23.6.2010 | 08:44
Margþætt mál.
Forsaga verðtryggingarinnar er löng. Með svonefndum Ólafslögum 1979 var bundinn endir á eitt mesta ranglæti og eignatilfærslu (þjófnað) sem viðgengist hafði í sögu landsins.
Hún fólst í því að óviðráðanleg heimatilbúin verðbólga eyddi sparifé landsmanna og færði lántakendum hundruð milljarða á núvirði á silfurfati.
Lánastofnanir og sparifjáreigendur tóku alla áhættuna af verðbólgusveiflunum en lántakendur nær enga.
1983 varð svipað hrun og 2008 að því leyti að hér komst verðbólga upp í 130%. Harkalegar en nauðsynlegar aðgerðir vegna þess bitnuðu þá á afmörkuðum hópi ungs fólks (Sigtúnshópurinn) sem var að koma sér upp húsnæði og sat eftir með sárt ennið.
Með verðtryggingunni er búið til nýtt óréttlæti sem felst í því að nú er dæminu snúið við frá því sem var fyrir daga hennar.
Fyrir daga hennar tóku lánveitendur og sparifjáreigendur alla áhættuna en lántakendur enga.
Með verðtryggingunni tóku hins vegar lántakendur alla áhættuna en lánveitendur enga.
Það er alveg eins óréttlátt og hið fyrra ástand.
Aðstæður lántakenda í gróðærisbólunni er eins mismunandi og lántakendur eru margir.
Tugþúsundir fólks átti engan þátt í eða gátu ekki tekið þátt í dansinum um hinn ímyndaða gullkálf.
Aðrar tugþúsundir tóku ekki meiri lán en svo að í eðlilegu ástandi hefðu þau verið tekin af fullri ábyrgð og ekki til að standa undir neinu bruðli.
Það er ekki réttlátt að þessir tveir hópar taki á sig allan skellinn af hruninu.
Hitt er líka augljóst að tugþúsundir fólks skellti skollaeyrum við því sem var morgunljóst, að hér var haldið uppi þenslu og 30-40% of háu gengi sem útilokað var að gæti staðist til langframa, og tók lán til að standa undir allt of stórum fjárfestingum og bruðli með áhættu, sem var allt of mikil.
Og ein staðreynd, sem stingur í augu, er sú að skuldir heimilanna fjórfölduðust í stað þess að minnka eins og eðilegt hefði verið þegar vel árar.
Það er ekki hægt að segja að minnihluti þjóðarinnar hafi staðið að þessari lánasprengingu og meirihlutinn beri enga ábyrgð á því. Þessi tala, fjórföldun skulda, er einfaldlega allt of há til að slíkt geti staðist.
Meirihluti þjóðarinnar kaus þá stjórnmálamenn sem stóðu að stærsta efnahags-fíkniefnapartíi Íslandssögunnar á kostnað komandi kynslóða.
Og meirihluti þjóðarinnar tók þátt í því.
Það er óréttlátt að lántakendur taki á sig allan skellinn af hruninu en lánveitendur sleppi. Það voru nefnilega lánveitendur og stjórnmálamennirnir sem stóðu á bak við þá og kyntu þetta bál,- sem hvöttu allan almenning til að taka þátt í þessu og þögguðu niður alla gagnrýni á þetta ástand græðgis og bruðls.
Allir verða að líta í eigin barm og draga ekkert undan ef gera á upp þetta dæmi á eins sanngjarnan og skynsamlegan hátt og unnt er.
![]() |
Bruðlurum bjargað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
23.6.2010 | 05:32
Hin "hreina og ómengaða" orka.
Íslendingar berja sér á brjóst og auglýsa landið sem hið hreinasta og ómengaðasta sem finnist.
Samt er rekið upp ramakvein ef eitthvað á að gera til að tryggja það að svo sé.
Það gengur hins vegar ekki upp að auglýsa vöruna sem einstaka en gera samt minni kröfur til hennar en annars staðar tíðkast.
Fyrir fjórum árum stóðst loftið í Reykjavík ekki kröfur Kaliforníu um lykt í lofti 40 daga á ári vegna brennisteinsmengunar sem kemur frá virkjununum á Nesjavöllum og Hellisheiði.
Nú er ástandið vafalaust mun verra eftir að útblásturinn hefur veirð stóraukinn.
Við verðum að geta staðið undir öllum upphrópununum um hreinleika og sjálfbærni en það gerum við alls ekki á mörgum svæðum.
Við viljum fá erlenda viðskiptavini á sviði ferðamennsku og orkunýtingar með því að auglýsa hluti en leyna því samt þegar þessar auglýsingar standast ekki.
Eitt nýjasta dæmið er hugmyndin um svonefnda Helmingsvirkjun Jökulsár á Fjöllum, sem byggir á því að taka "helminginn" af vatni árinnar og fara með það í burtu í nýja virkjun.
Á sama tíma ætla menn að auglýsa Dettifoss sem aflmesta foss Evrópu og fá ferðamenn til að kaupa það. Sömuleiðis að guma af hinum stórkostlega Vatnajökulsþjóðgarði, sem státar af þessari á, Jökulsá á Fjöllum, friðaðri.
Menn segja að það fari saman að áin sé friðuð og að hún sé virkjuð. Þessi séríslenska hugsun er þess eðlis að þegar maður heldur þessu fram erlendis er maður talinn viðundur.
Í Ameríku er þetta afgreitt svona: "You can´t have the cake and eat it too". Virkjanir og friðun fara einfaldlega ekki saman. Það er bráðum öld síðan menn héldu slíku fram í öðrum löndum.
Sumar jarðvarmavirkjanirnar verða orðnar orkulausar eftir nokkra áratugi vegna þess að meiri orku er tappað af jarðvarmasvæðum þeirra en þau standa undir.
Þetta er samt auglýst sem "sjálfbær notkun" og "endurnýjanleg orka."
Í öllu uppleggi svonefndrar Rammaáætlunar miðast orkutölur við afköst virkjana, sem ekki er hægt í mörgum tilfellum að láta haldast óbreytt nema í nokkra áratugi og eftir það verður að "hvíla" svæðin í jafnlangan eða jafnvel tvöfalt lengri tíma.
Þá þarf auðvitað að virkja einhvers staðar annars staðar á meðan til að bæta þetta upp en ekkert tillit er tekið til þess. Nei, komandi kynslóðir eiga að fá verkefnið og reikninginn.
![]() |
Lengra gengið en annars staðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 05:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.6.2010 | 05:19
Orkar mjög tvímælis.
þegar ég var á ferð í Osló fyrir mörgum árum varð mér það á að leggja bílnum þannig að ég fékk síðar í hausinn bréf um að borga sekt.
Þá var ég kominn heim til Íslands en fór í banka og greiddi sektina. Mér hefði fundist það ósanngjarnt að norska bílaleigan borgaði þessa sekt og myndi sem eigandi bílaleigu hér líka finnast slíkt fyrirkomulag ósanngjarnt.
![]() |
Bílaleigur gætu þurft að greiða sektirnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)