Erfitt að túlka þetta.

Ef það sem kemur fram í könnuninni um fylgi við borgarstjóraefni er nokkurn veginn rétt væri einfaldasta ályktunin sú að stærsti hópur kjósenda á laugardaginn vilji hafa sama borgarstjóra áfram en refsa samt stjórnmálamönnum með því að gera Besta flokkinn að stærsta aflinu í borgarstjórn.

Jón Gnarr lýsti því yfir strax í upphafi að markmið framboðs hans væri að skaffa honum þægilegt og skemmtilegt starf sem borgarstjóra. 

Nýjustu yfirlýsingarnar um að auglýsa eftir fólki til að vinna í nefndum og annað svipað handverk passa alveg við þetta. 

Enginn þarf að efast um að við þetta verði staðið enda ákaflega auðvelt að gera það. 

Ef hins vegar á að refsa því fólki sem áður hefur komið nálægt stjórnmálum gengur það ekki upp að vera fylgjandi því að Hanna Birna verði áfram. 

Hún var innsti koppur í búri Sjálfstæðisflokksins í Valhöll fyrir hrun og því talsverð Ragnars Reykás lykt af því að vera bæði fylgjandi framboði Besta flokksins og því að Hanna Birna verði áfram borgarstjóri. 

En tæpur helmingur kjósenda í Reykjavík virðist kæra sig kollótta heldur vera til í að keyra farsa stjórnmála undanfarinni ára í botn. 


mbl.is Flestir vilja Hönnu Birnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsamlegt í ljósi reynslunnar.

Yfirlýsing um goslok í Heimaeyjargosinu 1973 markaði tímamót í aðgerðum vegna þess. Þegar í stað var hafist handa við uppbyggingarstarf sem tók nokkur ár.

Það kynni að vera freistandi að lýsa yfir goslokum í Eyjafjallajökli en í ljósi reynslunnar frá gosinu 1821 er vafalítið óskynsamlegt að gera það í ljósi þess hve mikið áfall það yrði ef gysi á nýjum stað, jafnvel í Kötlu. 

Eins og er eru verkefnin ærin við að ráða fram úr þeim viðfangsefnum sem öskurok á hinu stóra svæði allt frá Landmannaleið suður til sjávar á eftir að færa mönnum.


mbl.is Lýsa ekki yfir goslokum að sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin blinda áltrú.

Orkumálastjóri hefur rökstutt það vel að þótt álver hafi passað vel inn í það þegar virkja þurfti stórt á einum stað eins og við Búrfell í upphafi eða við Kárahnjúka, gildi þveröfugt gagnvart jarðvarmavirkjunum, sem séu alger andstæða stórra vatnsaflsvirkjana. 

Vitað er fyrirfram hve mikla orku heildarvirkjun eins fallvatns muni gefa og að hagkvæmtast sé að virkja stórt.

Hins vegar er mikil óvissa jafnan um það hver mikið muni fást út úr hverju jarðvarmasvæði og því heppilegast að virkja þar í áföngum skref fyrir skref.

Þess vegna henti litlir og fleiri kaupendur betur jarðvarmavirkjunum heldur en stórir, orkufrekir kaupendur.

Þetta vilja áltrúarmenn alls ekki skilja heldur vaða áfram með hina blindu trú sína sem er á skjön við helstu skynsemisrök jarðvarmavirkjana.

Menn heimta álver og aftur álver  og þegar sex hugsanlegum kaupendum er raðað, lenda tveir álrisar efst á forgangslistanum.

Er engin leið að stöðva þessa vitleysu?  


mbl.is Sumarleyfi tefja uppbyggingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. maí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband