"Þriggja spólu ferð"

Ég heyrði þessa setningu fyrst fyrir fimmtán árum þegar rúta ein stansaði við Staðarskála í Hrútafirði og út snaraðist hópur vaskra ungmenna úr myrkvaðri rútunni.

Ég spurði fararstjórann af hverju dregið væri fyrir glugga eftir föngum í rútunni og svaraði hann því til að það væri til þess að byrgja sem mest af sólskininu úti svo að unglingarnir gætu horft á kvikmyndir á meðan á ferðinni stæði.

"Þetta er það löng ferð, þriggja spólu ferð" útskýrði hann.

Ég innti hann nánar eftir þessu og sagði hann að hér væri um íþróttahóp að  ræða og í slíkum ferðalögum yrði að halda uppi sem bestum anda og ánægju ef árangurs ætti að vera að vænta.

Engum þarf að koma á óvart skondnar uppákomur á borð við þá um daginn þegar dagskrárgerðarfólk úr Reykjavík ætlaði vestur á Grundarfjörð en var orðið rammvillt norður í Hrútafirði og þurfti að hringja í fróðan mann til að fá leiðbeiningar um hvert halda skyldi.

GPS-tæknin hefur í ofanálag orðið til mikils tjóns varðandi þekkingu okkar á landi okkar, hvað þá á sögu þess og menningu.

Ég hef í starfi mínu um áratuga skeið fylgst með versnandi þekkingu Íslendinga á eigin landi, og gildir einu hvort um alþýðu manna er að ræða eða hámenntað fólk.

Frá þessu eru auðvitað undantekningar og ýmis áhugamál eins og útivist, hestamennska og ferðalög draga úr þessu hjá stórum hópum fólks.

En sagan af því hvernig Grundarfjörður var kominn norður í land er ekkert einsdæmi, því miður.


Bloggfærslur 19. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband