Áhrif Evu Joly ?

Athygli mína vöktu þau ummæli hins bandaríska sérfræðings í fjármálaafbrotum í Silfri Egils, að vafasamt væri að rannsókn sérstaks íslensks saksóknara hefði borið árangur hefði ráða og áhrifa Evu Joly ekki notið við.

Hvort sem þetta er rétt eða rangt mat er ástæðulaust að taka neitt frá þeim sem stóðu að skýrslunni miklu eða að því sem nú er að gerast í málefnum grunaðra í fjársvikamálum. 

Satt að segja var ég í hópi þeirra sem efaðist um að koma myndi til þeirra atburða sem orðið hafa í dag. 


mbl.is Skýrslutökum lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður slysaaldurinn færður upp um eitt ár ?

Á milli mín og föður míns var það kynslóðabil að hann varð að bíða til 18 ára aldurs til þess að fá ökuréttindi en ég til 17 ára aldurs.

Þegar aldurinn var færður niður um eitt ár gafst það ekki verr en svo að þeirri breytingu var við haldið. 

Ég set spurningarmerki við það að slysum muni fækka við það að lækka aldurinn úr 18 í 17. 

Ég hygg að svipað gildi um akstur og flug að slysatíðnin sé hærri hjá óvönum stjórendum bíla og flugvéla en hjá vönum og aldurinn skipti miklu minna máli.

Sem sé að eitt ár í aldri til eða frá skipti ekki máli eftir að fólk er orðið 16 ára. 

Ég dreg því í efa árangur þess að færa aldurinn upp um eitt ár því að slysatíðnin á fyrsta ári ökuprófs muni einfaldlega færast upp um eitt ár.

Skynsamlega hefði verið að þrengja skilyrðin fyrir ökuréttindum fyrsta árið eftir að ökuréttindi eru veitt, til dæmis með takmörkunum á stærð, vélarafli og hraðagetu bíla, sem nýliðar megi aka á fyrsta árið. 

Jafnvel að þeir megi ekki hafa farþega með sér. Þannig er það í fluginu hvað snertir réttindi til þess að taka farþega með.  Menn taka fyrst svonefnt sólópróf og síðar réttindi til að taka fólk með sér. 


mbl.is Ökuleyfisaldur hækki í 18 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miðja villimennskunnar.

Miðja villimennskunnar á Íslandi þegar ég var ungur var í miðbænum á gamlárskvöld. Þangað safnaðist óknyttalýður, lét öllum illum látum, kastaði grjóti í rúður í lögreglustöðinni og lét eins og bavíanar.

Svonefnt skemmtanalíf á nýjársnótt byggðist á nýjársdansleikjum og fylliríi, - stemningu sem svipar um margt því sem nú viðgengst í miðborginni allar helgar. 

Þessu tókst að breyta smátt og smátt með áramótabrennum og síðar Áramótaskaupi Sjónvarpsins. 

Á sama hátt verður nú að leita lausna sem geta bægt frá okkur þeirri villimennsku sem látin er viðgangast í miðborg Reykjavíkur og er fyrir löngu komin út fyrir mörk eðlilegs skemmtanalífs. 

Þegar ég sá fyrirsögnina hér að ofan hélt ég að hún ætti við hávaðann frá gosinu í Eyjafjallajökli. 

Svo reyndist ekki vera, og mér liggur við að segja, því miður. 


mbl.is Óbærilegur hávaði um nætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dásamleg sýning.

Var að koma af dásamlegri sýningu í Þjóðleikhúsinu. Heilmikill söngleikur og allt að 40 manns á sviðinu.

Kannski ekkert nýtt nema fyrir það að á sviðinu var fólk frá ekki stærra samfélagi en Sólheimum í Grímsnesi og varla hægt að trúa því að þetta fólk gæti staðið að svona góðri og vel fluttri sýningu.

Sýningin er sett upp í tilefni af 80 ára afmæli Sólheima og enn og aftur sýnir Sólheimafólkið hvað í því býr.

Ljóst er að Edda Björgvinsdóttir hefur unnið kraftaverk og ekki í fyrsta sinn við það að semja handrit og ná því fram úr leikendum sem raun ber fagurt vitni.

P1011380

Sýningin er áhugaverð vegna þess að í henni er varpað ljósi á ýmis atriði í lífi hinnar einstöku konu, Sesselju Sigmundsdóttir, og í sögu Sólheima, sem ekki hefur verið mikið fjallað um áður.

Sólheimar eiga sérstakan sess í hjarta allra sem kynnast þessum einstaka stað og fólkinu, sem þar býr.

Það eru engin jól hjá mér nema að hafa fyrst farið og verið á litlu jólunum á Sólheimum til að njóta einstakrar einlægni, lífsgleði og ljúfmennsku fólksins þar.

Læt fylgja með litla mynd sem ég stalst til að taka án flass ofan af efri svölum í kvöld án þess að nokkur yrði þess var.


Bloggfærslur 6. maí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband