Karakter hjá mínum mönnum.

Handknattleikslið Fram hefur gengið í gegnum ótrúlegar raunir á þessu keppnistímabili. Bundnar voru miklar vonir við liðið í byrjun móts en síðan kom alveg einstakur hrakfarakafli þar sem stefndi í algert afhroð og sneypu.

En liðið sýndi karakter og tókst af miklu harðfylgi og seiglu að komast úr fallhættu með fínum endaspretti. 

Ég óska mínum mönnum til hamigju með þetta en sendi jafnframt samúðarkveðjur til Patreks og Stjörnumanna, sem voru því miður í veginum fyrir Framliðinu í lok mótsins. 


mbl.is Stjarnan fallin úr úrvalsdeildinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útreiknuð áhætta?

"Calculated risk" eða "útreiknuð áhætta" er þekkt hugtak. Þegar stokkið er í fallhlíf er tekin útreiknuð áhætta. Allt flug byggist á útreiknaðri áhættu, raunar allt líf sérhvers manns. p1011348_979433.jpgp1011366.jpgp1011367_979427.jpg

Kenna ætti öllum börnum á grunnskólaaldri um útreiknaða áhættu og ýmsar niðurstöðu slíkra útreikninga. 

Þá myndu þau sjá að með því að byrja á að drekka áfengi eða reykja sígarettur tækju þau margfalt meiri áhættu en ef þau lærðu fallhlífarsökk og stykkju í fallhlíf.

Raunar ætti að skylda alla til að stökkva í fallhlíf einu sinni á ævinni til þess að læra þetta áþreifanlega og efla hugrekki til að gera það sem sýnist vera ógnarleg áhætta en er það ekki.

Þegar gaus í Skjólkvíum við Heklu sumarið 1970 voru engin boð eða bönn varðandi umferð gangandi fólks um svæðið og ekki er mér kunnugt um að alvarleg óhöpp yrðu.

Áreiðanlega brenndu sig einhverjir en báru harm sinn í hljóði. 

Tugir fólks muna áreiðanlega enn þegar Lúðvík heitinn Karlsson hljóp á neðri hluta bikini einum klæða berfættur á sandölum yfir glóandi hraunjaðarinn svo að sólarnir brenndust án þess að honum yrði meint af. 

Engum öðrum datt í hug að taka svona mikla og augljósa áhættu.

Þegar ég stóð kornungur á hæstu brún Látrabjargs naut ég þess að hafa unnið í meira en ár við það að ganga eftir steypumótum 12 hæða blokkar að Austurbrún 2 sem var í byggingu og leggja steypujárn ofan í mótin.

Sem járnamaður í þessari háu blokk vann ég bug á hræðilegri lofthræðslu sem hafði hrjáð mig fram að því.

Ekki mátti skeika nema nokkrum sentimetrum þegar gengið var svona eftir mótunum og athyglin varð að vera 100%. Brún mótanna, sem gengið var á, var aðeins tomma á breidd. 

Á hornum hússins þurfti að klofa yfir bil, þar sem maður horfði þráðbeint niður eftir húshorninu og engin fyrirstaða var ef maður steig óvart út fyrir. 

Á Látrabjargi flaug mér í hug að standa á brún þess, snúa mér í hálfhring og skíta fram af bjarginu. Gæti verið gaman að sjá morgunverðinn falla 450 metra lóðrétt fall niður í sjó.  

Þetta gerði ég en hefði ekki látið mér dettta í hug að gera það aðeins nokkrum árum seinna þegar ég hafði öðlast meiri lífsreynslu og vitkast eitthvað. 

Steingrímur Hermannsson heitinn sagði mér frá því að sem ungur maður hefði hann prófað að standa á hamrabrún Drangeyjar, snúa baki í hengiflugið og láta hælana standa út af brúninni. 

Hann sagði að síðar á ævinni hefði honum ekki látið sér detta í hug að gera þetta. 

Eldgleypar gleypa elda. Margir þeirra hafa áreiðanlega brennt sig einhvern tíma. Slæmt "fordæmi"? 

Vafalaust. Samt er þetta ekki bannað. 

Í 3ja bekk í Gaggó æfði ég mig í því að velta rakvélablöðum uppi í munni mér á alla kanta, bekkjarsystkinum mínum til mikillar skelfingar. 

"Slæmt fordæmi"? Já, og varla að maður þori að segja barnabörnum sínum frá þessu nema þá til þess að segja þeim, að þau þurfi ekki að sanna eitt eða neitt í þessu efni, afi hafi gert það þegar hann var ungur og vitlaus. 

Mér fannst það fráleitt nokkrum árum síðar að hafa tekið þessa áhættu og vissi þó, að kúnstin við að handleika beitta egg rakvélablaðanna fólst í því að ótrúlega miklum þrýstingi mátti beita með beru holdi á eggina, ef það hreyfðist ekki svo mikið sem brot úr millimetra á egginni. 

Þegar byrjað var að keppa í ralli á Íslandi töldu margir það forkastanlegt að taka slíka áhættu og sýna "slæmt fordæmi." 

Þegar við bræðurnir Jón og ég kepptum í heimsmeistarakeppninni í Svíþjóð 1981 tókst okkur að komast yfir tölurnar um hina útreiknuðu áhættu sem tekin væri í ralli. 

Yfirfærðar á Ísland samsvaraði það í mesta lagi einu dauðsfalli að meðaltali á öld. 

Það var minni hlutfallsleg áhætta hvað snerti slysatíðni en í flestum öðrum íþróttagreinum.

Á að banna skíðastökk af því að það er "slæmt fordæmi"?   

Brennt barn forðast eldinn. Með árunum lærðist manni að það þarf ekki að sannreyna allar athafnir þótt þær séu mögulegir. 

Ég sé ekki ástæðu til að óttast að fólk taki upp á því í hrönnum að aka upp á glóandi hraun.

Þótt Top gear mennirnir hafi gert það þurfa ekki allir að sannreyna það líka. 

Fyrir rúmum áratug varð mikill hvellur vegna þess að nokkrir íslenskir flugmenn lentu landflugvélum á vatni í snertilendingum. Þeim tókst að sanna fyrir rétti með hjálp sérfræðings frá NASA að útreiknuð áhætta við þetta væri innan viðunanlegra marka. 

Sjálfum fannst mér óþarfi að sanna þetta persónulega á flugvélinni minni, - þótt aðrir kæmust að annarri niðurstöðu hvað þeirra flugvélar snerti. 

Niðurstaða: Engin leið er með ítrustu forsjárhyggju að koma í veg fyrir að fólk taki upp á einhverju óskynsamlega hættulegu.

Umræða í anda hinnar útreiknuðu áhættu er eina leiðin til að komast að skynsamlegri og viðunandi niðurstöðu nema í ljós komi að útreikningarnir sýni óyggjandi að viðkomandi athafnir valdi tjóni. Þá verður að grípa til boða og banna. 

 

 

 


mbl.is Top Gear ók upp á heitt hraun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband