Sumarleyfi farin að hafa áhrif.

Davíð Oddsson, ritstjóri  Morgunblaðsins, er einn af ritsnjöllustu mönnnum þjóðarinnar og hefur mikið vald yfir tungunni.

Eftir talsvert suð mitt um málleysuna "bílvelta varð" sem óð uppi í fréttum á mbl.is brá svo við í lokin að farið var að skrifa "bíll valt"og ég gladdist yfir litlu og þakkaði Davíð þetta ósjálfrátt í huganum.

En nú er komið sumar og afleysingafólk greinilega tekið til starfa, því að nýtt afbrigði af "bílvelta varð" hefur nú litið dagsins ljós í frétt af óhappi við Þjórsárbrú.

Þar er sagt: "Bílvelta var", "....Lögregla mætti á svæðið. Ökumaður, sem var útlendingur, var einn í bílnum, reyndist sem betur fer heill á húfi"..."

Þetta vekur spurningar:

Valt þessi bíll á svo stóru svæði að þörf væri á að nota þetta orðalag?

Eða kom lögreglan inn á svæðið án þess að fara að bílnum? Eru orðin að koma og fara alveg að týnast úr tungunni og menn farnir að mæta hér og þar í stað þess að fara á fundi eða koma á fundi?

Er ekki nókkuð ljóst að fyrst einn maður var í bílnum þá hlyti hann að hafa ekið bílnum, þannig að óþarfi væri að taka það sérstaklega fram að þessi eini maður hefði ekið bílnum.  

Það er jafn mikill vandi að skrifa skýra og vel orðaða frétt þótt hún sé stutt og lítil eins og ef hún væri löng og stór.

Það hefði verið hægt að orða fréttina um óhappið á miklu styttri, skýrari og betur orðaðan hátt, til dæmis svona:

"Bíll valt skammt vestan við Þjórsárbrú og fór lögregla á vettvang. Útlendingur var í bílnum og reyndist ómeiddur."

Frábær íslenskumaður er ritstjóri Morgunblaðsins. En enginn má við margnum, ekki einu sinni Davíð Oddson.


Bloggfærslur 20. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband