Mál í ólestri.

Skrifa mætti langan pistil um það hvernig þau mál sem snerta akstur utan vega eru í ólestri hér á landi. p1010305_1002732.jpg

Víða eru merkingar á kortum villandi og ósamræmi í þeim, þannig að slóðir, sem á gömlu herforingjaráðskortunum voru kallaðar "ridesti" eða reiðleiðir, eru nú inni á kortum sem svipaðar slóðir og til dæmis vegurinn upp í Kerlingarfjöll, sem er fær flestum bílum. 

Sumar þessara slóða, eins og á vestanverðum Kili eða upp með vesturbakka Hvítár undir Bláfelli eru algerlega ófærar jeppum. 

Málarekstur út af þessu er erfiður og menn kinoka sér við að fara út í hann. Viðurlög eru svo lítil að þau skipta engu máli. 

Er það öðruvísi en til dæmis í Bandaríkjunum þar sem lögð er 1000 dollara sekt, eða jafnvirði 130 þúsund króna, við því að kasta bjórdós eða eða sígarettu á víðavangi. 

Stór hluti torfæruhjóla er óskráður og innan eigenda þeirra er fjölmennur hópur sem telur sér ekki nægja að nota þá 23-32 þúsund kílómetra af vegum og vegaslóðum, sem fyrir hendi eru í landinu, heldur líka alla göngu- hesta- og kindaslóða. 

Ég þekki ekkert land í Evrópu eða Norður-Ameríku sem kemst í námunda við það "ferðafrelsi" sem fjölmargir vilja að ríki nær óskert hér á landi. 

Myndin sú arna er tekin við Folavatn austan Snæfells þegar tvöföld umhverfisspjöll voru í gangi þar í fyrravor, annars vegar að drekkja vatninu með hólmum sínum, grónum bökkum og um margt einstöku lífríki í sveiflukennd og jökullitað miðlunarlón og hins vegar umferð vestan við vatnið á þeim tíma sem landið var blautt að vorlagi.


mbl.is Beðið um að tilkynna um utanvegaakstur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvö af tískuorðunum: "Að leysa úr" og "gegn".

 Ég hyggst af og til leggjast á sveif með Eiði Svanberg Guðnasyni í ábendingum og umræðum um notkun íslenskrar tungu. 

Eitt af viðfangsefnum verða þau orð, sem ég vil kalla tískuorð. 

 Íslenskan býr yfir mörgum góðum orðum til að lýsa flestu því sem til er. Sífellt koma þó upp eins konar tískuorð, sem ryðja burtu góðum og gegnum orðum af ýmsu tagi.

Ég heyrði eitt af þessum tískuorðum rétt áðan í útvarpi notað svona: "...til að leysa úr óvissu..."

Hingað til hefur orðið að "eyða" verið notað um þetta og hefði þá verið sagt: "...til að eyða óvissu..."

En þetta tískuorð þrengir sér sífellt víðar inn og þykir fínt, samanber hið margtuggða "...að leysa inn á línuna..." þegar handboltamaður hleypur úr stöðu sinni inn á línuna. 

Enn meira tískuorð er orðið "gegn". Hér áður fyrr glímdu menn, börðust, léku, spiluðu eða tefldu við mótherja. Einnig öttu menn kappi hverjir við aðra eða kepptu við hver annan.

En nú er þetta alveg að hverfa. Nú glíma menn gegn hinum og þessum eða berjast gegn þeim, og líklega fellur síðasta vígið, að tefla við einhvern, bráðlega og skákmenn tefla gegn hver öðrum. 

Tískuorðin lýsa fátæklegum orðaforða og eru sum hver beinlínis notuð ranglega og ég get ekki séð að það sé fallegra og betra að segja að einhver keppi gegn einhverjum heldur en að segja að einhver keppi við einhvern. 

 


Aftur um 40 ár. Mannslífum verður fórnað.

Ástandið, sem nú er að dynja á, færir öryggismál sjómanna og raunar landsmanna allra aftur fyrir 1970 þegar bandaríski herinn fékk fyrst stórar björgunarþyrlur af Sikorsky gerð til landsins.

Þá fyrst komst viðbúnaður í björgunarmálum hér á landi á viðunandi stig sem byggist á því að minnst þrjár björgunarþyrlur séu á landinu, en raunar er það of lítið ef tryggt á að vera að ætíð sé þyrla til taks. 

Sveit hersins varð því búin fimm þyrlum og til viðbótar við þær voru þyrlur landhelgisgæslunnar, fyrst ein og síðar tvær. 

Hvers vegna þarf svona margar þyrlur?  Ástæðan er sú að þyrlur eru miklu flóknari tæki en flugvélar og þurfa miklu viðameira og tímafrekara viðhald.

Þær eru því miklu lengur frá en flugvélar vegna viðhalds og skoðana. 

Þetta mál er grafalvarlegt því að nú er komin upp sú staða að það verður ekki spurning um hvort, heldur hvenær mannslífi eða mannslífum verður fórnað í sparnaðarskyni. 

Leitun hlýtur að vera að öðru eins ástandi á nokkru sviði og nú er að skapast í öryggismálum landsmanna.  Verður þjóðin tilbúin að horfast í augu við það sem þetta ástand kallar á að gerist? 


mbl.is Björgunargetan ekki burðug í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband