21.6.2010 | 21:50
Nýr flugvöllur, Sauðárflugvöllur, kominn með starfsleyfi.
Í dag var gefið út starfsleyfi fyrir Sauðárflugvöll á Brúaröræfum. Flugvöllurinn er með fjórar flugbrautir, flughlað, upphitaðan íverustað í formi húsbíls, vindpoka, valtara og annað það sem krafist er fyrir flugvelli af þessari stærð, en lengd brauta og öryggissvæða þeirra er alls 3,7 kílómetrar og flugvöllurinn því á stærð við Reykjavíkurflugvöll.
Lengsta brautin er nothæf fyrir vélar á stærð við Fokker F50 vélar Flugfélags Íslands, sem getur komið sér vel í neyðartilfellum sem og næst lengsta brautin.
Flugvöllurinn er eini viðurkenndi og skráði flugvöllurinn á hálendinu af þessari stærð og raunar eru aðeins tveir skráðir flugvellir hjá Flugmálastjórn á öllu landsvæðinu norðan Vatnajökuls og þessi sá eini sem nothæfur er fyrir allar flugvélar sem eru í innanlandsflugi, smáar sem stórar.
Vegna þess að völlurinn er í 660 metra hæð yfir sjó er hann ekki nothæfur að vetrarlagi og hef ég tekist þá skyldu á herðar að halda honum við svo að hann sé nothæður og standist allar kröfur og láta í té upplýsingar um ástand hans.
Ég hef lent á vellinum frá síðustu mánaðamótum og brautir hans eru í mjög góðu ástandi.
Þær eru allar ágætlega merktar en þó verður að yfirfara þessar merkingar og breyta þeim samkvæmt kröfum þar um og er það verk framundan. Vindpokinn er skemmdur og annar verður settur í hans stað um næstu helgi.
Þegar því er lokið vonast ég til að geta haldið þarna opnunarathöfn.
Flugmálastjórn heldur úti upplýsingagjöf um flugvelli landsins, svo sem um það hvort þeir hafi verið valtaðir og yfirfarnir af ábyrgðarmönnum og stefni ég að því að hafa opnunarathöfnin í júlí og síðan árlega hér eftir þegar búið er að yfirfara völlinn eftir veturinn.
Ef vel er að því staðið verður þessi völlur nothæfur meira en hálft árið, þótt hann sé uppi á miðju hálendinu.
Undirbúningur að þessum áfanga í fluginu hefur staðið í sjö ár hefur alls þurft að leita eftir tíu mismunandi vottorðum og umsögnum til þess að öllum skilyrðum sé fullnægt.
Á þessu tímabili hefur þetta mál komið til kasta, athugunar eða umsagnar eftirtalinna aðila:
Flugmálastjórnar, sveitarstjórnar, landeiganda, Landsvirkjunar, flugklúbbsins eystra, Umhverfisstofnunar, Landmælinga Íslands, Imgpregilo á meðan það fyrirtæki var með starfsemi við Kárahnjúka, Mýflugs, fulltrúa Flugfélags Íslands á Akureyri, lögreglunnar á Egilsstöðum og sýslumannsins.
Fokker F50 gerði meira að segja aðflug að vellinum og sömuleiðis Boeing 757!
Efast ég um að sambærileg fyrirbæri hafi fengið svo margbreytilega og ítarlega umfjöllun.
Með þessum pistli fylgja myndir af vellinum, meðal annars úr ferðalagi okkar Helgu í gær þegar við fórum landleiðina frá Akureyri til að huga að vellinum og búnaði á honum.
Á leiðinni frá Möðrudal til vallarins, sem er rúmlega 60 kílómetra löng, er frábært útsýni á einum stað fyrir Fagradal og Herðubreið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.6.2010 | 20:06
Bara ef skuldirnar hefðu ekki orðið til !
Fyrir átta árum hafði kaupmáttur launa farið vaxandi í sjö ár og ef við lítum til baka var það bara bærilegt að lifa í þessu landi á þessum tíma fyrir flesta.
En 2002 byrjaði gróðærisæðið með þenslu, græðgi, neyslukapphlaupi og fjórföldun skulda heimilanna.
Ekki þarf nema að breyta einum staf í orðunum kaupmáttur launa til þess útkoman verði kaupmáttur lána sem yrði þá nýtt hugtak yfir það hvernig lánareikningurinn, afborganir, vextir og höfuðstóll koma út.
Útkoman úr honum er svo skelfilega neikvæð að engu skiptir fyrir þá verst settu hvort þeir búi við meiri kaupmátt nú en fyrir átta árum. Það er meginatriði málsins. Ef fólk hefði notað hið falska góðæri til að borga skuldir sínar í stað þess að fjórfalda þær væri öðruvísi um að litast í þjóðfélagi okkar.
![]() |
Kaupmáttur ekki minni í 8 ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2010 | 03:19
Lítið, skrýtið og sætt í bland ?
Ég var að koma til Reykjavíkur eftir flug frá Akureyri yfir Vatnajökul og Skaftá til Hvolsvallar og akstur frá Hvolsvelli til Reykjavíkur nú um klukkan þrjú að nóttu.
Var á leið akandi inn á Brúaröræfi þegar ég frétti af Skaftárhlaupinu, kláraði fyrst það verkefni og fór síðan í þetta.
Ég held að sérfræðinga þurfi til að segja til um, að svo stöddu, úr hvorum katlinum hlaupið kemur, þótt sá vestari virðist hafa sigið meira en hinn.
Efsta myndin er af honum með Grímsvötn og Öræfajökul í baksýn.
Katlarnir sjást mjög vel því að jökullinn er allur grádoppóttur eftir öskufall frá Eyjafjallajökli.
Neðar á bloggsíðunni er mynd af eystri katlinum.
Vatn í Skaftá kemur nú úr fjórum útföllum og er ekkert sérstaklega mikið vatnsmagn í neinum þeirra.
Ætla að henda inn nokkrum
myndum eftir atvikum, - fer eftir því hve vel gengur að koma þeim inn hvað þær verða margar.
Flestir tengja Skaftárhlaup við ljótleika, aur og sandburð, en í raun bjóða þau upp á slíka fegurð víða á leið sinni að ef þetta hlaup er lítið, mætti kannski segja að það verði lítið og sætt en kannski dálítið skrýtið.
P. S. Nú virðist ljóst eftir viðtöl við sérfræðinga að hlaupið komi úr vestari katlinum.
![]() |
Skaftárhlaup hafið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)