Illskiljanlegt bann og ekki bann.

Svo vill til að ég hef verið á faraldsfæti bæði á landi og í lofti á svæðinu milli Reykjavíkur Eyjafjallajökuls daglega að undanförnu.

Í gær viðraði vel til flugs fyrir vestan gosstöðvarnar því að mökkinn lagði til austurs, norðaustur og norðurs. Þetta sást afar vel úr lofti. 

Ég byrjaði að fylgjast með gosinu í morgun og þá sást vel að mörk öskufallsins voru í Fljótshlíð. 

Fyrir áeggjan nokkurra manna fyrir austan, svo sem fulltrúa frá NASA, fór ég austur þótt mér þætti ólíklegt að ástandið breyttist. Fyrir austan sást hvernig öskumökkurinn fór skyndilega að berast hratt til vesturs og var kominn yfir allt Suðurlandsundirlendið á skömmum tíma og síðan yfir Reykjavík. 

Svifryk var yfir viðmiðunarmörkum í Reýkjavík líkt og var fyrsta daginn á dögunum þegar Reykjavíkurflugvelli var lokaðl.  Samt var Reykjavíkurflugvöllur opinn í allan dag. 

Ég á bágt með að skilja þetta og held, að stundum geti það gilt um tölvulíkön sem spár um öskufall koma úr, sem sagt er í bandaríska máltækinu "garbage in - garbage out."

Ef settar eru nónýtar forsendur inn í tölvuna verður ótkoman ónýt. 


mbl.is Aska yfir borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íraskur Checkpoint Charlie?

Múrar, sem reistir hafa verið utan um þorp, borgir og heilu ríkin hafa yfirleitt gefist illa og verið merki um ákveðna uppgjöf þeirra sem þá hafa látið reisa. 

Fyrir sjö árum létu tveir menn okkur Íslendinga verða í hópi þeirra ríkja sem réðust með hervaldi inn í Írak til að koma þar á frelsi og víkja einráðum grimmdarsegg og glæpamanni frá völdum.

Nú virðist eina ráðið til að koma þessu frelsi á vera það að reisa múr utan um höfuðborg landsins og kann að vera að fleiri borgir fylgi í kjölfarið.

Við þekkjum nokkur dæmi um svona aðgerðir fyrr í hernaðarsögunni.

Bandaríkjamenn tóku það til bragðs snemma í Vietnamstríðinu að reisa girðingar utan um þorpin og verja þau fyrir aðgengi óæskilegra aðkomumanna.

Skemmst er frá því að segja að þetta misheppnaðist algerlega. Íbúum þorpanna fannst þeir þvert á móti vera lokaðir inni og sviptir frelsi sínu.

Í Suður-Afríku var aðskilnaðarstefna í gildi um áratuga skeið og þótti ekki til fyrirmyndar.

Ísraelsmenn hafa reist mikinn múr til að skilja sig frá Palestínumönnum og ekki er það ástand, sem því veldur og af því hlýst, eftirsóknarvert.

Frægastur múra varð Berlínarmúrinn með "aðgangslhiðum sínum".  Það tákn einræðis, ofríkis og ófrelsis hrundi 1989 og var fáum harmdauði.

Á honum voru hlið, sem fengu fræg nöfn sem mætti kannski endurvekja í Bagdad, svo sem "Chekpoint Charlie" ?  


mbl.is Reisa múr um Bagdad
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í rétta átt.

Ég hef áður lýst ástæðum þess hve lítið virðist hafa þurft til að að grípa til lokana á flugumferð.

Miklu ræður að framleiðendur hreyfla, tryggingafélög og fleiri aðilar vilja hafa allt sitt á þurru varðandi ábyrgðir á því að öryggið sé í fyrirrúmi. 

Það þótti mikið framfaraskref þegar allt áætlunarflug færðist smám saman yfir í það að vera blindflug, þ. e. að flogið væri eingöngu eftir mælitækjum um borð í vélunum og á jörðu niðri,  og fluginu,  flughæðum og flugleiðum hvers loftfars stjórnað af flugumferðarstjórum til að tryggja öruggan aðskilnað. 

En nú er þetta aðal ástæða þess að flugbönnum er beitt vegna þess að þegar flogið er í blindflugi er gert ráð fyrir því að flugið sé öruggt þótt ekkert sjáist út úr flugstjórnarklefunum. 

Jafnvel þótt flogið sé í raun utan skýja og skyggni gott er gert ráð fyrir hinu og sú er aðal ástæða þess að banna flug ef minnsta hætta er á að flogið sé inn í öskuský, jafnvel þótt þunnt sé. 

Erfitt er að sjá áhrif ösku á flugvélahreyfla nema að mæla magn hennar á ákveðnum tíma á ákveðinni flugleið og taka síðan hreyfla í sundur og skoða, sem lent hafa í henni. 

Þetta þyrfti samt að gera til þess að öðlast meiri vitneskju um raunveruleg áhrif öskunnar og raunar gæti lengra gos í Eyjafjallajökli hugsanlega gefið tækifæri til slíks. En enginn óskar þess að gosið verði lengra, - síst af öllu fólkið sem býr næst eldstöðinni og hefur mátt þola mestar búsifjar af þess völdum.

Ég hvet fólk til þess einmitt núna þegar sunnan átt er á gosstöðvunum að skoða á mila.is myndina úr vefmyndavél á Þórólfsfelli sem beint er að Eyjafjallajökli. 

Það grillir varla í jökulinn í gegnum öskusortann sem hefur legið þar yfir allt frá því í fyrrinótt. 

Tveir frábærir erlendir ljósmyndarar, vinir mínir og Íslandsvinir, sem eru fyrir austan, eru að verða vitlausir af óþoli út af því að komast ekki til þess að mynda hina einstæðu og risavöxnu ísgjá sem er í Gígjökli. 

En illmögulegt er að gera það nema úr lofti. Svona ísgjá er ekki vitað til að nokkrir menn hafi séð nokkurs staðar í heiminum svo vitað sé. 

Þótt ég sé á flugvél með bulluhreyfli lagði ég ekki í það í gær að fljúga inn fyrir Múlakot heldur hef ég algerlega haldið mig utan við öskublandið loft í flugi mínu til þessa. 

Eins og sést á loftmyndinni hér að ofan, leggur öskumökk til norðurs frá gosinu og er ekki spáð breytingu á því næstu daga. 

Kann að vera að ég skjótist austur og aki inn í öskumettaða loftið hjá Fljótsdal til að kanna þetta betur. 

En samt er ólíklegt að ég fljúgi sömu leið á eftir. 


mbl.is Mildari reglur um flugumferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kolbrúnn og ægilegur.

Öskumökkurinn úr Eyjafjallajökli hefur verið kolbrúnn og ógnvekjandi í dag. Ekki örlar lengur á neinum öðrum lit í mekkinum og ljósir litir sjást ekki lengur.

Nú síðdegis var mökkurinn eins og vængjaður ofurþurs að sjá þar sem hann reis upp úr gígskálinni, sem rétt teygði sig upp úr skýjahulunni eins og sést á myndunum, sem voru teknar nú í kvöld. p1011724.jpg

Öskuna lagði beint í norður og mátti Hekla láta sér lynda að vera kaffærð af dökkum öskublönduðum skúraskýjum í allan dag sem og hálendið þar austur og suður af. 

Aðeins þrjú stór og há eldfjöll rísa við strönd Íslands, Snæfellsjökull, Eyjafjallajökull og Öræfajökull. 

Snæfellsjökull nær 1446 metra hæð, Eyjafjallajökulll 1666 metrum og Öræfajökull 2110. p1011732.jpg

Þessi fjöll eiga stærð sína og hæð að þakka framleiðslu hrauns og Eyjafjallajökull, sem hingað til hefur þótt frekar meinlítið fjall miðað við stærð sína, hefur nú minnt óþyrmilega á að stærð hans er engin tilviljun.

Hann er nú búinn að stimpla sig inn í flokki með mikilvirkustu eldstöðvum á borð við Heklu, Öskju og Kötlu. 

Á neðri myndinni er horft hátt úr vestri til eldfjallsins og sést Markarfljót á milli skýjabreiðanna sem eru sitt hvorum megin við dalinn milli Eyjafjallajökuls og Tindfjalla. 

 


mbl.is Mikið sprengigos í gangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. maí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband