10.5.2010 | 18:45
Líst illa á gíginn núna.
Ég hef verið að fljúga yfir Eyjafjallajökul í dag og mér líst satt að segja ekki á gíginn.
Mér sýnist hann þrengri en hann hefur verið áður og stórvaxandi sprengingar í honum þar sem hundruð stórra hraunbjarga þeytast mörg hundruð metra upp í loftið og virðast svífa svo ógnarhægt af því að þeir eru svo stórir.
Sendi Sjónvarpinu og Morgunblaðinu myndir af þessu. Ef gígurinn er að þrengjast er auðskilið af hverju krafturinn í sprengingunum verður mun meiri en fyrr eins og sést vel á efstu myndinni.
Þess ber að geta að myndirnar eru aðeins af allra neðsta hluta makkarins og stærð bjarganna sem þeytast allt upp í 500 metra hæð hefur sést best af myndum teknum á jörðu niðri þar sem þau hafa komið niður.
Það sem ég óttast er að komi gígurinn ekki nógu miklu af hraunkvikunnni frá sér muni kvikan skjóta sér annað og þá gjósa annars staðar.
Katla yrði ekki verst heldur ekki síður sigið, sem hlaupið í Svaðbælisá kom úr í upphafi goss.
Sá farvegur er nú barmafullur af aur og tekur ekki við neinni viðbót.
Afar sjaldgæft er að stíflun gígs endi með því að toppurinn springi af fjallinu í heilu lagi eins og gerðir í Vesúvíusi og á eyjunni Martinique þar sem bæirnir Pompei, Herkulanum og St. Pierre eyddusty. Munu Snæfellsjökull og Öræfajökull vera hættulegustu eldfjöllin hér að þessu leyti og eyðingarmáttur hins síðarnefnda mikill í gosinu8 1362.
Ég tel að viðbúnaði hafi verið öfugt háttað hvað varðar breytingar á gosinu fram að þessu. Hingað til hafa allir farið á límingunum þegar byrjað hefur að gjósa á nýjum stað með stórauknum boðum og bönnum en ég tel hins vegar að hættulegasta stigið sé þegar gos er að deyja út eins og gerðist á Fimmvörðuhálsi.
Þá eiga menn fyrst og fremst að vera á tánum og hafa á sér djúpan vara.
Ég get ekki komið myndum inn á bloggið hér fyrir austan þótt þær fari greiðlega héðan úr afgreiðslunni á Hótel Rangá til Reykjavíkur. Ef ég fer heim í kvöld til að slá á slæmt kvef, sem ég hef, skutla ég þeim inn.
![]() |
Dökkur mökkur eftir skjálfta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 11.5.2010 kl. 01:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)