25.6.2010 | 16:03
Rússnesk orkunýtingarrúlletta.
Stefnan sem fylgt hefur verið í orkuveitumálum Reykvíkinga hefur verið glæfraleg um áraraðir, ekki aðeins í fjármálum heldur jafnvel enn frekar í nýtingu orkunnar.
Svo langt hafði þetta gengið fyrir áratug að Jóhannes Zoega, fyrrverandi hitaveitustjóri, sá sig tilknúinn að skrifa grein þar sem hann varaði við þeirri ábyrgðarlausu orkunýtingarrúllettu, sem væri í gangi.
Lítið var á hann hlustað þótt hann vissi vel hvað hann var að segja. Það hafði nefnilega munað sáralitlu að höfuðborgarsvæðið yrði fyrir barðinu á skorti á heitu vatni vegna þess að dælt hafði verið hraðar upp úr nýtingarsvæðunum en þau þoldu til lengdar.
Nesjavallavirkjun bjargaði þessu í horn á síðustu stundu, en þar var samt bara bætt í orkunýtingarfíknina þannig að þegar farið var að framleiða rafmagn til að selja á spottprís fyrir stóriðjuna, munaði aftur litlu að það bitnaði á heitavatnsframleiðslunni.
Þurfti að leggja í mikla fjárfestingu til þess að bjarga því klúðri, sem blasti við af sömu ofnýtingarorsökum og því fyrra.
Í annað sinn var hægt að bjarga í horn með Hellisheiðarvirkjun, en enn og aftur er sótt í það að pumpa meira upp úr jörðinni en svæðið afkastar til lengdar. Raunar er jafnvel enn verra ástand hjá HS orku á Reykjanesi.
Græðgi, skammsýni, ofríki gagnvart komandi kynslóðum og ábyrgðarleysi hafa einkennt stefnu orkuveitnanna á Reykjanesskaganum og í orkunýtingarmálum landsins almennt.
Þetta er ekki síður efni í viðamikla rannsókn en unnin var vegna hrunsins en það er eins og enginn fjölmiðill hafi áhuga á eða burði til að takast á hendur þetta mesta nauðsynjamál samtímans.
Nú er þörf á róttækri breytingu, ekki aðeins í fjármálum og ekki aðeins á orkunýtingarstefnunni, heldur líka á sölu orkunnar og vali á kaupendnum hennar.
![]() |
Ný stjórn OR innleiði nýja stefnu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)