17.5.2010 | 07:31
Ísland sér á parti? Gengur ekki upp.
Á fundum hjá 4x4 og Slóðavinum hef ég lýst í fyrirlestrum því hvernig akstri á torfærutækjum utan vega er háttað hjá þjóðum austan hafs og vestan.
Langflestir fundarmanna hafa sýnt skilning þeim sjónarmiðum sem ég hef lýst.
Í Noregi, landinu, sem mest svipar til Íslands, er allur akstur utan vega bannaður, líka á snjó yfir veturna.
Þar yrði jeppa á stórum dekkjum ekki einu sinni leyft að fara eftir GPS-mælingu að vetrarlagi ofan á snjóþekjunni sem liggur á malbikaða veginum yfir Harðangursheiði.
Miðað við Noreg er Ísland gósenland slíkra ferða og getur verið það áfram ef tillit er tekið til annarra hópa fólks, sem sækist eftir kyrrð, friði í hinni ósnortnu náttúru.
Margir halda að ríkin í og við Klettafjöllin í Bandaríkjunum, sem eru jafnvel dreifbýlli en Ísland, séu dýrðarland fyrir torfærutæki í líkingu við það sem halda mætti af lestri blaða og tímarita um þau efni, sem seld eru hér á landi.
Þetta er alrangt og af þeim 25 þjóðgörðum sem ég hef skoðað í Bandaríkjunum, Kanada, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi er aðeins leyfður torfæruakstur í þjóðgarðinum Giljalandi skammt frá Mekka torfæruaksturins sem er bærinn Moab við Coloradofljótið.
Í þeim þjóðgarði eru 1600 kílómetrar af merktum jeppaslóðum en að öðru leyti er allur akstur bannaður utan þessara merktu slóða og þung viðurlög við brotum á því í þessum jeppaþjóðgarði. Punktur.
Ákveðin tiltölulega lítiil, afmörkuð svæði eru í nágrenni Moab fyrir keppnis- og æfingaakstur.
Í vesturríkjunum eru einstakar afmarkaðar leiðir ætlaðar til torfæruaksturs svo sem Rubicon og akstursleiðirnar í Baja-akstrinum.
Á öllum þeim svæðum, sem ég hef skoðað erlendis sem keppa við Ísland um ferðamenn sem vilja njóta náttúrunnar er hvergi að finna það takmarkalitla frelsi sem sumir eigendur torfærutækja hafa tekið sér hér á landi.
Alls staðar er keppst eftir því að laða til ferðalaga fólk, sem vill njóta útivistar og náttúrufegurðar í ósnortinni náttúru fjarri vélaskarkala nútímans.
Við munum tapa þessum stóra markhópi milljóna manna frá okkur ef við friðum ekki stór svæði fyrir torfærutækjaeigendum sem halda að þeir eigi að geta spænt eftir gönguslóðum og kindagötum eins og sumir þeirra telja eðlilegt.
Dæmi: Göngustígurinn Árnastígur liggur frá Grindavík í norðvestur í átt til byggðanna á Rosmhvalanesi. Hann liggur um harðar klappir og á fundinum með Slóðavinum voru menn sem töldu sjálfsagt að torfærutæki mættu þeysa um stíginn af því að þau mörkuðu ekki í klappirnar.
Göngufólk sem gengur þennan stíg gerir það til þess að setja sig í spor vermanna og gangandi fólks fortíðarinnar sem gekk svo oft þennan stíg að hraunklappirnar eru ljósari á litinn en hraunið í kring.
Þessi upplifun gangandi fólks er eyðilögð ef torfærutækjum er leyft að fara þarna um að vild á þeim forsendum að allar göngu- og kindagötur á Íslandi séu þeim opin.
Ísland er nefnilega ekki stórt, heldur lítið miðað við það ferðafólk með ólíkar áherslur, sem fer sífjölgandi.
Öræfajökull hefur þegar verið friðaður fyrir vélknúinni umferð og hafa jeppamenn yfirleitt ekkert við það að athuga.
Ég er í hópi þeirra sem hrífst af fjölbreytileika í ferðum um hálendið og fólkvangana, gangandi, hjólandi, ríðandi og akandi og hef notið allra þessara ferðamáta. En mér kemur ekki til hugar að hægt sé að viðhalda því taumleysi sem sumir eigendur torfærutækja og hesta virðast halda að hér eigi að ríkja. Því verður að linna.
Staðreyndin er sú að hver fyrrnefndra hópa er orðinn það stór að það geta ekki allir verið alls staðar heldur verður að fara skipta landinu upp og gera það í skynsamlegri sátt.
Eigendur torfærutækja eru svo heppnir hér á landi að hafa mestallt hálendið undir þegar þykkur snjór liggur yfir því á veturna.
Að öllu samanlögðu eru meiri tækifæri hér á landi en nokkurs staðar annars staðar til að hægt sé að taka torfærutæki til kostanna án þess að það skaði landið eða spilli fyrir göngufólki.
Ásókn í takmarkalitla umferð torfærutækja er hluti af því hömluleysi og frekju sem leiddi þjóðina í efnahagshrun.
Þetta er þjóðarlöstur. Að auglýsa Ísland sem land hins algera frelsis í torfærutækjaumferð eins og heimasíður ýmisssa gefa í skyn gengur ekki upp.
Nema að á þessu sviði eins og fleirum sé okkur orðið sama um allt nema hugarfarið "take the money and run!" , "...á Íslandi við getum verið kóngar allir hreint...!"
![]() |
Nauðsynlegt er að taka á vanda vegna torfæruaksturs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)