það var vafalaust rétt hjá fulltrúa Rauða krossins að allir aðilar hins hörmulega stríðs í Írak hafi brotið og brjóti gróflega af sér. 

Það er hins vegar engin afsökun fyrir Bandaríkjaher að reyna að réttlæta þennan stríðsglæp sem minnir á fjöldamorðin í My Lai og víðar í Vietnamstríðinu. 

Að lokum ein spurning: Þetta stríð, sem Íslenska þjóðin lét tvo menn véla sig til þess að styðja opinberlega sem "viljug" þjóð til svona átaka hefur kostað 600.000 óbreytta borgara lífið á sjö árum. 

Hefði Saddam Hussein, þeim mikla glæpahundi, tekist að drepa svo margt fólk á þessum árum hefði hann ráðið áfram ríkjum og hrakið milljónir á flótta og vergang? 

Þrátt fyrir hin viðbjóðslegu eiturefnamorð hans á Kúrdum efast ég um að hann hafi á næstu sjö árum á undan Íraksstríðinu drepið neitt viðlíka margt fólk. 

George Bush eldri fór að ráðum góðra ráðgjafa í Flóastríðinu og lét nægja að niðurlægja her Saddams og kenna honum þá lexíu að fara ekki með hernað á hendur öðrum þjóðum. 

Ráðgjafar hans vöruðu hann við því að halda lengra, því að þá myndi skapast það ástand sem ríkt hefur í Írak síðustu sjö ár. 

Flóastríðið var réttlætanlegt þótt það fælist í því sama og svo mörg fyrri stríð: Að drepa eins marga óvinahermenn og hægt var. 

Áður en yfirgangsæðið rann á Saddam Hussein höfðu Bandaríkjamann ekki meiri skömm á þessum kaldrifjaða einvaldi og ógnvaldi en það að þeir studdu hann með ráðum og dáð af því að það hentaði þeim í átökum við Írani. 

Snúum dæmiinu við og segjum að í Bandaríkjunum hefði verið blóðþyrstur einvaldur við völd sem styddist við ógnarstjórn. Við notum tölur í hlutfalli við stærðarmun írösku þjóðarinnar og þeirrar bandarísku sem er tólffaldur.

Her Araba hefði með uppdiktaðar ásakanir um gereyðingarvopn að skálkaskjóli gert loftárásir á helstu borgir landins og ráðist inn í Bandaríkin með milljón manna her til þess að steypa einvaldinum af stóli. 

Síðan hefðu á síðustu sjö árum 6 milljónir óbreyttra borgara fallið og tugir milljóna flúið land. 

Hefði ríkt friður í landinu við slíkar aðstæður? Myndu Bandaríkjamenn sætta sig við milljón manna hersetulið Araba í sínu landi? 

 

 


mbl.is Bandaríski herinn tjáir sig um myndbandið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband