Sást úr Fljótshlíð í dag.

Ég hef verið á ferli síðan hálf sjö í morgun og um tvöleytið í dag sást um stund úr Fljótshlíð til gosmakkarins í Eyjafjallajökli, eins og sést af myndinni. dscf5844.jpg

Nóg sást til þess að staðfesta að mökkurinn er minni og mætti alveg missa sín, því að öskukóf stóð niður Gígjökul og yfir að innstu hluta Fljótshlíðar. 

Myndin sýnir byggingar við Múlakot á sléttunni ef vel er að gætt, en norðurhlíð Eyjafjallajökuls er á kafi í kófinu sem steypist niður hlíðina í sunnanvindi sem fer yfir jökulinn.

Var heldur óhrjálegt um að litast við bæinn Fljótsdal, allt svart þar af ösku. dscf5847.jpg

Ekki hefur gefið undanfarna daga til að skoða hina mikilfenglegu ísgjá eða ísgljúfur sem hraun hefur brætt niður langleiðina í gegnum Gígjökul. 

Ég flaug inneftir snemma í morgun þegar von sýndist vera til þess að hægt yrði að komast að henni en varð frá að hverfa. 


mbl.is Gosvirkni hefur minnkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var hægt að gera þetta þrefalt ódýrara.

Eftir að ég og fleiri Íslendingar skoðuðu Ólafshöllina í Þrándheimi fyrir mörgum árum vorum við sannfærðir um að við gætum lært af því samfélagi erlendis sem líkast er okkar og byggt hér alhliða tónlistar-, leik-  og óperuhús fyrir aðeins um þriðjung eða fjórðung af því sem Harpa á að kosta.

Meðal íslenskra kunnáttumanna, sem kynnst hafa húsinu eru Sveinn Einarsson, fyrrverandi Þjóðleikhússtjóri, sem setti þar upp óperuverk og lét afa vel af húsinu. 

Enginn virðist hafa skoðað þá staðreynd þegar farið var af stað með Hörpu, að í Osló og Kaupmannahöfn risu á undan jafn stór og jafnvel betri hús sem keppa þyrfti við ef menn ætluðu að vera gjaldgengir á þeim samkeppnismarkaði sem ákveðið var að fara út í. 

Þegar ég ræddi þessar staðreyndir við íslenska ráðamenn á sínum tíma var svarið: En Reykjavík er höfuðborg en Þrándheimur ekki. 

Í svona svari kemur fram ákveðið oflæti sem oft ræður hér ríkjum. Þess er krafist að Reykjavík sé jafn þéttbýl og með jafn stórum byggingum og milljónahöfuðborgir Evrópu í stað þess að sætta sig við þá staðreynd að Reykjavík er ekkert stærri við það að kallast höfuðborg. 

Eða hvað gætu þá Færeyingar og Grændlendingar sagt um Þórshöfn og Nuuk? 

Ekkert svæði í heiminum svipar jafn mikið til suðvesturhorns Íslands hvað snertir stærð, breiddargráðu, loftslags, menningar og þjóðfélagsaðstæðna og Þrándheimur og Þrændalög. 

En í stórlæti okkar teljum við okkur ekki geta lært neitt af þessum norsku frændum okkar, heldur lítum niður á þá af því að Þrándheimur telst ekki vera höfuðborg. 


mbl.is Harpa stendur vart undir vaxtakostnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. maí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband