11.6.2010 | 22:40
Sviptingar í fjallinu.
Ég hef verið að fylgjast með Eyjafjallajökli í dag og skilyrðin hafa verið betri en nokkru sinni síðan gosið í tindgígnum byrjaði. Ég var þarna á svipuðum tíma og Magnús Tumi Guðmundsson snemma í morgun, en þá var minna líf í gígnum en ég hafði nokkurn tíma séð fram að því og þessvegna grillti í vatnið í gígnum.
Hins vegar fór heldur að færast líf í fjallið þegar leið á daginn og um níuleytið í kvöld gaus upp mikill og kraftmikill strókur.
Sagan sýnir að þetta eldfjall getur verið ólíkindatól og að gera verði ráð fyrir ýmsu.
Rétt fyrir kvöldmat varð mikið öskurok norður og austur af Þórsmörk og Tindfjöllin fóru gersamlega á kaf svo og svæðið austan við þau.
Í Þórsmörk skrúfuðust upp þyrilstrókar og rauk úr leirum Markarfljóts í snarpri vestanhafgolu sem tók sig upp. Annars var áberandi í dag hvað mikil rigning í gær gerði gott gagn í því að binda öskuna.
Annars hefði orðið miklu meira öskufok í norðvestanvindinum sem lék um Suðurland í dag.
![]() |
Loka Þórsmörk vegna flóðahættu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.6.2010 | 06:46
"Ring generalship".
Ofangreint hugtak er notað í hnefaleikum varðandi stigagjöf og lýtur að því að sá keppenda, sem ræður ferðinni og bardagaaðferðinni í viðureigninni, nýtur þess í stigagjöf.
Besti flokkurinn sýndi "ring generalship" í borgarstjórnarkosningunum á ýmsan hátt, til dæmis með því að velja sér algerlega nýja aðferð spaugs og gríns sem keppinautarnir vissu ekki hvernig ætti að bregðast við.
Þeir höfðu greinliega aldrei búist við að fást við slíkt og fundu ekki svar. Sama átti við um fjölmiðla.
Þegar Jón Gnarr setti fram stefnumálin varðandi hvítflibbafangelsi og hvítabjörn í Húsdýragarðinum, gjaldtökuhlið milli Reykjavíkur og Seltjarnarness og fleira í þessum dúr, hafði hvorki neinn fjölmiðla né keppinauta fyrir því að kanna þessi mál.
Kannski af því að þau áttu hvort eð er að vera grín eða vegna þess að það var ómögulegt að vita hvort þau væru grín.
Þegar síðan Jón Gnarr er að taka við borgarstjórastöðu og heldur fast við þessi mál og segir, að auðvitað hafi þetta verið alvara, fara menn fyrst að kanna þau eins og raunar hefði átt að gera strax í upphafi.
Besti flokkurinn var sem sagt "hershöfðinginn í hringnum" í aðdraganda kosninganna, réði ferðinni, umræðuefnunum, bardagavettvangi og bardagaaðferðum.
Keppinautarnir áttu hvorki plan A eða plan B um viðbrögð og niðurstaða kosninganna varð eftir þessu.
![]() |
Tóku fjölmiðla með áhlaupi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)