Verstu "lestarstjórarnir".

Ég vil bæta við pistil um "lestarstjóra" í umferðinni því sem er kannski mikilvægast í sambandi við þá en það tillitsleysi þeirra að halda sig inn við miðlínu vegar og koma þannig kyrfilega í veg fyrir að nokkur komist fram úr þeim.

Fyrir nokkru ók ég niður Kambana og á þeim kafla voru þrír afar hægfara bílstjórar. Tveir þeirra héldu sig fast við miðlínu þótt auðvelt væri fyrir þá að víkja til hægri út á breiða öxl sem er ætluð fyrir farartæki sem komast ekki hratt. 

Við slíkar aðstæður er freisting að fara fram úr hægra megin og nota vegöxlina til þess en það er ekki leyfilegt og því gera menn það ekki. 

Einn af þessum þremur bílstjórum skar sig þó úr og fór strax út á öxlina. Þegar ég fór fram úr bílnum áttaði ég mig á því að þetta var útlendingur á bílaleigubíl. 

Sjálfur á ég tvo fornbíla sem geta ekki haldið 90 kílómetra hraða upp brekkur ef ég fer út úr bænum og reyni alltaf að haga akstri mínum þannig að allir komist fram úr mér þótt stundum sé það erfitt vegna þess hve Vegagerðin sinnir lítið um vegaxlirnar, sem víða eru illfærar og hættulegar. 


Aðferð sem svínvirkar.

Þegar Geysir Green ferlið hófst vorið 2007 var þess vandlega gætt að láta sem ekkert væri.

Við, sem höfðum grunsemdir og mæltum gegn því sem þá var hafið, vorum talin öfgafull. 

Skyndilega vakna menn nú upp við það að kanadiskt fyrirtæki á mestalla orku Reykjanesskagans og er ekkert að fara í felur með það núna, þótt sagt væri áður að sænskt fyrirtæki væri á ferð. 

Í upphafi var sagt að aðeins yrði um 120 þúsund tonna álver að ræða á Reyðarfirði og allur áróður fyrir virkjun eystra miðaðist við það. Fyrr en varði var þetta orðið 346 þúsund tonna álver og umhverfisspjöll vegna virkjunar marfölduðust. 

Sama aðferð var notuð á Bakka og hún er einnig notuð í Helguvík. 

Allt í einu kemur upp að búið er að leita samninga við sveitarstjórnir og landeigendur varðandi virkjanir í Kerlingafjöllum og Skaftá. Samt er reynt að breiða yfir hinn raunverulega tilgang að útlendingar eignist bæði auðlindirnar og vinnsluna og flytji stórfelldan arð úr landi eins og raunin hefur orðið varðandi Kárahnjúkavirkjun og fyrri virkjanir. 

Aðferðin svínvirkar. Þegar upp verður staðið verður ekkert ósnortið eftir líkt og gerðist þegar uglan skipti ostbitanum í dæmisögunni forðum. 


mbl.is Fjarlæg Búlandsvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mætti skoða "lestarstjórana".

Þyrla gæti nýst við við þá þörfu nýjung að fylgjast með því fyrirbæri sem kalla má "lestarstjóra", en það eru bílstjórar sem í sumum tilfellum virðast vart færir um að aka í þjóðvegaumferð vegna hægagangs í akstrinum.

Þá má oft þekkja á hægum akstri þar sem þeir lötra áfram á allt niður í 50 kílómetra hraða við bestu aðstæður þar sem leyfður er 90 km hámarkshraði. 

Fyrir aftan þá myndast oft langar raðir bíla og í þéttri umferð  skapa þessir ökumenn hættu vegna þess að þeir lokka aðra til að reyna framúrakstur við erfiðar aðstæður. 

Sumir þessara ökumanna aka afar skrykkjótt og er oft næstum því fyndið að sjá hvernig þeir virðast vera að fara á límingunum við það að taka beygjurnar í Kömbunum í þurru sumarveðri af "öryggi" með því að hægja á sér allt niður í 40 km hraða algerlega að aðstæðulausu.

Ég hef oft verið að reyna að rýna í það hvaða bílstjórar eru hér á ferð og reynist oft vera um gamalt fólk að ræða sem augljóslega er búið að missa hæfni til aksturs í þjóðvegaumferð en er samt á ferli og heldur að það skapi mikið öryggi fyrir það og aðra vegfarendur að aka sem allra hægast. 

Þetta fyrirbæri er lygilega algengt en ég minnist þess aldrei að hafa nokkurn tíma séð lögreglu stöðva slíka bílstjóra.


mbl.is Gómaðir úr þyrlu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. maí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband