4.5.2010 | 22:40
Getur askan úr þessum mekki borist á móti vindinum?
Í dag hefur mátt sjá glögglega á vefmyndavél hvernig gosmökkinn úr Eyjafjallajökli hefur lagt til austurs eða til vinstri á myndinni, sem fylgir frétt mbl.is
Fylgt hafa fréttir af því, að af þessum sökum hafi hann borist til Færeyja og Írlands, en vegna þess að askan sé þyngri en fyrst í gosinu og ekki eins mikil, hafi hún ekki náð það hátt að stöðva flug í hærri hæðum yfir þessi lönd.
Allt virkar þetta rökrétt og fólk skilur þetta.
En þá kemur það allt í einu upp í dag að flugbannsvæðið hér á landi hafi verið stækkað til vesturs frá gosstöðinni, í áttina á móti stífum vestanvindi sem samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar hefur ríkt í 5000 feta, 10000 feta og 18000 feta hæð í allan dag.
Mynd, sem ég er að setja inn í þennan pistli, er tekin frá Múlakoti klukkan átta í kvöld og sést að mökkinn leggur enn til austurs í austurátt frá Suðurlandsundirlendinu, en fólk austan við Suðurjökla, á svæðinu frá Vík og upp í Skaftártungu, hefur orðið vart við öskufall og það er vel skiljanlegt.
Mökkurinn nær ekki einu sinni upp í 18 þúsund feta hæð heldur er hann mun lægri, og því er erfitt að sjá hvernig hann geti komist á móti hinum stífa vestanvindi sem þarna er.
Bannsvæðið hefur náð allt vestur að Þjórsá eða 70 kílómetra upp í vindinn í þá átt, sem er til hægri á myndinni. Af þessum sökum féll allt flug niður til Vestmannaeyja í dag, en þær eru áveðurs frá gosinu og eiga Eyjamenn erfitt með að skilja þetta bann.
Það skýtur skökku við að gefnar eru mjög auðskildar skýringar á því hvernig askan berst til Færeyja og Írlands en hitt ekki útskýrt, hvernig aska geti borist með meira en 45 hnúta hraða á móti 35 hnúta vindi, en það er eina leiðin til þess að askan geti borist til vesturs.
Úr því að verið er að hafa fyrir því að útskýra fyrir okkur Íslendingum hvers vegna askan berist þannig til Færeyja og Írlands að þar sé ekki hægt að fljúga í lægri hæðum heldur hærra uppi hefði maður að útskýra þyrfti hvers vegna flugbannsvæði hér á landi hefur verið stækkað í öfuga átt við það sem vindurinn ber öskuna.
Hvernig kemst askan vestur að Þjórsá?
![]() |
Kolsvartur mökkur frá gosinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.5.2010 | 13:01
Hvað um breska sjónvarpsmanninn og Leno ?
Mér varð fyrir tilviljun gengið framhjá sjónvarpstæki í fyrrakvöld og sá þá stjórnanda bresks gamanþáttar í sjónvarpi setja höndina þvert fyrir efri vörina og gott ef hann rétti ekki líka út hinn handlegginn þegar hann var að gantast með það að sjálfur Hitler hefði á sínum tíma ekki tekist að koma í koma í veg fyrir flug yfir meginland Evrópu í seinni heimsstyrjöldinni, en hins vegar hefði Eyjafjallajökull lengst norður í ballarhafi getað gert þetta.
Þessu fylgdi að sjálfsögðu bæði hljóð og mynd og fór því ekki á milli mála um eðli þessa gráglettna gríns.
Ekki hef ég séð bresk götublöð velta sér upp úr þessu sem einhverju hneyksli.
Jay Leno grínaðist með það fyrir þremur árum í sínum sjónvarpsþætti að enda þótt í ljós hefði komið í stöðuleikaprófum að Mitshubishi Pajeru (Shogun í Ameríku ) væri hættulega valtur, gilti um það sú kenning að slæm auglýsing væri betri en engin.
Samkvæmt þeirri kenningu hefði árás Japana á Pearl Harbour 7. desember 1941 verið góð auglýsing fyrir Mitsubishi þegar 300 Mithubishi Zero gerðu þessa árás með tilheyrandi mannfalli !
Ekki fór sögum af því að Leno væri tekinn í bakaríið fyrir þetta, þótt fullsannað væri með hljóð og mynd.
Þess vegna er furðulegt að ljósmynd, sem sýnir ekkert nema hljóðlaust augnablik, skuli valda fjaðrafoki í Bretlandi og aðsúg að landa okkar.
![]() |
Eiður Smári á síðum breskra slúðurblaða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)