9.4.2010 | 23:11
Það er vandlifað á Íslandi.
Einhver mesta framfaraspor í íslenskum samgöngum var stigið árið 2003 þegar rofin var áratuga einokun Flugleiða á flugsamgöngum milli Íslands og annarra landa og til varð samkeppni tveggja flugfélaga á því sviði.
Þetta var þá og er enn að mínum dómi ein merkasta frétt þess árs. Flugferðum til og frá landinu fjölgaði og möguleikarnir sömuleiðis, sem þetta gaf.
Nú vill svo til að bæði Iceland Express og Icelandair koma við sögu á einn eða annan hátt í hrunadansinum sem stiginn var á fjármálabóluárunum.
Íslenska þjóðfélagið er svo lítið að engin leið er fyrir hinn almenna borgara ananð en að eiga viðskipti við fyrirtæki sem tengjast hruninu og gerendunum í því.
Í sumum tilfellum eru þetta kannski aðeins tvö fyrirtæki í ákveðnum greinum, til dæmis í siglingum og flugi til og frá landinu.
Flugfélögin og skipafélögin, sem sjá um samgöngur milli Íslands og annarra landa og fjármálahrunið og fárið sem geysaði í kringum þau eru þess eðlis að margir eiga erfitt um þessar mundir að sætta sig við tilvist þeirra og stöðu í samfélagi okkar og / eða við þá sem ráða þar enn miklu.
En meðan þessi staða er svona í okkar litla þjóðfélagi er erfitt við að eiga. Hvar á að draga mörkin á milli þeirra fyrirtækja sem við viljum skipta við og þeirra sem við viljum sniðganga?
Spurningaþátturinn Útsvar á að vera skemmtiþáttur án leiðinda. Gjörð Vilhjálms Bjarnasonar er hins vegar skiljanleg í ljósi þess að nú eru engir venjulegir tímar.
Ég held að í fyrir honum hafi ekki vakað sú ósk að Iceland Express eigi ekki tilverurétt og að í staðinn skuli koma gamla einokunarástandið í flugsamgöngum við útlönd heldur það að hann á erfitt með að sætta sig við núverandi eignarhald og áhrif Pálma Haraldssonar þar á bæ.
Í því ljósi held ég að verði að líta á það að hann afþakkaði gjafabréf frá fyrirtækinu.
![]() |
Afþakkaði gjafabréf í Útsvari |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
9.4.2010 | 19:05
Verður Skógaleiðin hættuminni?
Þegar ekið er um Mýrdalsjökul á gosstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi er farið til vesturs um Goðabungu í áttina til móts við skjálftana, sem "læðast" í austur.
Þessi leið er að því leyti skárri en leiðin frá Skógum upp Fimmvörðuháls, að þegar hlánar verður hún aurug og líkast til aurugri en leiðin upp með Sólheimajökli upp á Mýrdalsjökul og Goðabungu.
En á móti kemur að sé kvikan að færast beint í austur frá núverandi gosstöðvum gæti gosið nálægt leiðinni úr austri. Greinilegt er að vel þarf að fylgjast með því sem þarna er að gerast til að lágmarka þá hættu, sem nýtt gos gæti valdið.
Liður í því gæti verið að beina umferð eins og kostur er um Skógaheiði ef virknin heldur áfram að færast í austurátt.
![]() |
Jarðskjálftar læðast austur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2010 | 09:40
Örlagadagur Íslendinga.
Dönum þykir slæmt hve fáir af yngri kynslóðinni þekkja merkingu 9. apríl 1940. Líklega eru aðeins örfáir þessarar kynslóðar hér á landi sem vita hvaða merkingu þessi dagur hafði fyrir sögu Íslands.
Hún var einfaldlega sú að þjóðhöfðingi Íslands og yfirstjórn utanríkismála voru hertekin af Þjóðverjum og að Íslendingar urðu að bregðast við því með því að taka stjórn allra sinna mála í eigin hendur þegar í stað.
Alþingi ályktaði að vegna þess að konungur og danska utanríkisþjónustan væru ófær um að fara með mál Íslendinga yrði sett á fót embætti ríkisstjóra Íslands sem síðar breyttist í embætti forseta Íslands.
Hernám Danmerkur varð til þess að Bretar hernámu Ísland mánuði síðar, 10. maí, en enginn atburður 20. aldarinnar hafði meiri áhrif hér á landi að mínu dómi.
Aðgerð Þjóðverja fyrir réttum 70 árum hét Weserubung og í nyrðri hluta hennar fólst hernám Noregs, sem Bretar höfðu talið óhugsand.
Lykillinn að hernámi Noregs var að með atbeina 1000 flugvéla náðu Þjóðverjar yfirráðum í lofti yfir landinu og gátu haldið breska flotanum frá nógu lengi til þess að eftir stórsókn á vesturvígstöðvunum neyddust bandamenn til að hörfa frá Noregi við sneypu.
Ófarirnar í Noregi leiddu til afsagnar Chamberlains eftir "Noregskappræðuna" í breska þinginu.
Í kjölfar hernáms Breta á Íslandi gerðu Þjóðverjar pottþétta innrásaráætlun í Ísland, en skorti forsenduna fyrir því að þeir gætu haldið landinu, en hún var sú að ráða yfir því í lofti.
Sú forsenda var raunar fyrir hendi í formi frábærs flugvallarstæðis norðan Brúarjökuls sem þó var aldrei notað.
Í heimildamynd, sem ég hef lagt drög að, er leitað skýringa á því hvers vegna þetta stórkostlega tækifæri Þjóðverja til að breyta gangi stríðsins var ekki notað.
Sú saga er bæði myndræn, dramatísk og áhrifarík.
![]() |
Þekkja ekki sögu 9. apríl |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)